Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Ólöfu Breiðfjörð þjóð- og safnafræðing sem starfar sem menningarfulltrúi Garðabæjar. Í þættinum segir Ólöf frá námsferlinum og starfsferlinum.
Ólöf var orðin 37 ára þegar hún ákvað að fara í nám. Hún vildi að námið væri skemmtilegt en jafnframt hagnýtt. Í þættinum segir Ólöf frá grunnnámi sínu í þjóðfræði þar sem hún meðal annars skrifaði áhugaverða BA-ritgerð um hjálækningar óperusöngvara. Hún deilir líka með okkur nokkrum góðum ráðum sem hún rakst á við ritgerðarskrifin til að gæta raddarinnar. Ólöf segir einnig frá meistaranámi sínu í safnafræði og hvernig hún fékk draumastarfið á Þjóðminjasafninu að námi loknu. Því næst lá leið Ólafar í Kópavog þar sem hún starfaði að menningarmálum sem verkefnastjóri fræðslu og miðlunar. Í dag starfar hún, eins og áður segir, sem menningarfulltrúi Garðabæjar og sinnir fjölbreyttum verkefnum við að halda uppi öflugu menningarstarfi í bænum.
Nú er í gangi barnamenningarhátíð og er mikil dagskrá í tilefni hennar. Ólöf segir einnig frá spennandi verkefnum sem eru á döfinni í Garðabænum, meðal annars margmiðlunarsýningu í landnámsbænum í minjagarðinum á Hofsstöðum og á Garðatorgi. Í sumar verður burstabærinn Krókur á Garðaholti opinn og ýmsir viðburðir þar.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.