Ljósmyndir segja oft áhugaverða sögu. Þær eru ákveðinn spegill á samtímann og með tímanum verða þær mikilvægar heimildir um sögu og menningu en líka um persónulegt líf.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Sigurlaugu Dagsdóttur þjóðfræðing. Sigurlaug lauk meistaranámi í hagnýtri þjóðfræði frá Háskóla Íslands í vor. Lokaverkefni hennar var sýning í Menningarmiðstöð Þingeyinga helguð ljósmyndasöfnum tveggja ljósmyndara, þeirra Sigríðar Ingvarsdóttur og Ragnheiðar Bjarnadóttur. Um ólík söfn er að ræða en Sigríður var atvinnuljósmyndari en Ragnheiður áhugaljósmyndari. Sigurlaug segir frá sýningunni sem heitir Að fanga þig og tímann, og ræðir ljósmyndasöfn þessara tveggja kvenna út frá þemum eins og sjálfsmynd, ferðalögum og móðurhlutverkinu.
Að auki ræðir Sigurlaug um nám sitt í þjóðfræði og segir frá BA verkefni sínu sem fjallaði um deiluna um Hraunsrétt í Aðaldal í S-Þingeyjarsýslu út frá kenningum í menningararfsfræðum. Þá segir Sigurlaug einnig frá nýrri sýningu um Laxárdeiluna sem hún vinnur að núna með Menningarmiðstöðinni.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.