Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varð fyrir því ótrúlega uppátæki innanríkisráðherra landsins, Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, að hún hafði bein afskipti af rannsókn sakamáls þar sem ráðuneyti hennar og pólitískir aðstoðarmenn voru til rannsóknar. Þetta hefur verið margstaðfest, meðal annars af Stefáni Eiríkissyni, fyrrverandi lögreglustjóra, sem var andlag afskiptanna, og raunar líka Hönnu Birnu sjálfri. Stefán hætti sem lögreglustjóri í kjölfarið á þessum atburðum og tók við öðru starfi. Afskiptin voru alveg skýr, og fólust meðal annars í því að hún sagði að fullt tilefni væri til þess að rannsaka rannsókn lögreglu og Ríkissaksóknara, og hvers vegna væri verið að gera hitt og þetta. Kom þessu til skila á fundum með Stefáni. Auk þess gagnrýndi hún málið allt margsinnis í ræðum og riti og sagði það ljótan pólitískan leik, sem hefði reynt mikið á hana, og gaf í skyn að fjölmiðlar hefðu verið vondir við hana. Nú hefur komið í ljós að lögreglan og Ríkissaksóknari voru að gera allt rétt, rannsóknin átti fullan rétt á sér og aðstoðarmaður ráðherra, Gísli Freyr Valdórsson, gerðist sannarlega sekur um lögbrot með því að leka gögnum. Hann játaði glæpinn að lokum, eftir að hafa verið ákærður, og fékk dóm, 8 mánaða fangelsi skilorðsbundið til tveggja ára. Það er eðlilegt að pæla í því, hvernig í ósköpunum á því stendur að Hanna Birna hefur ekki sagt af sér sem innanríkisráðherra, beðist afsökunar á lögbrotinu í ráðuneyti hennar, augljósum óeðlilegum afskiptum hennar af rannsókn málsins, og sagt af sér þingmennsku sömuleiðis. Trúnaðarbresturinn gagnvart almenningi og kjósendum verður ekki mikið augljósari. Svo virðist sem hún einfaldlega neiti að horfast í augu við alvarleika málsins, sem er fordæmalaust með öllu.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.