Nú er komið að hinu árlega ranti um heilbrigði og hégóma. Gleðilegt ár.
Jólin eru matarhátíð og við stærum okkur af því hvað við borðum og hvað við ætlum að borða, hversu mikið við bökum og lesum óeðlilega mikið af matreiðslubloggum. Á þessum árstíma er ég með smá jólabumbu. Hún er nafnlaus febrúar og mars (tillögur óskast). Í apríl verður hún afmælisbumba og svo verður hún grill- og bjórbumba. Í september ímynda ég mér að ég sé spendýr á norðurhveli jarðar og að þau séu öll með svona forða til að lifa af kuldann, og svo líður ekki á löngu þar til hún heitir aftur jólabumba.
Ég var ekki alltaf svona sátt við þessa einangrun gegn fimbulkulda, sérstaklega ekki hvað líkama mínum fannst hann þurfa að passa sérstaklega upp á að mér væri ekki kalt á rassinum. Með hjálp hinna ýmsu dansandi Araba hef ég sæst merkilega mikið við þennan appelsínuhúðaða konfektmola sem líkami minn er. Í upphafi árs ætla margir að fá sér nýjan kropp. Hér er samt leyndó: Ef fólk ætlar að fá sér nýjan kropp og fær sér hann (tekur mislangan tíma) þá frýs hann ekkert þar eins og brosið á Ástþóri Magnússyni. Líkaminn er nefnilega ekki musteri, heldur bústaður sem maður erfði og hann krefst viðhalds allt árið um kring. Skyndilausnirnar virka ekki nema í takmarkaðan tíma. Svo verðum við öll aftur ljót tveimur vikum eftir árshátíð. En við verðum ljót saman, svo það er líka smá fallegt.
Ef allir þeir sem eiga kort í stöðvarnar myndu mæta á hverjum degi, eða ókei, einu sinni í viku, þá væri gjarnan Kaffibarsröð fyrir utan þær allar. Ég held að internetauglýsingarnar sem eru targetaðar að mér séu það vegna þess hversu mikið ég las og skrifaði um mat í síðasta mánuði. Eins og það sé bara beint samband á milli þess að allir sem leyfðu sér að njóta í desember muni leita eftir leiðum til að lifa meinlætalífi í janúar, já eða það nýjasta, frysta á sér fituna. Og svo komi þetta í endalausum búlimískum bylgjum af aðhaldi, því að sleppa sér, fá sammara og fara í aðhald, og auglýsingarnar sveiflast með.
Kjörþyngd er kjaftæði, eins og margoft hefur komið fram og það eru sáralítil tengsl milli kílóatölu og heilsu hjá þessari stóru kúrvu þarna í miðjunni. Öfgar í báðar áttir eru óheilbrigðar og ég er alls ekki að segja að hreyfing og hreysti sé slæmt kombó. Ég væri svo miklu meira með þessari brennsluhreyfingu í liði ef ég sæi glitta í meiri heilsu í gegnum hégómann. Orðalagið hefur samt breyst. Nú má eiginlega ekki segja megrun, heldur er lífsstílsbreyting all the rage.
Líkamsrækt er ekki af hinu illa. Hún er frábær ef hún er eðlilegur hluti af lífinu, allt árið um kring, ekki refsing, og snýst um að hugsa vel um líkamann, þykja vænt um hann í ferlinu og halda honum við en ekki einblína á það sem við teljum gallað. En svo er hægt að fá mikið út úr henni með því að mixa einhverju öðru með, eins og slökun, gríni eða félagslegum þáttum. Í stað þess að þjösnast í tæki sem er gert fyrir afmarkaðan vöðvahóp er hægt að hlæja sig máttlausan í brennó með gömlum skólafélögum, slússa í göngutúr, dansa við skemmtilega tónlist og syngja með sem er mjög gott fyrir þolið, eða fá útrás í keppnisleik með félögum. Svo allt í einu kemur bara svitinn án þess að maður sé að bíða eftir því, og maður var ekki einu sinni með kveikt á kaloríuappinu, og maður var að rækta hugann í leiðinni. Ef maður fær eitthvað meira en svitann út úr æfingunni þá eru minni líkur á að maður fari heim og slátri dollu af Ben and Jerry’s til að verðlauna sig. En auðvitað hentar það að keyra í líkamsræktarstöð til að ganga á göngubretti og hjóla á þrekhjóli merkilega mörgum. Áfram þið bara.
Við hin höldum áfram að reyna að finna hvatningu til að hreyfa á okkur spikið á meðan. En þangað til klöppum við því og köllum það ýmsum fallegum nöfnum.
P.S. Ég veit alveg að einhverjir ósammála mér munu deila þessu og segja að ég sé fituhjassi. Þetta heitir að fara í boltalaga manninn en ekki í boltann. Ég er ekki mjó, og það móðgar mig ekki að benda á það. Ég er samt nógu ágæt í laginu og í nógu góðu formi til að starfa sem danskennari og sirkusdýr. Ég geng í fötum sem eru merkt XL. Það þýðir extra lovely.