Greta Karen Friðriksdóttir lauk nýlega meistaraprófi í þjóðfræði. Meistararitgerð hennar nefnist Ef ég hlæ ekki að þessu þá mun ég gráta og ég get ekki grátið svona oft og fjallar um hvernig fólk sem starfar í návígi við dauðann notar húmor sem bjargráð.
Í þættinum segir Greta frá rannsókninni. Hún tók viðtöl við fólk úr ýmsum starfsstéttum, eins og hjúkrunarfræðinga, lögreglufólk, presta, sjúkraliða og starfsfólk kirkjugarða, sem starfar í miklu návígi við dauðann og þarf að mæta fólki við viðkvæmar og erfiðar aðstæður. Við slíkar aðstæður er húmor sennilega ekki það fyrsta sem fólki dettur fyrst í hug. Engu að síður lýstu viðmælendur Gretu því að þau gætu ekki sinnt störfum sínum ef ekki væri leyfilegt að nota húmor. Þannig notuðu viðmælendur húmor meðal annars til að opna á erfiðar samræður, fá útrás fyrir tilfinningar, aftengja sig erfiðum aðstæðum og til að létta starfsandann. Þó kom fram að notkun húmors fylgja ákveðin skilyrði en til að mynda er mikilvægt að sýna virðingu og þá á húmorinn sér líka stund og stað.
Greta segir einnig frá því hvers vegna hún ákvað að læra þjóðfræði, fyrri rannsókn sinni á hreinlæti í torfbæjum og viðkomu sinni í afbrotafræði.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.