Eldfjallalist er heimildarverk er um leirkerasmíði og hönnun á nytjalist, en einnig hvernig íslensk jarðefni eru notuð til að skapa hönnunarverk.
Við heyrðum í G. Helgu Ingadóttur til að fá að vita meira um verkefnið.
Getur þú sagt okkur frá verkefninu? Út á hvað gengur það og hvaðan kom hugmyndin?
"Við ákváðum að gera heimildarmynd, sem að er kannski ekki hefðbundin leið, til að kynna okkar list og fjalla um þessa gerð listgreinar, nytjalist og hönnun á henni. Að renna á bekknum er mörg þúsund ára gömul hefð og eins í grunninn, nema að núna er notað rafmagn til að knýja bekkinn í staðinn fyrir eigið afl. Hins vegar er ekki löng hefð fyrir leirkerasmíði á Íslandi, þar sem að okkar fyrsti leirkerasmiður var uppi á síðustu öld, Guðmundur frá Miðdal.Við höfum oft talað um að vinna hluti fyrir sýningu, svona þema af tekötlum, eða vösum – já eitthvað þessháttar, en okkar tilfynning er sú að það þurfi að kynna betur hvað er á bak við handverkið. Það er bæði hugsun um form, jafnvægi, þyngd, sem og útlit á hverjum hlut, já – hönnunin er ekki tilviljun ein. Hefðin er líka mjög sterk í þessar grein, vissulega mismunandi eftir hvaðan hún er, en Þór (Sveinsson, leirkerasmiður sem vinnur að verkefninu með G. Helgu) er undir miklum áhrifum frá japanskri leirlist. Við vonumst til að með tilkomu myndarinnar, munum við geta aukið skilning fólks á þessar tegund listar, því að bolli er ekki bara bolli."
https://vimeo.com/113910372
Byrjuðu um aldarmótin
Hafið þið unnið lengi að þessu?
Við höfum unnið saman frá því árið 2000, en Þór er búinn að vera mun lengur í faginu og byrjað í kring um 1970. Hann var leirkerasmiður og hönnuður í Glit, sem að var starfandi leirkeraverkstæði á sjötta áratugnum og fram á þann níunda. Frá 1975 - ´79 var hann með Guðna Erlendssyni í gömlu Eldstó, sem var mjög framsækið leirkeraverkstæði við Miklatorg. Guðni rak tvær verslanir þar sem handverkið var selt, Verslunin Númer 1 í Aðalsstræti og aðra á Laugarveginum. Þannig að nafnið var til, en ekki frátekið þegar við byrjuðum í leirnum í kring um aldamótin 2000. Ég lærði ég svoldið í myndlist í FB, en einnig fékk ég einkakennslu hjá listmálara, Gunnari Geir Kristjánssyni, frá 12 ára aldri. Ég hef farið á námskeið í leirmótun og glerungagerð, ásamt því að hafa notið góðs af leiðsögn eiginmanns míns.
Hver er tengingin við eldfjöll?
"Hún er sú að við notum í glerungana okkar íslensk jarðefni, sem að hafa orðið til við eldgos. Annars vegar er það Búðardalsleir, en yfir 40 miljón tonn eru til af honum og hins vegar Hekluvikur. 2005 hófum að gera „Eldfjallaglerunga“ í samstarfi við Bjarnheiði Jóhannsdóttur, sérfræðing í efnafræði glerunga. Ekki má nota hvaða efni sem er í glerung sem kemst í snertingu við matvæli og því var það mikill fengur að hafa hana í liðinu. Eldfjallaglerungar eru þrónunarverkefni og hafa tekið breytingum í áferð og lit á þessum 10 árum. Litirnir minna á hveri, hafið og norðurljósin og því má segja að Ísland sé sýnilegt í listmununum."
Hægt er að skoða verkefnið nánar og leggja því lið hér.