Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Verðtryggingin er snúin aftur og það með nokkrum látum, samkvæmt upplýsingum í Fjármálastöðugleika Seðlabanka Íslands. Íslenska þjóðin getur nú tekið bæði óverðtryggð og verðtryggð lán til að kaupa húsnæði en velur miklu frekar að taka verðtryggð lán. Þetta kemur eflaust mörgum á óvart, ekki síst í ljósi þess að stjórnvöld eru að leiða vinnu þessa dagana sem miðar að því að draga úr vægi verðtryggðra húsnæðislána á markaði. Það er eðlilegt að pæla í því, hvað á að taka við ef verðtrygging verður bönnuð með lögum með einhverjum hætti og hvaða áhrif það kann að hafa til lengdar. Vonandi tekst að finna einhverja lausn, sem felur ekki í sér óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum, eða með skammtímabindingu, í verðbólgubælinu Ísland, sem aðalvalkost. Það er afar ósennilegt að það kunni góðri lukku að stýra.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.