Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Kjarninn fjallaði á dögunum um málefni fanga og stöðu fangelsismála. Í stuttu máli, er hún ekki góð vegna þess að málaflokkurinn er aðþrengdur fjárhagslega og fangelsisplássin eru of fá. Faglegt starf situr á hakanum fyrir vikið, svo sem sálfræðiþjónusta og meðferðarúrræði (það eru jú upp til hópa veikir fíklar í fangelsum, en látum það vera að sinni). Yfirfull fangelsi geta breyst í glæpamannageymslur frekar en betrunarstofnanir við þessar aðstæður. Það er hreint út sagt hræðileg tilhugsun ef þessi staða fær að ganga mikið lengur. Hinn siðferðilegi grundvöllur réttarríkisins er skammt undan og verður holur að innan ef fangelsi verða alltaf afgangsstærð. Ef fólk þarf að bíða í mörg ár eftir því að geta afplánað, og það í illa útbúnum fangelsum sem samræmast ekki nútímaþekkingu, þá er voðinn vís. Það merkilega við stöðuna sem snýr að stjórnvöldum er sú, að yfirmenn fangelsismálaflokksins hafa árum saman bent á þessa alvarlegu stöðu með tölulegum staðreyndum og úttektum sérfræðinga á næstum öllum sviðum fangelsismálaflokksins. Páll Winkel, fangelsismálastjóri, á hrós skilið fyrir málefnalega baráttu. En hugsanlega þarf að beita einhverjum öðrum aðferðum en að leggja spilin á borðin. Því miður er það ekki að virka nægilega vel, miðað við viðbrögð stjórnmálamannanna. Vonandi verður stefnubreyting í þessum málum. Það er orðið aðkallandi.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.