Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Sérfræðingur sem ritstjórn Kjarnans ræddi við á dögunum velti því fyrir sér hvað stjórnvöld ætluðu sér að gera með Íbúðalánasjóð. Eins og staða mála væri núna, þá væri óljóst hvað stjórnvöld vildu að sjóðurinn ætti að gera, fyrir utan að fjárhagsstaða sjóðsins er afleit. Lítil eftirspurn hefur verið eftir lánum hjá sjóðnum að undanförnu og sú harða stefna sem stjórnvöld hafa gegn verðtryggðum lánum, einkum Framsóknarflokkurinn, þýddi í reynd að stjórnvöld væru á móti vörunum sem sjóðurinn væri að bjóða fólki. Þetta væru frekar „einkennileg skilaboð“ eins og hann orðaði það. Nú er búið að hækka hámarkslán sjóðsins úr 20 milljónum í 24 milljónir. Þetta breytir ekki öllu máli, en gerir sjóðinn þó að valkosti hjá þeim sem eru að kaupa sér sína fyrstu eign, einna helst. Fyrir utan tíðar mannabreytingar í stjórn þá er líka margt annað sem skilur mann eftir í lausu lofti, þegar sjóðurinn er annars vegar. Svo virðist sem enginn viti til hvers sjóðurinn sé í dag, og hvað hann eigi að gera í framtíðinni.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.