Auglýsing

Árið er 1998. Ég er fimmtán ára og drottn­ing alheims­ins, buffaló­skóuð og vara­lita­blý­önt­uð. Ég hangi í sjoppum og stiga­göng­um, blá af kulda í sleik bak við kirkj­una. Eins og jafn­aldrar mínir ferð­ast ég jafnan í flokki, hettu­peysu­klæddum og ósnert­an­legum eins og yfir­leitt á við um ung­linga. Eng­inn óvinur fær mig sigrað þar. Nema auð­vitað mamma, sem skipar mér heim klukkan hálf­tólf. Ég kveð því flokk­inn minn og rölti heim á leið, gegnum götur og gerði hins öspum vaxna Smá­í­búða­hverf­is. Eftir því sem ég fjar­lægist Gríms­bæj­ar­sjopp­una og kunn­ug­legan horm­ónaklið félag­anna er eins og kúlið fjari smátt og smátt út. Strætin sem í góðra vina hópi og dags­birtu eru vina­leg og björt verða skyndi­lega drunga­leg og illa lýst og aspirnar ófrýni­legar og árása­gjarnar eins og í hryll­ings­mynd. Ég arka minn veg og horfi dálítið stjörf beint af augum án þess að gjóa augum inn í garð­ana sem án efa hafa að geyma hverskyns for­ynjur og óhugn­að. Krækl­ótt lim­gerðin virð­ast sér­hönnuð til að hylja annað eins. Bíl­arnir upp við gang­stétt­ina eru einnig lík­legir til að hýsa mis­ind­is­menn af verstu gerð sem kippa mér upp í til sín og þar með er minni sögu lok­ið. Áfram strunsa ég, á göt­unni miðri því ég ímynda mér að Foss­vogs­flass­ar­inn frægi eigi erf­ið­ara um vik með að stökkva úr runn­unum alla leið þangað án þess að eyði­leggja atriðið sitt. Ein­beitt hugsa ég um eitt­hvað hvers­dags­legt, Fri­ends­þátt síð­ustu helgar eða ömmu og held þannig örvænt­ing­unni í skefj­um. Þegar ég beygi inn göt­una mína fara þó varn­irnar að hrynja og ég byrja að hlaupa. Við það fer sjálf­stjórnin veg allrar ver­aldar og hryll­ings­myndin sem hefur verið að byggj­ast upp í huga mér fer að rúlla fyrir alvöru. Ég þeys­ist niður göt­una með Foss­vogs­flassar­ann sprell­lif­andi á hæl­un­um, svo raun­veru­legan að ég heyri perra­lega frakk­ann hans sveifl­ast í þögn­inni. Ég rétt næ beygj­unni að hús­inu mínu og tek tröpp­urnar í tveimur stökk­um. Buffaló­skórnir gneista þegar ég kasta mér á úti­dyra­hurð­ina og hryn inn um dyrn­ar. Í öruggu skjóli reyni ég að hemja and­ar­drátt­inn og móð­ur­sýkin víkur fyrir vand­ræða­legri rök­hyggju sem nú nær yfir­hönd­inni. Almátt­ugur Oas­is, ef ein­hver sá nú til mín? 

Síðan hef ég farið víða, verið hér og þar. Loft­köst­unum linnti þó síst að grunn­skóla lokn­um. Ég hef henst and­stutt og ærð inn um flestar þær úti­dyr sem mér hafa til­heyrt um ævina. Með aldri og reynslu varð ótt­inn æ rök­studd­ari og það að hlaupa heim með lykla milli hnú­anna varð bein­línis skyn­sam­ara en ekki. Per­ver­tískur anda­drátt­ur­inn hefur elt mig um borg og bý þó vissu­lega sé hann háværastur í mið­borg­inni seint um kvöld, eftir að mann­mergð skemmti­staða slepp­ir. Þar finn ég mig nokkuð örugga í fjöld­an­um, þó með nokkrum und­ar­tekn­ingum sé. Kló­sett skemmti­staða eru til að mynda hreint ekki til þess fallin að vekja upp örygg­is­kennd hjá konu ein­sam­alli, enda reynum við að ferð­ast þangað í hóp­um. 

