Árið er 1998. Ég er fimmtán ára og drottning alheimsins, buffalóskóuð og varalitablýöntuð. Ég hangi í sjoppum og stigagöngum, blá af kulda í sleik bak við kirkjuna. Eins og jafnaldrar mínir ferðast ég jafnan í flokki, hettupeysuklæddum og ósnertanlegum eins og yfirleitt á við um unglinga. Enginn óvinur fær mig sigrað þar. Nema auðvitað mamma, sem skipar mér heim klukkan hálftólf. Ég kveð því flokkinn minn og rölti heim á leið, gegnum götur og gerði hins öspum vaxna Smáíbúðahverfis. Eftir því sem ég fjarlægist Grímsbæjarsjoppuna og kunnuglegan hormónaklið félaganna er eins og kúlið fjari smátt og smátt út. Strætin sem í góðra vina hópi og dagsbirtu eru vinaleg og björt verða skyndilega drungaleg og illa lýst og aspirnar ófrýnilegar og árásagjarnar eins og í hryllingsmynd. Ég arka minn veg og horfi dálítið stjörf beint af augum án þess að gjóa augum inn í garðana sem án efa hafa að geyma hverskyns forynjur og óhugnað. Kræklótt limgerðin virðast sérhönnuð til að hylja annað eins. Bílarnir upp við gangstéttina eru einnig líklegir til að hýsa misindismenn af verstu gerð sem kippa mér upp í til sín og þar með er minni sögu lokið. Áfram strunsa ég, á götunni miðri því ég ímynda mér að Fossvogsflassarinn frægi eigi erfiðara um vik með að stökkva úr runnunum alla leið þangað án þess að eyðileggja atriðið sitt. Einbeitt hugsa ég um eitthvað hversdagslegt, Friendsþátt síðustu helgar eða ömmu og held þannig örvæntingunni í skefjum. Þegar ég beygi inn götuna mína fara þó varnirnar að hrynja og ég byrja að hlaupa. Við það fer sjálfstjórnin veg allrar veraldar og hryllingsmyndin sem hefur verið að byggjast upp í huga mér fer að rúlla fyrir alvöru. Ég þeysist niður götuna með Fossvogsflassarann sprelllifandi á hælunum, svo raunverulegan að ég heyri perralega frakkann hans sveiflast í þögninni. Ég rétt næ beygjunni að húsinu mínu og tek tröppurnar í tveimur stökkum. Buffalóskórnir gneista þegar ég kasta mér á útidyrahurðina og hryn inn um dyrnar. Í öruggu skjóli reyni ég að hemja andardráttinn og móðursýkin víkur fyrir vandræðalegri rökhyggju sem nú nær yfirhöndinni. Almáttugur Oasis, ef einhver sá nú til mín?
Síðan hef ég farið víða, verið hér og þar. Loftköstunum linnti þó síst að grunnskóla loknum. Ég hef henst andstutt og ærð inn um flestar þær útidyr sem mér hafa tilheyrt um ævina. Með aldri og reynslu varð óttinn æ rökstuddari og það að hlaupa heim með lykla milli hnúanna varð beinlínis skynsamara en ekki. Pervertískur andadrátturinn hefur elt mig um borg og bý þó vissulega sé hann háværastur í miðborginni seint um kvöld, eftir að mannmergð skemmtistaða sleppir. Þar finn ég mig nokkuð örugga í fjöldanum, þó með nokkrum undartekningum sé. Klósett skemmtistaða eru til að mynda hreint ekki til þess fallin að vekja upp öryggiskennd hjá konu einsamalli, enda reynum við að ferðast þangað í hópum.
