Í Bandaríkjunum er unnið að spennandi verkefni sem nefnist 100 ára stjarnflugsáætlun. Verkefnið gengur út á að árið 2112 sé hægt að senda stóran hóp fólks út úr sólkerfinu til þess að búa í geimnum. Það er að mörgu að huga í svo stóru verkefni og þjóðfræðin getur svo sannarlega lagt sitt af mörkum.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við þjóðfræðinginn Karl Aspelund sem er dósent og deildarforseti við deild tísku, markaðsfræði og hönnunar við háskólann í Rhode Island í Bandaríkjunum. Karl segir frá leið sinni í þjóðfræðinni, þ.e. frá hönnun og búningasögu í Iðnskólanum í Reykjavík í að verða háskólakennari og rannsakandi í Bandaríkjunum. Að auki segir hann segir frá aðdraganda þess að hann tekur nú þátt í geimrannsókn og hverju þarf að huga að í sambandi við klæðnað í geimnum. Við ræðum verkefnið og fáum að heyra hvaða erindi þjóðfræðirannsóknir eiga inn í framtíðarsýn um að senda mannaða geimflaug út úr sólkerfinu. Þá ræðum við um óvæntan vinkil verkefnisins tengdan sjálfbærni og vistkerfi jarðarinnar.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.