Ég verð að viðurkenna að ég er afar veikur fyrir rómantíkinni í kringum íþróttir og þekki af fyrstu hendi að tileinka óeðlilegum tíma og vinnu í að reyna að koma íþróttafélagi í lag án þess að fá mikið til baka nema vesen. Vesen og ánægjuna þegar stritið leiðir af sér litla sigra á borð við það að skila rekstrinum réttu megin við eða þegar fáránlega óvinsæli Serbinn sem þið réðuð um mitt sumar heldur liðinu uppi á lokametrum deildarkeppninnar.
Í nútíma knattspyrnu vinna liðin sem eiga mestu peninganna. Það er því miður staðreynd. Ef þú getur keypt bestu leikmennina og bestu þjálfaranna þá vinnur þú. Það breytir því ekki að enn er hægt að finna rómantík í knattspyrnunni. Þar er að finna ótrúlegar sögur af fólki vopnað vilja og nánast forheimskulegum tilfinningum gagnvart íþróttaliði sem uppsker árangur á ævintýralegan hátt. Ein slík saga, saga Swansea City, var nýverið fest á filmu.
Hótun um líkamsmeiðingar og grasrót
Íslendingar tengja Swansea City eðlilega við Gylfa Þór Sigurðsson, íslenska landsliðsmanninn sem í dag er besti leikmaður liðsins í ensku úrvalsdeildinni. Fæstir átta sig hins vegar á þeirri umbreytingu sem félagið hefur gengið í gegnum frá síðustu aldarmótum. Sú umbreyting, og hvernig henni var hrundið af stað, er skjalfest í heimildarmyndinni „Jack to a King“, sem var frumsýnd í september í fyrra.
Árið 2001 var Swansea í neðstu deild í Englandi. Félagið var í gríðarlegum fjárhagsvanda og var á endanum selt fyrir eitt pund til enska athafnamannsins Tony Petty. Fyrir utan að vera Englendingur, sem fór ekki vel í walesku stuðningsmennina, gerði Petty þá brjálaða með því að leysa flesta bestu leikmenn liðsins undan samningi til að draga úr kostnaði.
James Thomas var efnilegur knattspyrnumaður sem lék um tíma með Blackburn í úrvalsdeildinni. Hann snéri svo aftur til Swansea, þegar liðið var í neðstu deild, og er í dag goðsögn hjá félaginu. Thomas starfar í dag sem sjúkraflutningamaður.
Í kringum andúðina á Petty myndaðist grasrótarhreyfing stuðningsmanna sem fór að safna peningum til að reyna að hjálpa félaginu sínu. Á meðal þeirra var hópur sem ekki er hægt að lýsa öðruvísi en bullum. Menn, sem eru til viðtals í heimildarmyndinni (þeir eru með lambúshettur í viðtalinu), viðurkenna þar fúslega að hafa ítrekað hótað Petty líkamsmeiðingum og að hafa framið skemmdarverk á velli liðsins til að koma í veg fyrir að Petty gæti grætt pening á liðinu.
Eftir slæmt tap gegn Macclesfield í enska bikarnum árið 2002 þorði Petty ekki aftur til Swansea og ákvað að selja félagið fyrir 20 þúsund pund til nokkurra áhangenda, sem voru studdir að grasrótarsamtökunum „Swansea supporters Trust“. Einn þessarra manna var gerður að stjórnarformanni. Hann heitir Huw Jenkins og í myndinni segir að hann hafi verið settur í starfið vegna þess að hann var leiðinlegastur þeirra sem að kaupunum komu. Hann er enn þann dag í dag stjórnarformaður.
Heimamaður setur þrennu
Á þessum tíma gat Swansea-liðið ekkert og þegar liðið var á tímabilið 2002/2003 var það í bullandi hættu á að falla úr ensku deildarkeppninni og niður í utandeildina. Þá var Brian Flynn ráðinn sem stjóri og hann fékk ýmsa leikmenn til liðsins sem breyttu því algjörlega. Leikmenn á borð við Leon Britton (sem enn spilar með Swansea) og Roberto Martinez.
