Í sérstökum jólaþætti bregða Dagrún og Vilhelmína undir sig betri fætinum og ræða við þjóðfræðinga um ýmislegt sem tilheyrir jólunum.
Jólabókaflóðið er ómissandi í aðdraganda jóla og segja Dagrún og Vilhelmína frá þjóðfræðingum sem taka þátt í flóðinu í ár með nýjum og spennandi bókum. Þær ræða við Benný Sif Ísleifsdóttir þjóðfræðing og rithöfund sem segir frá nýjustu skáldsögu sinni Djúpinu. Sagan gerist kvennaárið 1975 og segir frá tveimur ungum stúlkum sem ráða sig í sumarvinnu vestur á firði.
Þá ræða Dagrún og Vilhelmína við Björk Hólm þjóðfræðing og forstöðumann safna í Dalvíkurbyggð. Söfn bæjarins bjóða upp á fjölbreytta og áhugaverða jóladagskrá alla aðventuna, meðal annars með spennandi jóladagatali á Facebook síðu Byggðasafnsins en hægt er að fylgjast með og taka þátt hvar sem er á landinu. Að auki segir Björk frá metnaðarfullum jólaundirbúningi á sínu eigin heimili.
Guðlaug Guðmunda Ingibjörg Guðmundsdóttir er þjóðfræðingur og sauðfjárbóndi með meiru. Hún segir frá forystusauðnum Eitli úr Aðventu Gunnars Gunnarssonar og sínum eigin jólahefðum sem eru breytilegar frá ári til árs.
Að lokum ræða Dagrún og Vilhelmína við Guðmund Lúðvík Þorvaldsson þjóðfræðinema en hann er sérlega kunnur störfum jólasveina og þekkir vel hvaða hæfileikum góðir og hressir jólasveinar þurfa að vera búnir. Þá segir hann frá skemmtilegum jólahefðum í tengslum við þrettándann í Vestmanneyjum.
Þá er bara að koma sér vel fyrir, grípa mandarínur og heitt kakó, leggja við hlustir og leyfa jólastemningunni að taka völdin.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir í þjóðfræði og fjölbreytta miðlun á þjóðfræðiefni. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.