Einkennismerki eða lógó skilgreina vörumerki, eru veigamikill þáttur í að skapa ímynd fyrirtækja og mynda hugrenningatengsl. Til að sannreyna þessa fullyrðingu má gera einfalda tilraun á sjálfum sér. Ef maður hugsar um Coca-Cola, Nike eða McDonalds - hvað sér maður þá í huga sér? Jú, einkennismerki fyrirtækjanna. Góð og vel heppnuð lógó leyfa neytendum nefnilega aldrei að gleyma vörumerkjunum sem þau standa fyrir, og einmitt það hefur oft og tíðum úrslitaáhrif á val þeirra á einni vöru umfram aðra. Tilhneigingin er nefnilega sú að fólk hallar sér frekar að einhverju sem það þekkir, sem það treystir.
En þegar góð einkennismerki geta stuðlað að mikilli velgengni fyrirtækja, geta slæm einkennismerki orsakað hið gagnstæða. Það er nefnilega að mörgu að hyggja þegar hanna á gott einkennismerki. Mikilvægt er að gefa sér góðan tíma, og kalla sem flesta að hönnunarborðinu til að velta mismunandi útfærslum fyrir sér, því annars er hætta á að útkoman verði skelfileg. Hér að neðan eru tíu dæmi um mislukkuð einkennismerki, í engri sérstakri röð, sem eru til þess eins fallin að rústa orðspori fyrirtækis.
Misskilin barnalækningamiðstöð
Barnalækningamiðstöðin í Arlington hefur án efa fengið sinn skerf af neikvæðri umfjöllun eftir að þetta afar óheppilega einkennismerki leit dagsins ljos. Vafalítið vinnur mjög hæft fólk í miðstöðinni, en mögulega mun almenningur misskilja starfsemi hennar vegna þessa hræðilega einkennismerkis.
Skiptir máli að huga vel að stafagerðinni
Margir viðskiptavinir munu hugsa sig tvisvar um áður en þeir kíkja inn í þessa myndbandaleigu. Hér er stóri lærdómurinn að huga vel að stafagerðinni.
Dansskóli fyrir börn eða dónastaður?
Svart-hvítu dansandi fígúrurnar í þessu einkennismerki framkalla heldur óæskilega sjónræna mynd af þjónustunni sem er í boði hjá þessum barnadansskóla. Margur gæti ætlað sem svo að þar væri fyrst og fremst boðið upp á skemmtun fyrir fullorðna.
Einkennismerki apóteks sem segir sex
Hér þarf í raun engin orð til að útskýra hvers vegna einkennismerki Kudawara lyfjaverslunarinnar hefur fengið jafn útbreidda athygli á meðal almennings og raun ber vitni. Merkið er sjálfsagt engin vitnisburður um þjónustuna sem þangað er hægt að leita eftir.
Ekki alltaf allt sem sýnist
Það getur meira að segja komið mönnum í koll að bregða á það sárasaklausa ráð að nota þrjá bókstafi í einkennismerki. Sé því snúið réttsælis í 90 gráður blasir heldur óheppileg mynd við. Þetta einkennismerki stendur fyrir opinbera stofnun á ótilgreindum stað, og er í notkun enn þann dag í dag.
Muna að nota spacebar!
Með því að nota hástafi rétt og huga að hæfilegu bili á milli orðanna hefði KidsExchange getað komið sér hjá slatta af hneykslan og vandræðanlegheitum.
Rómantík missir marks
Instituto de Estudos Orientais - Þetta einkennismerki átti að sýna fallegt sólarlag á bakvið gula byggingu, en með því að nota tvær svartar línur til að teikna þak byggingarinnar varð niðurstaðan allt, allt önnur.
Svo miklu meira en tannlæknaþjónusta
Fljótlega eftir að þessu einkennismerki var hleypt af stokkunum, sögðu gárungarnir að á þessari tannlæknastofu væri boðið upp á meira en tannlækningar.
Barn síns tíma
Þetta einkennismerki fyrir æskulýðsstarf kaþólsku kirkjunnar var hannað árið 1973 og hefur unnið til verðlauna. Eftir hvert hneysklismálið á fætur öðru sem skekið hefur kaþólsku kirkjuna á undanförnum árum, þar sem prestar hennar hafa verið sakaðir um og dæmdir fyrir barnaníð, má segja að þetta merki hafi misst marks fyrir um margt löngu.
Tölvumús eða typpi?
Þetta einkennismerki væri bara alveg prýðilegt ef músin á merkinu líktist ekki svona mikið...
Ofangreindur listi birtist á heimasíðu The Untapped Source.