Þótt liðinu gengi betur var staðan samt þannig að það þurfti að vinna síðasta leik tímabilsins til að halda sér uppi í neðstu deild enskrar knattspyrnu. Líkt og í öllum epískum íþróttasögum er það heimamaður, sem snéri aftur til baka frá úrvaldsdeildarliði í liðið sem hann ólst upp hjá, sem bjargar deginum. Sá heitir James Thomas og starfar í dag sem sjúkraflutningamaður, en það er önnur saga.
Roberto Martinez breytti Swansea sem knattspyrnufélagi. Hann var fyrirliði liðsins sem komst upp úr neðstu deild enskrar knattspyrnu og þjálfari þess þegar það komst upp í næst efstu deild. Undir hans stjórn fór liðið úr því að gefa 120 sendingar í leik í um 650 sendingar í leik.
Frá þessum tímapunkti hefst ótrúlegt uppbyggingarskeið. Swansea liðið þrykkist upp um deildir, byggði nýjan völl, Roberto Martinez tók við sem þjálfari og fjölgaði sendingum liðsins í hverjum leik úr 120 í 650 (sem var afar óvenjulegt í neðri deildunum í Englandi) og tíu árum eftir að James Thomas tryggði deildartilveruna var Brendan Rodgers (sem hafði tekið við keflinu af Martinez) kominn með liðið í úrslitaleik á Wembley um sæti í úrvalsdeild.
Hvernig sá leikur fór er auðvitað ekkert leyndarmál. Hann fór 4-2 fyrir Swansea, sem eru nákvæmlega sömu úrslit og urðu í leiknum mikilvæga tíu árum áður. Þá skoraði James Thomas þrennu, þar af tvö úr vítum. Á Wembley skoraði Scott Sinclair þrennu, þar af tvö úr vítum. Myndinni lýkur á þessum miklu tímamótum. Á sigri í umspilsleik á Wembley, sem er líklega dýrasti knattspyrnuleikur sem spilaður er. Liðið sem vinnur fer upp í úrvaldseildina og fær yfir 100 milljónir punda. Liðið sem tapar situr eftir í Championship deildinni og fær ekkert.
Litla liði sem gat, í heimi peninganna
Síðan þá hefur ævintýrið í raun haldið áfram. Swansea liðið hefur unnið deildarbikarkeppnina, keppt í Evrópukeppni, seldi nýverið leikmann, Wilfred Bony, fyrir 28 milljónir punda og tveir mikilvægustu þjálfararnir í þessari síðari tíma sögu Swansea, Roberto Martinez og Brendan Rodgers, þjálfa nú tvö af sögufrægustu, og sigursælustu, lið enskrar knattspyrnu, Everton og Liverpool.
Garry Monk er þjálfari Swansea í dag. Hann var áður fyrirliði liðsins á eftir Martinez og bjargaði eftirminnilega á línu á ögurstundu í umspilsleiknum fræga sem tryggði Swansea sæti í úrvaldsdeild.
Ef Swansea yrði selt í dag færi félagið aldrei á undir 100 milljónir punda. Það er aðeins meira en þau 20 þúsund pund sem hópurinn sem stýrir félaginu í dag borgaði fyrir það árið2002. Stuðningsmannasamtökin sem stóðu að baki þeim kaupum eiga enn 20 prósent hlut í félaginu.
Þótt það megi vissulega setja stórt spurningamerki við þann hetjustimpil sem bullurnar með lambúshetturnar fá í myndinni, svona í ljósi þess að þær voru ítrekað að hóta að meiða og jafnvel drepa fyrrum eigandann, þá er „Jack to a King“ ákaflega hressandi saga um litla félagið sem gat, sérstaklega á tímum þar sem olíupeningar, gos-Rússar og þurrir Ameríkanar hafa tekið yfir þessa fallegu íþrótt í krafti peninga sinna. Fyrir þá sem finnst nútímaknattspyrna vera að missa sjarmann vegna þessa, eða þá sem hafa kannski misst trúnna eftir að hafa harkað of lengi í eigin knattspyrnulegri sjálfboðarvinnu, er gott að horfa á vel gerðar myndir sem fanga sögu litlu lestarinnar, eða í þessu tilfelli knattspyrnuliðsins, sem gat. Fyrir hina sem hafa engan áhuga á knattspyrnu, og skilja ekki hvað það er sem dregur fólk að íþróttinni, er áhorf á myndina hins vegar örugglega eins og að horfa á málningu þorna.