Einhverju sinni játaði ég, ögn vandræðaleg, þessa hegðun mína í hópi vinkvenna. Þá kom í ljós að allar þekktu þær vel tilfinninguna. Um allan bæ eru konur í leiftrandi loftköstum á leið heim til sín, með lykla í annarri hendi og símann tilbúinn á neyðarnúmeri eða hjá kærasta í hinni. Við hlítum ákveðnum reglum, horfum ekki beint í augu manna, veljum okkur vel lýstar leiðir og forðumst skólalóðir og almenningsgarða í lengstu lög. Flóttaleiðin er alltaf klár, þarna er ljós í glugga og þar munum við dingla ef nauðsyn krefst. Það er jú vernd í augum svo við erum þakklátar fyrir götur sem eru skipulagðar þannig að gluggar húsanna vísi að götunni. Alltaf er þó ein og ein sem ekki kann reglurnar, týnist af leið. Eða kannski kann hún reglurnar en er gómuð þrátt fyrir það, svipað og með antílópurnar og ljónin á gresjunum. Ein hlýtur að falla í valinn, ljónin þurfa að éta til að deyja ekki drottni sínum.
Þannig verður afbrigðilegt ástand að einhvers konar normi. Við sættum okkur við að lifa í vörn, segjum dætrum okkar að vara sig í framkomu og klæðaburði, ergja ekki ljónin. Firringin varð mér ekki fullkomlega ljós fyrr en eitt kvöldin þegar dóttir mín, á þrettánda ári, hrundi inn um útidyrnar að kvöldlagi. Ótti mæðranna eltir dæturnar, Fossvogsflassarinn feykir þeim áfram áratugum saman. Munum við, um ókomna tíð, ala upp stúlkur sem hendast í ofboði inn um útidyr?
Árið 2010 settu UN Women af stað alþjóðlegt átak sem miðaði að því að gera borgir öruggari fyrir konur. Í þessu átaki fólst meðal annars að skipuleggja borgir þannig að karlmenn ættu erfiðara um vik með að ráðast á þær. Karlmenn ógna lífi og heilsu kvenna um allan heim. Það er staðreynd. Konur, hvort sem er í Nýju-Delí eða Reykjavík, hendast í loftköstum heim til sín á kvöldin af ótta við karlmenn. Í þessari fullyrðingu felst á engan hátt fordæming á öllum karlmönnum, í reynd er þessi pistill skrifaður af ást til karlmanna. Ég er svo lánsöm að vera umkringd úrvals karlmönnum sem seint myndu skaða konur. Ég settist niður með nokkrum slíkum og ræddi málið við þá. Í ljós kom að loftköstin eru ekki einskorðuð við konur. Karlmenn hræðast líka dimm húsasund, þöglar heimferðir í gegnum mannlausa garða. Þar sem við sátum þarna saman, þrjár konur og fjórir karlmenn og skeggræddum ástandið gátum við þó sammælst um eitt; andardrátturinn sem ógnar lífi okkar og limum er undantekningarlítið úr barka karlmanns.
Við þurfum að endurskilgreina karlmennsku. Stál og hnífur er merki sem við hefðum átt að leggja niður um svipað leyti og birnir hættu að vera raunveruleg ógn. Ást og blíða mun hins vegar bjarga heiminum. Ofurkarlmennska og hetjudýrkun eru að sökkva þessu skipi.
Samt stökkva haukar heimsins enn sem fyrr á þessa einu aðferð sem þeir kunna. Við höfum lítið lært. Enn sem fyrr er árásargirni upphafin sem ákjósanlegur karlmennskueiginleiki og svo undrum við okkur á því hvers vegna drengirnir okkar nauðga og berja. Við, sem af umtalsverðri natni höfum búið okkur til samvitund í eternum á nokkrum árum, hljótum að geta samið um örfá atriði. Það þarf hreint ekki að vera leiðinlegt að hætta að drepa, svelta, pynta og misnota. Okkar mun eftir sem áður bíða ærinn starfi og skemmtun, viðhald og umbætur. Enn verður rifist, elskað, talað, ort, sungið, dansað, fattað, runnið saman og sundur. Tjóðrum ofbeldið og árásargirnina, fjötrum orminn blinda og brjálaða.