Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Að undanförnu höfum við á Kjarnanum verið að fjalla töluvert um stóra samhengið, ekki síst eftir að Magnús Karl Magnússon, forseti læknadeildar Háskóla Íslands og prófessor í lyfja- og eiturefnafræðum, skrifaði skýra og vel skrifaða grein um það. Það vill svo til að blaðamenn Kjarnans hafa fylgst þokkalega með ákveðnum atriðum í hinum stóra samhengi, einkum þegar kemur að spekileka frá landinu eftir hrunið, og skrifað um hann fréttir. Eitt hefur vakið athygli bréfritara. Þjóðskrá og Hagstofa Íslands hafa ekki náð að setja upp feril sem fangar upplýsingar um menntun fólks sem flyst frá landinu, og síðan safnað upplýsingum um það saman. Þetta er bagalegt. Fyrir vikið eru ekki nægilega áreiðanlegar upplýsingar fyrir hendi um það hvernig mannauður samfélagsins er að þróast. Vonandi verður þessu kippt í liðinn sem allra fyrst. En því miður hefði verið betra að búa við þetta þegar gengi krónunnar féll, fjármálakerfið hrundi og haftabúskap var komið á. Þá varð til ný staða fyrir margt fólk með alþjóðlega menntun, og það fór að toga í margt fólk að búa erlendis.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.