Ein­hverju sinni ját­aði ég, ögn vand­ræða­leg, þessa hegðun mína í hópi vin­kvenna. Þá kom í ljós að allar þekktu þær vel til­finn­ing­una. Um allan bæ eru konur í leiftr­andi loft­köstum á leið heim til sín, með lykla í annarri hendi og sím­ann til­bú­inn á neyð­ar­núm­eri eða hjá kærasta í hinni. Við hlítum ákveðnum regl­um, horfum ekki beint í augu manna, veljum okkur vel lýstar leiðir og forð­umst skóla­lóðir og almenn­ings­garða í lengstu lög. Flótta­leiðin er alltaf klár, þarna er ljós í glugga og þar munum við dingla ef nauð­syn krefst. Það er jú vernd í augum svo við erum þakk­látar fyrir götur sem eru skipu­lagðar þannig að gluggar hús­anna vísi að göt­unni. Alltaf er þó ein og ein sem ekki kann regl­urn­ar, týn­ist af leið. Eða kannski kann hún regl­urnar en er gómuð þrátt fyrir það, svipað og með antílóp­urnar og ljónin á gresj­un­um. Ein hlýtur að falla í val­inn, ljónin þurfa að éta til að deyja ekki drottni sín­um.

Auglýsing

Þannig verður afbrigði­legt ástand að ein­hvers konar normi. Við sættum okkur við að lifa í vörn, segjum dætrum okkar að vara sig í fram­komu og klæða­burði, ergja ekki ljón­in. Firr­ingin varð mér ekki full­kom­lega ljós fyrr en eitt kvöldin þegar dóttir mín, á þrett­ánda ári, hrundi inn um úti­dyrnar að kvöld­lagi. Ótti mæðr­anna eltir dæt­urn­ar, Foss­vogs­flass­ar­inn feykir þeim áfram ára­tugum sam­an. Munum við, um ókomna tíð, ala upp stúlkur sem hend­ast í ofboði inn um úti­dyr?

Árið 2010 settu UN Women af stað alþjóð­legt átak sem mið­aði að því að gera borgir örugg­ari fyrir kon­ur. Í þessu átaki fólst meðal ann­ars að skipu­leggja borgir þannig að karl­menn ættu erf­ið­ara um vik með að ráð­ast á þær. Karl­menn ógna lífi og heilsu kvenna um allan heim. Það er stað­reynd. Kon­ur, hvort sem er í Nýju-Delí eða Reykja­vík, hend­ast í loft­köstum heim til sín á kvöldin af ótta við karl­menn. Í þess­ari full­yrð­ingu felst á engan hátt for­dæm­ing á öllum karl­mönn­um, í reynd er þessi pist­ill skrif­aður af ást til karl­manna. Ég er svo lánsöm að vera umkringd úrvals karl­mönnum sem seint myndu skaða kon­ur. Ég sett­ist niður með nokkrum slíkum og ræddi málið við þá. Í ljós kom að loft­köstin eru ekki ein­skorðuð við kon­ur. Karl­menn hræð­ast líka dimm húsa­sund, þöglar heim­ferðir í gegnum mann­lausa garða. Þar sem við sátum þarna sam­an, þrjár konur og fjórir karl­menn og skegg­ræddum ástandið gátum við þó sam­mælst um eitt; and­ar­drátt­ur­inn sem ógnar lífi okkar og limum er und­an­tekn­ing­ar­lítið úr barka karl­manns.Við þurfum að end­ur­skil­greina karl­mennsku. Stál og hnífur er merki sem við hefðum átt að leggja niður um svipað leyti og birnir hættu að vera raun­veru­leg ógn. Ást og blíða mun hins vegar bjarga heim­in­um. Ofur­karl­mennska og hetju­dýrkun eru að sökkva þessu skipi. 

