Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Einn af helstu stuðningsmönnum aðgerða stjórnvalda þegar kemur að lækkun verðtryggðra skulda 28 prósent heimila er Stefán Ólafsson prófessor og stjórnarformaður Tryggingarstofnunar. Stefán er ekki síst þekktur fyrir hugmyndafræðilega deilu sína við Hannes Hólmstein Gissurarson prófessor sem staðið hefur lengur en elstu menn muna. Þar takast á vinstri og hægri, einkum þegar kemur að misskiptingu auðs, oft harkalega. Stefán hefur marg oft talað um að fyrir hrun hafi stjórnvöld, með Sjálfstæðisflokkinn í fararbroddi, stuðlað að misskiptingu auðs með stjórnvaldsaðgerðum, t.d. í gegnum skattkerfið. Meðal annars hefur Stefán notast við Gini-stuðulinn til að sýna fram á ójöfnuðinn.
Í ljósi þess að margir skjólstæðinga Tryggingarstofnunar, þar á meðal eignalitlir öryrkjar og fólk á leigumarkaði, munu ekki fá neitt úr 80 milljarða fjáraustri stjórnvalda úr ríkissjóði til sumra húsnæðisskuldara, og þannig augljóslega stuðla að ójöfnum tækifærum fólks og ójöfnuði með beinu peningaframlagi, þá stendur Stefán frammi fyrir nokkuð stórum siðferðilegum spurningum. Hann studdi aðgerðir stjórnvalda, en í þeim felst að þeir sem minna mega sín, og geta sumir ekkert gert að veikindum sínum og erfiðleikum, fá enga aðstoð á meðan ríkt eignafólk fær milljónaaðstoð. Afleiðingar þess að auka veðrými mikið, munu birtast í hærra fasteignaverði og hærra leiguverði, sem bitnar á þessum hópi, beint. Um þetta eru flestir sammála sem hafa greint þessi mál. Þessar aðgerðir eru meira inngrip í þróun stéttaskiptingar hér á landi heldur en þekkst hefur undanfarna tvo áratugi að mati margra. Hvaða mælistika mun ná utan um þennan ójöfnuð? Er hann æskilegur núna? Hvers vegna? Það verður forvitnilegt að fylgjast með umræðu um þetta...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.