Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Ingjaldur Hannibalsson, prófessor við Háskóla Íslands, er látinn, 62 ára að aldri. Blaðamaður Kjarnans, sem þetta skrifar, átti nokkuð oft í samskiptum við Ingjald vegna ýmissa mála í fjölmiðlastarfinu. Oftast var haft samband við hann til að leita upplýsinga og útskýringa. Ingjaldur hafði þann mikla kost að taka því vel þegar til hans var leitað af fjölmiðlum, og var hjálpsamur. Ein ástæða var sú að hann hafði yfirleitt brennandi áhuga á því sem var til umræðu og yfirburðaþekkingu sömuleiðis. Ingjaldur var líka hjálpsamur nemendum sínum, og skipulagði fyrir þá ófáar heimsóknir í erlenda háskóla. Alþjóðleg tengsl hans voru vel þekkt, eins og skemmtilegt nýlegt viðtal við mbl.is er til vitnis um. Skyndilegt fráfall hans, á besta aldri, er sorglegt og missir þeirra sem standa honum næst mikill, líkt og hins akademíska samfélags. Atburðir sem þessir eru til áminningar um að lífsins gangur er óútreiknanlegur, en jafnframt að hann haldi áfram þrátt fyrir allt. Samúðarkveðjur eru sendar til fjölskyldu Ingjalds og vina.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.