Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Stundum koma fram hugmyndir um eignasölu hjá ríkinu, til þess að grynnka á skuldum eða styrkja fjárhag ríkissjóðs, sem valda miklum pólitískum titringi. Það á svo sannarlega við um Landsvirkjun. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hefur viðrað hugmyndir í þá veru að íslenskir lífeyrissjóðir myndu eignast hlut í Landsvirkjun á móti ríkinu, og ríkið þar með selja frá sér hlut í fyrirtækinu. Virði þess, miða við 1 x eigið fé, er tæplega 200 milljarðar króna. Það jákvæða við þessa sölu yrði fyrst og fremst tvennt. Í fyrsta lagi fengi ríkið umtalsvert fé til þess að greiða niður skuldir (nema að stjórnmálmenn vilji dreifa þeim skipulega inn á verðtryggð húsnæðislán sumra, hver veit?) og lífeyrissjóðirnir fengju möguleika á því að kaupa „erlenda eign“, það er eign með erlendu tekjustreymi. Þetta myndi vera æskileg áhættudreifing fyrir lífeyrissjóðina. Ókostirnir við þessa aðgerð eru ekki svo augljósir að mati þess sem þetta skrifar - nema þá að lífeyrissjóðirnir myndu eitthvað fara að spila með þessa eign og selja hana öðrum. Það er viðkvæmt mál á jafn litlum markaði og Íslandi. Það væri einfaldlega hægt að girða fyrir þennan möguleika með samningi þar um. Það er, að eignarhlutur lífeyrissjóðanna í Landsvirkjun væri alltaf bundinn til langs tíma, nema þá að ríkið ákveði að kaupa aftur. Ef þetta væri erfitt pólitískt, þá ætti hugsanlega að vera hægt að koma með annan möguleika að borðinu. Það er að ríkið selji Kárahnjúkavirkjun sérstaklega, en hún er sett upp til að afhenda álveri Alcoa á Reyðarfirði rafmagn. Íslenska ríkið hefur ekki það grunnhlutverk að sinna áhættumiklum afleiðuviðskiptum sem tengd eru álverði. Lífeyrissjóðirnir eru hins vegar með mikið magn sinna fjármuna bundna í verðbréfaeignum sem hafa áhættu bundna í viðlíka rekstri, meðal annars erlendis. Með þessu myndi Landsvirkjun halda sínum helstu eignum, landsnetinu sjálfu þar á meðal, alfarið hjá ríkinu, en tekjustreymið af þessari tilteknu virkjun færi hins vegar til lífeyrissjóðanna, og á endanum til almennings, einfalt á litið. Þetta gæti líka leitt til þess að umræðan um sölu á raforku um sæstreng færi upp úr skotgröfunum, þar sem stjórnmálamenn vilja sumir hverjir halda henni. Á einkaréttarlegum forsendum gæti verið hægt að meta hagsmunina af því að selja álverum raforku, eða um sæstreng til Bretlands t.d. Það myndi draga betur fram hvaða hagsmunir væru í húfi. En þessi pæling er líklega sjálfdauð. Stjórnmálamenn hafa ekki nógu mikinn áhuga á þessu. Enn sem komið er...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.