Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Í september árið 2009, þegar markaðir á Íslandi voru rústir einar, ef svo má segja, gerðist sá fátíði atburður að sjóðir á vegum eins af stærstu eignastýringarfélögum heimsins, Columbia Wanger Asset Management, komu hingað til lands með milljarða í erlendum gjaldeyri og áttu viðskipti með skráð hlutabréf. Sjóðirnir keyptu 5,2 prósent hlut í Marel á genginu 59 og studdu myndarlega við félagið á mikilvægum tíma. Nú fimm árum síðar hafa sjóðir Columbia verið að selja nær öll bréf sín. Bréfritari fékk af því spurnir að bréfin hafi verið seld á genginu 120 til 125,5 í síðust viku og að sjóðirnir hafi náð að fá greitt í gjaldeyri og þannig ekki setið eftir með krónueignir. Það er ekki hægt að segja annað en að þetta hafi verið góð viðskipti fyrir sjóðina, á þessum fimm árum, þegar upp var staðið. Vonandi fara fleiri erlendir fjárfestar að pæla í Íslandi sem fjárfestingakosti, fyrst það er hægt að græða svona vel á viðskiptum sem þessum, og það innan fjármagnshafta!
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.