Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Karlalandslið Íslands í fótbolta mætir Lettlandi í dag, klukkan 18:45, í öðrum leik riðilsins í undankeppni EM. Fyrsti leikurinn vannst 3-0 gegn Tyrkjum, vonandi mun ganga vel áfram. Einn leikmanna liðsins, Emil Hallfreðsson, hefur verið í viðtölum upp á síðkastið við fjölmiðla. Hann missti föður sinn nýlega úr krabbameini og hefur sýnt hversu heilsteyptur og magnaður fulltrúi íslenskra íþrótta á erlendri grundu hann er. Hann er fjölskyldumaður sem lætur verkin tala á vellinum, er í toppbaráttu í Sería A með Hellas Verona á Ítalíu, og hefur bætt sig mikið sem leikmaður. Í áhugaverðu viðtali við vefsíðuna Fotbolta.net ræddi hann um heilbrigðiskerfið, og alvarlega stöðu sem blasti við honum, og sagði þar meðal annars. „Þetta hefur fengið mann til að hugsa um hvernig heilbrigðiskerfið er á Íslandi. Pabbi þurfti að breyta um lyf sem fóru mjög illa í hann - lyf sem síðar kom í ljós að virkuðu ekki á meinið. Þegar hann var alveg að fram kominn hafði hann samband við lækninn sinn, sem reyndist vera í fríi. Þá komumst við að því að að það voru einungis tveir krabbameinslæknar á Landspítalanum og því gat enginn sinn honum í tvo mánuði. Maður hefur aldrei pælt í svona hlutum og hversu skert þjónustan er á Íslandi. Ef pabbi hefði haft betri eftirfylgni tel ég að honum hafi getað liðið betur, verið minna kvalinn, síðasta einn og hálfan mánuðinn eða svo.“ Sannarlega umhugsunarefni.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.