Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Það eru merkilegir tímar núna, svo mikið er víst. Líklegt er að það muni skýrast í dag, hvernig leyst verður úr 226 milljarða skuldbindingu milli nýja og gamla Landsbankans. Helst er horft til þess að lengja í láninu, en fleiri atriði þurfa að koma til, svo fjármálastöðugleiki sé tryggður. Á sama tíma og þetta mikla hagsmunamál þjóðarbússins er til umfjöllunar, þá er komin upp gríðarlega snúin staða í heilbrigðiskerfinu. Allar fagstéttir í heilbrigðiskerfinu hafa snúið bökum saman, með sjúkum og aðstandendum þeirra, samtals 45 samtök, og segja einfaldlega; hingað og ekki lengra, það er ekki hægt að skera meira niður, forgangsraðið í þágu heilbrigðismála. Sá sem stendur ekki síst frammi fyrir þessum vandamálum er Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra. Það er orðið aðkallandi að hann tjái sig ítarlega um þessar útlínur í efnahagsmálum þjóðarinnar og tali til almennings. Skýri málin og stefnuna í ríkisfjármálum. Því verður ekki trúað að óbreyttu, að heilbrigðiskerfið verði látið taka skell, læknar verði í verkfalli og grafið verði undan mikilvægustu samfélagsstofnun landsins. Landspítalanum.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.