Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Embætti sérstaks saksóknara er undir álagi um þessar mundir, svo mikið er víst. Ekki nóg með að fjárveitingar til embættisins verði skornar verulega niður, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2015, þá eru dómstólar ekki að taka undir mat saksóknara embættisins þegar kemur að meintum glæpum bankamanna í öllum tilfellum. Í það minnsta er það raunin í tveimur málum sem hafa beinst að Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans og Sigríði Elínu Sigfúsdóttur fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans. Þau hafa í tvígang verið sýknuð í héraði. Ef að þau Sigurjón og Sigríður Elín verða ekki sakfelld fyrir neinar sakir, þegar upp verður staðið, er ljóst að himinháar skaðabótakröfur geta beinst að ríkissjóði, enda hafa þau verið árum saman á sakamannabekk og til rannsóknar fyrir meinta efnahagsbrotaglæpi. Það má þó ekki gleyma því að Hæstiréttur mun vafalítið eiga síðasta orðið í flestum þessara mála, þó niðurstöðunni í málinu frá því í gær hafi ekki enn veri áfrýjað til Hæstaréttar.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.