Heimsfaraldrar koma og fara, og verða sumum að aldurtilla því miður. Nú geysar stríðið gegn ebólu-vírusnum sem hefur kostað þúsundir manna lífið, en miklar vonir eru bundnar við að læknavísindin muni með tíð og tíma vinna baráttuna gegn sjúkdómnum.
Kjarninn tók saman topp tíu lista yfir heimsfaraldra.
10. Ebóla
Ebóla er vírus sem kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1976 í Súdan og hefur komið upp annars lagið síðan, en nær eingöngu í Afríku. Talið er líklegt að vírusinn eigi upptök sín í leðurblökum en hann getur einnig smitast í apa. Ebóla er sérstaklega skæður sjúkdómur sem drepur um helming allra smitaðra. Einkenni geta verið margs konar, þar á meðal sótthiti, uppköst, niðurgangur, óráð og öndunarfæravandamál. Algengt er að fólk falli í dá um viku eftir smit og flestir deyja af völdum ofþornunar. Ebóla hefur ekki drepið marga í gegnum tíðina (aðeins nokkur þúsund manns) en faraldurinn sem nú stendur yfir í Vestur-Afríku er sá langstærsti sem komið hefur upp. Dánartíðnin er líka óvenju há (um 70 prósent) og því ekki að ósekju sem menn séu smeykir við vírusinn.
9. Berklar (Tubercule bacillus)
Berklar, sem eru bakteríusýking, hafa fylgt manninum frá fornöld og komu upprunalega úr nautgripum. Berklar urðu eiginlegur faraldur á Vesturlöndum ca. 1800-1950. Sérstakir berklaspítalar voru settir upp, eins og til dæmis Vífilsstaðir hér á landi, og allt að fjórði hver maður lést af völdum berkla. En um miðja 20. öldina var fundin lækning. Með lyfjagjöf, almennu hreinlæti og betri loftræstingu var berklum nánast eytt á Vesturlöndum. Einkenni berkla eru mikill hósti með blóði, sótthiti, sviti og þyngdartap. Berklar eru enn mjög útbreiddir í þróunarlöndum og áætlað er að um einn þriðji hluti mannkyns hafi bakteríuna í sér í dag. Helstu vandamálin eru vaxandi ónæmi bakteríunnar fyrir lyfjum og svo þeirri skömm og útskúfun sem sjúklingar verða fyrir sem veldur því að smitaðir reyna frekar að fela sjúkdóminn.
Vífilsstaðir voru berklaspítali um áratugaskeið.
Auglýsing
8. Holdsveiki (Mycobacterium leprae)
Holdsveiki er bakteríusýking sem ræðst á taugar í útlimum, andliti og fleiri stöðum. Smitaðir geta misst tilfinningu, lamast, afmyndast og jafnvel misst útlimi, nef, eyru og svo framvegis. Stundum er því talað um limafallassýki, en smitaðir geta dáið af einkennum sínum. Holdsveiki varð að faraldri í Evrópu á miðöldum og var sérstaklega slæm hér á Íslandi. Hræðslan var mikil og var holdsveikum safnað saman á sérstaka „spítala“ eða „nýlendur“ þar sem stundað var nokkurs konar klausturlíf. Sagt var að holdsveikir væru að gangast undir hreinsunareld á jörð. Holdsveiki hefur nánast verið útrýmt á Vesturlöndum en hún er ennþá landlægur sjúkdómur í Indlandi, auk nokkurra annarra landa. Í dag er hægt að lækna holdsveiki með lyfjagjöf en skaðinn sem hún veldur er varanlegur.
7. Lömunarveiki (poliomyelitis)
Lömunarveiki er veirusýking sem hefur verið til í árþúsundir. Flestir sem smitast sýna engin einkenni, sumir fá tímabundna vöðvalömun, sumir varanlega og sumir deyja. Fólk getur endað í hjólastól eða afmyndast á útlimum. Sjúkdómurinn er algengastur hjá börnum en alvarlegri og banvænni hjá fullorðnum. Um aldamótin 1900 jukust tilfelli lömunarveiki umtalsvert, sérstaklega á Vesturlöndum. Talað var um eiginlegan faraldur sem stigmagnaðist þangað til um miðja öldina þegar bóluefni var uppgvötvað af Jonas Salk. Stefna Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) er að uppræta sjúkdóminn árið 2018 en hann er nú þegar nánst horfinn á Vesturlöndum. Lömunarveiki hafði mikil áhrif á samfélag fatlaðra. Þeir sem lifðu faraldurinn af beittu sér fyrir auknum réttindum fatlaðs fólks, endurhæfingu, samgöngum og fleira.
Svokölluð járnlungu voru notuð til að vinna gegn faraldrinum á sjötta áratugnum.
6. Mislingar (Morbilli)
Mislingar eru veirusýking sem herjar mest á börn. Einkenni mislinga eru yfirleitt sótthiti, höfuðverkur, lystarleysi, hósti og loks bólur eða dílar á öllum líkamanum. Mislingar eru bráðsmitandi en flestir lifa þá af. Fólk getur fallið í dá og látist eða hlotið heilaskemmdir. Mislingafaraldrar hafa margoft blossað upp í sögunni og drepið milljónir. Verstu faraldarnir voru í Ameríku eftir komu Spánverja þangað á 15. og 16. öld því að Indjánar höfðu ekkert uppsafnað mótefni eins og Evrópumenn. Bóluefni var uppgvötvað á sjöunda áratugnum og mislingar hafa síðan verið á miklu undanhaldi en faraldrar koma ennþá upp annars lagið, sérstaklega í Afríku.
