Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Fyrir nákvæmlega sex árum í dag voru stjórnvöld að funda um hvernig væri hægt að bregðast við vanda bankanna. Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi ráðherra og nú þingmaður, lýsti einu atvikinu, þegar Landsbankamenn voru að ræða við stjórnvöld, fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis svona; „[Landsbankamenn] [k]omu að kynna okkur eitthvað, frábært tilboð. „Og hann [Björgólfur Thor Björgólfsson] sat þarna í sínum flottu fötum, ofsalegur "seller", að selja eitthvað sem gekk út á það að þeir áttu að fá Glitni ókeypis og fá alla skapaða hluti og síðan allan gjaldeyrisforðann og eitthvert "guarantee" til viðbótar. Og Halldór Kristjánsson sat þarna svona eins og laminn hundur og tók ekki mikið undir þetta. Svo var þessi fundur búinn, Sigurjón var þarna, það voru snúðar á borðunum, skornir í tvennt, stórir snúðar. Sigurjón er nú munnstór maður og mikill og þegar þeir voru farnir út og hann var einn eftir þá tók hann svona hálfan snúð, tróð honum upp í andlitið á sér og skaut undan snúðnum þessari setningu: Ég hef ekki trú á þessu, ég hef ekki trú á þessu. Þá kom svona hönd með gullúri og kippti honum út." ... Þó Sigurjón sé þessa dagana að verjast ásökunum ákæruvaldsins í dómsal, og standi í ströngu, þá var það nú að líkindum rétt hjá honum að hafa ekki of mikla „trú á þessu.“
Hægt er að skrá sig á póstlista Kjarnans hér.