Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Klukkan 10:28 í gærmorgun birti franska skopmyndaritið Charlie Hebdo mynd á Twitter aðgangi sínum af leiðtoga Íslamska ríkisins, Abu Bakr al-Baghdadi. Um tuttugu mínútum síðar höfðu byssumenn vopnaðir Kalishnikov rifflum ruðst inn á ritstjórn blaðsins og drepið tíu blaðamenn, þar af fjóra teiknara. Tveir lögreglumenn voru einnig skotnir til bana, í þessari ömurlegu árás. Skotmarkið í árásinni var ekki aðeins ritstjórn Charlie Hebdo, fólk sem þar vinnur, heldur líka tjáningarfrelsið sjálft. Skilaboðin eru skýr; ef þú teiknar svona mynd, þá drep ég þig, og mér er alvara. Viðbrögðin gegn þessari skelfilegu árás hafa verið afar sterk og jákvæð. Blaðamenn hafa tekið höndum saman um að þessi árás á tjáningarfrelsið verði ekki liðin, og tekur Kjarninn svo sannarlega heils hugar undir með þeim sem fordæma þessa skelfilegu árás. Hún var ekki aðeins hrottafengin og ömurleg gagnvart því fólki sem fyrir henni varð, og aðstandendum þess, heldur vekur hún fólk til umhugsunar um mikilvægi frjálsrar fjölmiðlunar og tjáningarfrelsis. Það segir sína sögu um viðhorf samstarfsmanna þeirra sem létust á ritstjórn Charlie Hebdo, að skömmu eftir árásina var myndin af Abu Bakr al-Baghdadi birt á Facebook síðu ritsins. Skilboðin eru skýr; þið beygið okkur ekki með morðum og ofbeldi. Lifi tjáningarfrelsið.
Meilleurs vœux, au fait. pic.twitter.com/a2JOhqJZJM
— Charlie Hebdo (@Charlie_Hebdo_) January 7, 2015
Auglýsing
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.