Hljóðrit úr þjóðfræðisafni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum eru aðgengileg á vefnum ismus.is. Safnið er mikið að vöxtum og dýrmæt heimild um alþýðumenningu fyrri tíma, m.a. sagnir, kveðskap og fleira. Safnið nýtist fræðimönnum við rannsóknir en er einnig uppspretta og innblástur fyrir ýmsa listamenn.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Rósu Þorsteinsdóttur rannsóknarlektor hjá Árnastofnun sem leiðir okkur í allan sannleikann um safnið og notkunarmöguleika þess. Hún segir meðal annars frá eigin rannsóknum, austfirsku skáldkonunni Guðnýju Árnadóttur og flóknu ástarlífi hennar, rímnakveðskap og fjölbreytileika hefða, hljóðfærum og danstónlist á árum áður.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir í þjóðfræði og fjölbreytta miðlun á þjóðfræðiefni. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.