Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Enn er allt í hnút í læknadeilunni. Læknar vilja strax allt að 20 prósent launahækkun og einnig kerfisbreytingar, styrkingu á heilbrigðiskerfinu almennt og í það minnsta einhvern vott af trúverðugri framtíðarsýn frá stjórnmálamönnum. Með ólíkindum er að hugsa til þess að það hafi gerst á sama tíma, að læknar fóru í verkfall, með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á heilbrigðisþjónustu, og að skuldum vafinn ríkissjóður hafi verið notaður til þess að uppfylla hluta af pólitísku loforði annars stjórnarflokksins um að lækka höfuðstól verðtryggðra skulda sumra heimila, aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Um 80 milljarðar fóru í þetta, en eins og áður hefur verið minnst á á þessum vettvangi, hefur Dr. Oddgeir Ottesen, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, sýnt fram á það með hagfræðilegum greiningum að þessi niðurfellingaraðgerð stjórnvalda er tóm della, sem engum árangri skilar. Mun betra hefði verið að nota féð í annað, t.d. í að lækka skuldir ríkissjóðs, eða jafnvel leysa vandamálin sem snúa að læknum og heilbrigðiskerfinu. Forvitnilegt verður að sjá hvernig mun ganga að leysa læknadeiluna á nýju ári, en augljóst er að niðurfellingaraðgerð ríkisstjórnarinnar hefur grafið undan samningsstöðu stjórnvalda í þessu mikilvæga máli...
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.