Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Kjarninn fékk á dögunum innsýn í starf innan Háskóla Íslands þar sem hrun fjármálakerfisins er til skoðunar. Guðni Th. Jóhannesson lektor kennir námskeið þar sem farið er yfir ýmsa þætti sem tengjast hruninu. Leslistinn er langur og ítarlegur, enda atburðirnir miklir að umfangi. Þá hafa komið í tímana hinir ýmsu gestir sem atburðunum tengjast, fyrrverandi ráðherrar og rannsakendur einstakra þátta hrunsins, meðal annarra. Það verður ekki annað sagt en að það sé öfundsvert fyrir nemendur að fá að kryfja þessa atburði til mergjar, næstum samhliða þeim í tíma. Það kann að vera að það sé ekki verið að leggja nægilega mikla áherslu á að læra af því sem aflaga fór í hruninu, svona almennt talað. Þetta námskeið er þó vísbending um að Háskóli Íslands sé að leggja sitt af mörkum í þeirri vinnu. Og á hrós skilið fyrir það.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.