Við getum aldrei hjálpað öllum. Við getum ekki hjálpað flestum. Við getum rétt svo hjálpað brotabroti. En þrátt fyrir að geta hjálpað þessu brotabroti er ekki þar með sagt að við viljum það.
Nú í lok ársins 2015, árs sem verður minnst í sögubókunum sem árs fólks á flótta, er hugur minn hjá þeim sem eiga hvergi heima vegna stríðsátaka og ofsókna. Hjá fólki sem þvælist hrakið á milli borga og bæja í ókunnugum löndum með fárveik börn í fanginu og plastpoka yfir sér í staðinn fyrir úlpur. Fólki sem leggur sig í bráða lífshættu til að geta boðið börnunum sínum betra líf. Og með betra lífi er átt við líf fjarri sprengjuregni, sulti og annarri ógn. Það hafa aldrei fleiri verið á flótta undan stríðsátökum en á árinu sem er að líða.
Við sem þjóð í samfélagi þjóða stöndum frammi fyrir ákveðnu verkefni. Og það verkefni er að rétta úr okkur og sýna nokkuð sem heitir manndómur. Samþjóðlega ábyrgð, if you will. Við sem þjóð getum og eigum að vilja hjálpa fólki á flótta. Þetta er nobrainer, krakkar.
Ég hef alltaf verið ágætlega stolt af því að vera Íslendingur. Þannig lagað. Við höfum í versta falli verið kannski pínu hallærisleg á alþjóðavettvangi (2008 einhver?) en við höfum aldrei sýnt af okkur hreina og klára illmennsku. Og oftast verið frekar skynsöm bara. Og temmilega hress jafnvel. En daginn sem við sendum albönsku vini okkar úr landi var fyrsti dagurinn sem mig langaði ekki til að vera Íslendingur. Jú jú, „mistökin” voru leiðrétt, en bara vegna þrýstings frá fólki í samfélaginu sem lét sig málið varða. Og heppilegrar ljósmyndar sem náðist af ungu barni um miðja nótt með bangsa í fanginu.
Og talandi um þrýsting: Þeir sem vilja ekki almennilega setja sig inn í „þessi innflytjendamál” kalla þrýstinginn sem myndast í samfélaginu gjarnan „grátkór á samfélagsmiðlum” og „æsing” sem „fer úr böndunum”. Allt rosa óþægilegt á Facebook í nokkra daga fyrir alla. Matarmyndir og statusar um hversu margir kílómetrar voru skokkaðir á Ægisíðunni trufluð með reiði og hneykslan. Slökum aðeins á.
Svo er viðkvæðið: „Og hvað, eigum við bara að opna landið og hjálpa öllum?” Og þar með er umræðan kæfð niður, grátkórinn úthrópaður sem góða fólkið á sterum og talað um hættuleg fordæmi og svo er farið að rífast um aldraða og öryrkja á meðan „hinir” (útlendingar) eru kallaðir arfi sem þarf að díla við þegar allt er orðið elegant hérna heima hjá „okkur”. Ég skal í leiðinni veðja aleigunni minni að liðið sem dregur upp þetta debat með aldraða og öryrkja hefur aldrei leitt hugann að þeirra kjörum fyrr en kemur að umræðu um flóttafólk.
Ég á tvær litlar vinkonur sem búa hér í Reykjavík. Þær heita Jouli og Jana og eru þriggja og fjögurra ára. Þær eru frá Sýrlandi og mörg ykkar þekkja þeirra sögu. Þær komu til Íslands með foreldrum sínum frá Grikklandi, þangað sem fjölskyldan hafði flúið frá Sýrlandi. Á Íslandi hafa þau fundið skjól, eignast vini, eru byrjuð að læra tungumálið og stelpurnar eru komnar í leikskóla. En yfir fjölskyldunni hangir sú óbærilega ógn að vera send úr landi, aftur til Grikklands þar sem þau bjuggu á götunni í hartnær ár og þeirra bíða nú sömu ömurlegu aðstæður. Á sama tíma erum við að taka á móti skammarlega fáum flóttamönnum frá Sýrlandi úr flóttamannabúðum í Líbanon. Fimmtíu og fimm manns inn og fjórir út: Samtals 51. Við erum flottust.
Mig langar nú í lok árs að biðla til ykkar ráðamanna, ykkar sem ráðið hálfum hlut í þessum málaflokki, að sýna þann manndóm sem nauðsynlegur er öllu fólki sem hefur völd. Mig langar til að biðja ykkur í fullri vinsemd og kærleika að taka ábyrgð. Að leiða með góðu fordæmi og leyfa okkur Íslendingum að vera þjóð sem getur og vill gera það rétta.
Leyfum foreldrunum, Wael og Feryal, og dætrunum, Joulu og Jönu, að halda áfram að búa við öryggi hér á landi og vaxa og dafna hér með okkur. Þau völdu okkur, vilja gera Ísland að sínu landi, vilja leggja sitt af mörkum hér og gerast Íslendingar. Fyrir það eigum við fyrst og fremst að vera þakklát.
Við getum aldrei hjálpað öllum. Við getum aldrei hjálpað flestum. En með því að hjálpa því brotabroti sem við þó getum hjálpað erum við að gera það sem við getum. Og það er að minnsta kosti einhvers konar byrjun og vonandi hvatning til að gera ennþá betur. Við getum þetta alveg. Við þurfum bara viljann.
Gleðilegt ár ungarnir mínir.