Samt stökkva haukar heims­ins enn sem fyrr á þessa einu aðferð sem þeir kunna. Við höfum lítið lært. Enn sem fyrr er árás­ar­girni upp­hafin sem ákjós­an­legur karl­mennsku­eig­in­leiki og svo undrum við okkur á því hvers vegna drengirnir okkar nauðga og berja. Við, sem af umtals­verðri natni höfum búið okkur til sam­vit­und í eternum á nokkrum árum, hljótum að geta samið um örfá atriði. Það þarf hreint ekki að vera leið­in­legt að hætta að drepa, svelta, pynta og mis­nota. Okkar mun eftir sem áður bíða ærinn starfi og skemmt­un, við­hald og umbæt­ur. Enn verður rifist, elskað, tal­að, ort, sung­ið, dans­að, fatt­að, runnið saman og sund­ur. Tjóðrum ofbeldið og árás­argirn­ina, fjötrum orm­inn blinda og brjál­aða.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Bjarni Benediktsson er formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni segir rangt að hann „vilji Sósíalistaflokkinn feigan“
Formaður Sjálfstæðisflokksins segir að Gunnar Smári Egilsson snúi út úr orðum sínum um styrki til stjórnmálaflokka. Honum þyki 120 milljóna styrkur á kjörtímabilinu til flokks sem fékk enga þingmenn kjörna einfaldlega of há fjárhæð.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Finnur Birgisson
Saga tekjutengingar ellilífeyris almannatrygginga frá 1946
Kjarninn 16. ágúst 2022
Gunnar Smári Egilsson er formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands.
Segir Bjarna vilja ýkja völd Sjálfstæðisflokks umfram fylgi og draga úr áhrifum annarra
Bjarni Benediktsson hefur sagt að hann vilji draga úr opinberum styrkjum til stjórnmálaflokka. Gunnar Smári Egilsson segir ástæðuna þá að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi ekki jafn mikið á greiðslu frá ríkinu að halda og áður.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Hér má sjá Drífu Snædal, fyrrverandi forseta ASÍ, og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar þegar betur áraði i samskiptum þeirra á milli.
Segir ASÍ hafa beinlínis unnið gegn nýjum öflum innan verkalýðshreyfingarinnar
Formaður Eflingar segir fram­kvæmda­stjóra SA ekki missa svefn yfir útbreiddum svikum atvinnu­rek­enda á þeim kjara­samn­ingum sem hann gerir fyrir þeirra hönd. Í greinaflokki, sem byrjaði að birtast í morgun, ætlar hún að rekja sögu ágreinings innan ASÍ.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Horft niður í Hvalfjörð frá Brekkukambi í Hvalfjarðarsveit. Á fjallinu stendur til að byggja vindorkuver.
Íslenskir sérhagsmunaaðilar með „erlenda orkurisa í farteskinu“
Þótt ekkert vindorkuver sé risið hafa áform um fjölmörg slík þegar valdið sundrungu og deilum innan samfélaga út um landið, segir Andrés Skúlason, verkefnisstjóri hjá Landvernd. Hann segir vindorkufyrirtæki beita miklum þrýstingi og jafnvel blekkingum.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Auglýsing frá upphafi áttunda áratugar síðustu aldar.
Ævintýrið um Carmen rúllurnar
Hvað gerir danskur kaupmaður sem finnst hann ekki hafa nóg fyrir stafni? Hjá Arne Bybjerg kaupmanni í danska bænum Kalundborg var svarið einfalt: að framleiða hárrúllur. Hann gaf þeim nafnið Carmen.
Kjarninn 16. ágúst 2022
Eitt og annað ... einkum danskt
Eitt og annað ... einkum danskt
Ævintýrið um Carmen rúllurnar
Kjarninn 16. ágúst 2022
Sólveig Anna Jónsdóttir
Villimenn við borgarhliðið: Kreppa íslensku verkalýðshreyfingarinnar I
Kjarninn 16. ágúst 2022
Meira úr sama flokkiKjaftæði
None