Azteka teikning frá 16. öld.
5. Kólera (Vibrio cholerae)
Kólera var staðbundin sjúkdómur í Indlandi um aldir. Sjúkdómurinn er garnasýking sem einkennist af niðurgangi og uppköstum, loks ofþornun, krömpum og dauða. Árið 1817 hófst fyrsti kólerufaraldurinn og dreifðist sjúkdómurinn langt út fyrir landsteina Indlands. Sex heimsfaraldrar af kóleru hafa fylgt í kjölfarið og milljónir legið í valnum. Með betri gæðum neysluvatns og aukins hreinlætis hefur tekist að vinna bug á pestinni að mestu leyti. Hún dúkkar þó alltaf upp annars lagið, sérstaklega á átaka-eða hamfarasvæðum þar sem aðgangur að hreinu vatni er lítill. Seinast kom upp kólerufaraldur í Haítí eftir jarðskjálftann mikla þar árið 2010.
4. Alnæmi (HIV/AIDS)
Alnæmi er sjúkdómur sem orsakast af HIV veirunni. Veiran kom upprunalega frá öpum í Afríku (SIV) og þróðaðist yfir í HIV um miðja seinustu öld. Sjúkdómurinn lýsir sér í niðurbroti ónæmiskerfisins, sótthita, eitlabólgu, húðsárum, þyngdartapi og fleira. Alnæmisfaraldur braust út upp úr 1980 á Vesturlöndum. Þá var sjúkdómurinn mest áberandi meðal samkynhneigðra karlmanna og sprautufíkla. Sjúkdómurinn stigmagnaðist ár frá ári og meðal þeirra sem létust af völdum hans voru Freddie Mercury, Rock Hudson og Liberace. Gríðarlegur ótti greip um sig á þessum tíma. Á tíunda áratugnum náðist að halda sjúkdómnum niðri með lyfjum en þau eru dýr. Alnæmi er ennþá stórt vandamál í Afríku þar sem dýr lyf eru ekki í boði fyrir almenning. Talið er að um 15 til 25% íbúa í sunnanverðri Afríku séu smituð af HIV í dag.
3. Bólusótt (Variola)
Bólusótt var sigruð með bóluefnum árið 1979 eftir að hafa drepið hundruðir milljóna fólks um árþúsunda skeið. Það var einn af stærstu sigrum læknavísindanna frá upphafi. Veiran olli því að líkami þolandans steyptist út í litlum bólum og oft fylgdu blæðingar, bæði inn og útvortis með. Önnur einkenni á borð við lungnabólgu gátu einnig fylgt. Sjúkdómurinn gat verið misalvarlegur en að meðaltali létust um 30% þolenda, yfirleitt á um tveimur vikum eftir smit. Börn, þá sérstaklega nýfædd börn, lentu sérstaklega illa í sjúkdómnum. Þeir sem lifðu af fengu gjarnan ör eftir bólurnar eða urðu jafnvel blindir. Skæðir faraldrar komu oft upp í sögunni, til dæmis í Ameríku eftir komu Spánverja á 15. öld og svo í Evrópu á 18. öld. Fjöldinn allur af stórmennum sögunnar fengu bólusótt og má þar nefna Ramses V faraó, Elísabetu I, George Washington og Jósef Stalín.
2. Svarti dauði (Yersina Pestis)
Frægust allra plága er svarti dauði. Plágan er bakteríusýking, upprunin í asískum nagdýrum og hefur reyndar margoft komið upp og er í raun ennþá til í dag. Mesti faraldurinn kom upp um miðja 14. öld. Í Evrópu. Hann byrjaði í hafnarborgum Ítalíu en breiddist hratt út og þriðjungur Evrópumanna lá í valnum á aðeins örfáum árum. Það tók um 150 ár fyrir mannfjöldann að ná sér á strik. Smitaðir fengu kýli í nára, handarkrika og háls, mikinn hita og uppköst með blóði. Fólk dó aðeins nokkrum dögum eftir smit. Fólk taldi guð vera að refsa sér og alls kyns ofsóknir hófust, sérstaklega gegn gyðingum. Svarti dauði kom hingað til lands mun seinna, árið 1402, en hafði sömu skelfilegu afleiðingar. Þó að Svarti dauði sé frægastur fyrir að leggja Evrópu að fótum sér má ekki gleyma því að Asíulönd eins og Kína og Indland fóru einnig mjög illa út úr sjúkdómnum.
1. Spænska veikin (H1N1 Influenza)
Flensan kemur á hverju ári og drepur hundruðir þúsunda eða milljónir um allan heim. Sum árin er hún verri en önnur en aldrei hefur hún orðið jafn slæm og árið 1918, eftir fyrri heimstyrjöldina. Mikið var um herflutninga og rót í samfélaginu. Um 500 milljónir manna sýktust og á bilinu 60-100 milljónir létust (sem var á bilinu 3-5% af íbúum jarðar). Helstu einkenni veikinnar voru innvortis blæðingar, aðallega í meltingarfærum og öndunarfærum, og lungnabólga sem leiddi sjúklinga til dauða á fáum dögum. Ólíkt hefðbundinni inflúensu lagðist þetta afbrigði sérstaklega á ungt og hraust fólk. Hér á Íslandi dóu um 500 manns af völdum spænsku veikinnar. Þessi veiki á ekki uppruna sinn á Spáni, þrátt fyrir nafnið. Ekki er vitað hvaðan hún kom er grunur leikur á að hún hafi annað hvort komið frá Asíu eða Bandaríkjunum.
Spænska veikin drap fleiri en fyrri heimstyrjöldin.