Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Í vikunni mun skýrast hvernig skuldaniðurfellingaraðgerð stjórnvalda, leiðréttingin, mun koma út fyrir fólk og hversu mikið hver og einn mun fá úr ríkissjóði til lækkunar á verðtryggðum húsnæðisskuldum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segist ánægður með gang mála og staðið verði við allt sem sagt hefur verið um aðgerðirnar. Eins og oft hefur komið fram, meðal annars á þessum vettvangi, þá eru þessar aðgerðir vægast sagt umdeildar. Það mun koma í ljós hvernig sagan mun dæma þessa forgangsröðun í eyðslu fjár úr sameiginlegum sjóði landsmanna. En það verður að teljast með ólíkindum, að hægt sé að ná í 80 milljarða í skuldum vafinn ríkissjóð, til að greiða lítið eitt inn á verðtryggðarskuldir fólks - óháð því hvort fólk þarf yfir höfuð að fá peningana eða ekki - á meðan skurðaðgerðum er frestað vegna verkfallssaðgerða lækna. Hinir veiku þjást á meðan, og vandi heilbrigðiskerfisins, þó í grunninn sé sterkt, vex einnig. Það sem hefur komið á óvart við þessar aðgerðir stjórnvalda er að þrátt fyrir að þau hafi sýnt staðfestu, með því að hrinda loforði Framsóknarflokksins (í það minnsta að hluta) í framkvæmd, þá hefur fylgið ekkert aukist heldur þvert á móti minnkað. Þetta sýnir kannski hvað stjórnmálin geta verið óútreiknanleg og almenningsálitið sömuleiðis.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.