Það fór væntanlega ekki fram hjá mörgum þegar sjö konur stigu fram árið 2010 og sökuðu Gunnar Þorsteinsson, betur þekktan sem Gunnar í Krossinum, um kynferðislega áreitni. Málið vakti mikla athygli í fjölmiðlum og fjallaði vefmiðillinn Pressan mikið um málið. Til að gera langa sögu stutta var Gunnar mjög ósáttur við umfjöllun Pressunnar og hefur nú höfðað meiðyrðamál á hendur Steingrími Sævarri Ólafssyni, fyrrum ritstjóra Pressunnar, ásamt Ástu Knútsdóttur og Sesselju Engilráð Barðdal, talskonum kvennana sjö.
Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Gunnars, sagði fyrir dómi að umfjöllun fjölmiðla um ásakanir kvennanna á hendur Gunnari hafi lagt líf hans í rúst. „Þetta gerðist á einni nóttu og það hrundi allt hjá honum,” sagði Einar Hugi jafnframt og bætti við: „Líf hans var lagt í rúst. Ekki bara nóg með það, heldur missti stefnandi stóran hluta vina og kunningjahópsins. Málið hefur reynst honum eins erfitt og hugsast getur.” Þá hafi Gunnar „hrökklast úr ævistarfi sínu, sem hann hafði gegnt í aldarfjórðung.“ (DV.is)
Hér verður ekki lagt mat á sannleiksgildi þessara frásagna en það er hins vegar ákveðin kaldhæðni fólgin í því að umfjöllun fjölmiðla um meiðyrðamálið og vitnisburð fólks sem hefur verið leitt fyrir dóminn er einhvern veginn miklu nákvæmari og grafískari en umfjöllun Pressunar um meint kynferðisbrot var nokkurn tíma. Undanfarna daga höfum við séð fyrirsagnir í fjölmiðlum á borð við „Hann talar um að geirvörturnar séu brúnar og vildi fá smakk“ (Visir.is) og „Hann er siðblindur raðpedófíll sem er búinn að misnota fullt af fólki í skjóli trúarinnar” (DV.is). Sannarlega ekki fyrirsagnir sem líklegar eru til að bæta mannorð og ímynd Gunnars og það hafa sennilega fáir þjóðþekktir menn á undanförnum árum komið jafn illa út í umfjöllun fjölmiðla og Gunnar í þessu máli. Og þá má spyrja, hefði hann betur setið heima og sleppt því að höfða þetta meiðyrðamál? Hefði honum átt að vera ljóst að áhugi fjölmiðla á málinu yrði mikill og umfjöllun um málið gæti hugsanlega verið mjög skaðleg fyrir hann?
Nú veit ég ekki hvort Gunnar hafi fengið ráðgjöf frá almannatengli áður en hann höfðaði þetta meiðyrðamál en flestir hefðu sennilega ráðlagt honum að skoða málið vandlega frá öllum hliðum áður en hann tæki ákvörðun. Áhættustjórnun er nefnilega þekkt víðar en í fjármálaheiminum og er mikið notuð af almannatenglum til þess að hjálpa þeim að meta aðstæður áður en farið er í aðgerðir. Áhættustjórnununarferlið miðar að því að finna áhættur, greina þær og meta og ákveða aðgerðir til þess minnka áhættur, eyða þeim eða einfaldlega sætta sig við þær. Til þess að meta aðstæður hefði Gunnar getað spurt sig nokkurra einfaldra spurninga; Hvern hefur málið áhrif á? Hver hefur hagsmuni af málinu? Hver er í aðstöðu til þess að hafa áhrif á framhald málsins? Hvernig byrjaði málið? Hverjir eru gerendur í málinu? Hefur málið áhrif á aðra en gerendur og þolendur? Með öðrum orðum, lesa salinn.
Það verður að teljast líklegt ef Gunnar hefði skoðað málið ofan í kjölinn og velt því fyrir sér frá öllum hliðum að hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að miklar líkur væru á að umfjöllun fjölmiðla um málið yrði mikil, réttarhöldin yrðu skrifuð upp af blaðamönnum nánast orð fyrir orð, að fyrir dóminn yrðu leidd vitni og aðilar tengdir málinu sem myndu lýsa ítarlega sinni upplifun af samskiptum við Gunnar og að nokkuð öruggt væri að þetta myndi sýna Gunnar í neikvæðu ljósi. Í framhaldi af því þyrfti Gunnar svo að meta hvort það væri þess virði að sækja málið fyrir dómstólum, vitandi það að umfjöllun fjölmiðla yrði honum líklega mjög erfið. Almanntengillinn hefði ráðlagt honum að gera ekki neitt, sem er oft besta taktíkin, en lögmaðurinn hefði eðlilega ráðlagt honum að leita réttar síns. En það væri áhugavert að vita hvort Gunnar myndi höfða þetta meiðyrðarmál núna ef hann vissi það sem hann veit í dag.
Greinin birtist í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.