Pæling dagsins er hluti af daglegum fréttapósti Kjarnans, þar sem farið er yfir það helsta í innlendum og erlendum fréttum. Í pælingu dagsins er athyglisverðum hlutum velt upp.
Hið óumflýjanlegt hefur gerst; Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur sagt af sér sem innanríkisráðherra. Að mati bréfritara ber Hanna Birna ábyrgð á þessu sjálf, þrátt fyrir að Gísli Freyr Valdórsson hafi komið henni í ótrúlega stöðu með lygum sínum um að hann hafi ekki lekið upplýsingum úr ráðuneytinu. Hanna Birna hefði átt að stíga til hliðar sem ráðherra þegar lögreglanhóf að rannsaka ráðuneyti hennar, starfsmenn þess og hana sjálfa. Þetta gerði hún ekki heldur þvert á móti fullyrti í yfirheyrslum að málið væri allt ljótur pólitískur leikur og fjölmiðlar væru í ruglinu. Síðan kom í ljós að þetta var allt rangt hjá Hönnu Birnu. Ákæra var gefin út, og játning lá síðan fyrir þegar komið var á endastöð. Alvarlegust voru afskipti Hönnu Birnu af lögreglurannsókninni. Það er vonandi að afskipti eins og þau sem Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri, lýsti fyrir Umboðsmanni Alþingis að hefðu átt sér stað að hálfu Hönnu Birnu, muni aldrei aftur eiga sér stað hjá ráðherra dóms- og lögreglumála hér á landi. Forvitnilegt verður að sjá hvert mat Umboðsmanns Alþingis verður á lekamálinu og þætti Hönnu Birnu. Allir vita þó að Hanna Birna hefur margt til brunns að bera sem stjórnmálamaður. Og gæti jafnvel snúið til baka tvíefld síðar, ef hún lærir af mistökum sínum.
Fréttapóstur Kjarnans kemur í pósthólfið þitt á hverjum morgni.