Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Eins og þegar er orðið ljóst er náttúrupassinn svonefndi mikið vandræðamál fyrir ríkisstjórnina og Ragnheiði Elínu Árnadóttur ráðherra. Hún á mikið verk fyrir höndum við að afla þessu máli stuðnings, en eins og fram hefur komið er það óvíða óvinnsælla en einmitt innan ferðaþjónustunnar. Það virðist bara vera Icelandair Group sem styður náttúrupassaleiðina en fáir aðrir innan geirans. Forvitnilegt verður að fylgjast með gjaldtöku í ferþjónustunni í Námaskarði í sumar. Þar kom upp kostulegt atriði í fyrra. Þá hófu einstaklingar að innheimta gjald af ferðamönnum við hveri austan Námaskarðs í Mývatnssveit. Þessir einstaklingar voru í órétti, og var lögbann á þennan glórulausa verknað staðfest 17. júlí í fyrra. Á þessu svæði skarast einkaréttarlegt eignarhald og opinbert eignarhald - og opinbert umráðasvæði - á landi. Af þeim sökum var ótrúlegt að þessum einstaklingum hafi dottið það í hug að þeir gætu hafið gjaldtöku og talið sig vera í rétti til þess, án pólitískrar stefnumörkunar, samstöðu meðal landeigenda allra og skýrrar leiðsagnar í lögum. Fyrir einstaklingunum fór Ólafur H. Jónsson, sem kallaði sig talsmann landeigenda, í viðtölum við fjölmiðla. Svo óheppilega vildi til í fyrrasumar, að í þann mund sem þessi ólöglega gjaldtaka var að hefjast við hverina, þá var Ólafur úrskurðaður gjaldþrota endanlega eftir dóm Hæstaréttar þar um. Óhætt er að segja að þetta hafi ekki farið vel saman við boðskap landeigenda, sem höfðu þá grundvallarröksemd út á við, að með gjaldtökunni ætti að horfa til langrar framtíðar, fara vel með fé og byggja upp svæðið. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þessi mál öll koma undan vetri...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.