Móðir mín vildi að ég yrði stelpa, þar sem hún var þegar búin að eignast tvo stráka. Mér finnst þetta skiljanlegt, enda hlýtur það að vera vilji hvers foreldris að afkvæmaflóran verði sem fjölbreyttust, þó að ef til vill sé ómögulegt að hún verði að Benetton-auglýsingu nema með hjálp góðra manna sem eru af ýmsu bergi brotnir. Niðurstaðan var strákur en móðir mín tjáir mér að hún hafi verið ánægð með þá niðurstöðu sem kom í fangið á henni og kyn skipti ekki lengur máli. Ég trúi henni. Svo eignaðist hún stelpu tveimur árum síðar, þannig að allt blessaðist.
Allt sem þú lest um standandi þvaglát er lygi
Ýmislegt er hægt að læra af konum. Þær konur sem ég þekki til eru að mörgu leyti pragmatistar. Þær pissa sitjandi af því að það er ekki hreinlátt að pissa standandi og þær ganga um með stór veski sem þær geyma alls konar dót í. Ég tilkynni lesendum mínum hér og nú að ég á það sameiginlegt með Þorgrími Þráinssyni að við erum karlmenn sem pissa sitjandi. Svo lengi lærir sem lifir og ég byrjaði á þessu eftir að ég hóf rekstur á eigin heimili. Ég hafna því að karlmenn hafi gott vald á því öllum stundum að hitta ofan í klósettskálina og það er ömurlegt að þrífa piss af klósettgólfi. Mér er tjáð að sitjandi þvaglát hafi aðra kosti, svo sem að það tæmi blöðruna betur, en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. En sumir telja þetta ekki vera karlmannlegt.
Þeir sömu telja það vart karlmanni sæmandi heldur að ganga um með veski, en ég fékk mér slíkt um daginn þegar ég var orðinn þreyttur á að fylla vasana mína af seðlaveski, lyklum og risastóra símanum mínum sem jaðrar við að vera spjaldtölva. Það er nú meiri snilldin, skal ég segja ykkur. Ég þarf ekki lengur að vera með neitt í vösunum þannig að mér líður eins og Bandaríkjaforseta, ímynda ég mér, fyrir utan það að hann er ekki með veski heldur geymir lyklana og símana hjá undirmönnum sínum. Það mætti segja að veskið sé tímabundin lausn þangað til ég hef efni á að ráða mannlegt veski til að geyma alla hlutina fyrir mig. Karlmannsveskið mitt vekur oft athygli. Þetta þykir vera pínulítið óvenjulegt, en það mótmælir því enginn hvað þetta er þægilegt.
Baráttan milli góðs og dólgs
Þegar ég fékk pistil fyrst birtan hér í Kjarnanum gerði umbrotsmaður mistök og nefndi mig Konráð Jónsdóttur í fyrirsögn. Mér skilst að allt hafi ætlað um koll að keyra hjá ritstjórninni og allt kapp hafi verið lagt á að lagfæra þessa villu. Ég verð að viðurkenna að mér fannst þessi villa óþægileg. Síðan þá hef ég mikið velt því fyrir mér af hverju. Er það niðurlægjandi fyrir karlmann að vera kallaður kona, eða stafaði vanlíðanin einfaldlega af því að rangt var farið með nafn mitt? Hvernig hefði mér liðið ef það hefði staðið „Konráð Hermannsson“? Ég á mjög erfitt með að segja til um hversu óþægilegt það sé í samanburði við hitt. Innra með mér hefur farið fram freudískt samtal á milli hinna mismunandi hliða sjálfsins. „Sæll, Frumhvata-Konráð, Rökhugsunar-Konráð hér. Af hverju finnst þér óþægilegt að vera kallaður dóttir en ekki son? Er eitthvað að því að vera kona?“ Þessi umræða stendur enn yfir og hefur ekki skilað niðurstöðu.
Fyrirsögn þessa pistils er fengin úr dönskutíma sem ég sat einhvern tímann í fyrndinni, þegar nemendurnir voru fengnir til að semja einfaldar málsgreinar á dönsku og bekkjarfélagi minn smíðaði þessa. Öðrum, þar á meðal mér, þótti hún fyndin í einfaldleika sínum en mér fannst hún vera niðurlægjandi. Aftur: Af hverju? Það er ekkert verra að vera kona en karl. Ég virðist hafa brotið niður þessa fordóma innra með mér að mörgu leyti með karlmannsveskinu mínu og því að pissa sitjandi, en það situr enn eftir einhver dólgur sem vill ekki láta bjóða sér að kvengera sig. Til að hjálpa Rökhugsunar-Konráði í þessari baráttu við Frumhvata-Konráð óskaði ég vinsamlega eftir því að villan í nafninu mínu yrði endurvakin í tilefni þessa pistils. Gjörið þið svo vel.