Ok, dragið nú fram poppskálarnar kæra bíllausi-lífstíls herdeildin mín. Vitiði hvað kom fyrir frekar fína bílinn (með hita í sætum og miðstöð sem virkar) sem ég keypti mér um daginn? Ég keyrði ofan í holu eða öllu heldur fokking gíg á stærð við sinkhole (takk Reykjavíkurborg) og við það fór vélin í rúst og reikningurinn frá verkstæðinu hljóðaði upp á 500 þúsund krónur.
Einhver skilningsríkur og samúðarfullur gæti mögulega haldið að þarna hefði þjáningum mínum í tengslum við þennan fjandans bíl verið lokið. En nei nei, það var auðvitað ekki í boði. Misery loves company.
Hvað haldiði að hafi komið fyrir bílinn daginn eftir að hann kom úr viðgerð? Jú, skemmdarverk í skjóli nætur. Einhverjir óprúttnir aðilar tóku sig til og teiknuðu stóran tittling meðfram allri hliðinni á bílnum. Bara eins og ekkert væri eðlilegra. Morguninn eftir keyrðum við fjölskyldan út í daginn og tókum ekki eftir hálfum hlut fyrr en í lok dags. Í heilan dag keyrðum við um bæinn eins og #freethetyppi kverúlantar í boði glæpamanna sem ráfa um göturnar á nóttunni og svívirða heiðarlega bíla.
Fyrst kvartlestin er komin af stað (tjú tjú) hvernig væri þá að gægjast inn í dimman og kaldan helli sem ég vil kalla fasteignasögu mína? Ég keypti mína fyrstu íbúð árið 2003 og seldi hana sirka ári síðar þegar vinnan sendi mig til Brussel. Á þessu ári sem ég átti hana hafði íbúðin hækkað um heilar 387 þúsund krónur svo ég kom út í smá plús, helvíti ánægð með mig. Ég var úti í átta mánuði og kom svo heim. Á þessum átta mánuðum hafði íbúðin, sem ég átti ekki lengur, hækkað um 7 milljónir. Lífið er sannkallað lotterí. Fyrir suma. En ekki mig. Skoðum betur.
Stuttu eftir heimkomuna 2005 keypti ég mér aðra íbúð sem ég átti í þrjú ár. Eftir nokkrar vikur kom skrýtið hljóð og smá furðuleg lykt upp úr niðurfalli í þvottahúsinu. Aha. Viðkvæmir geta hætt að lesa hér. Án þess að fara út í smáatriði þá fylltist jarðhæðin af innihaldi klóakslagna síðustu 70 ára (70 ár af klósettferðum krakkar) á einu svívirðilegu korteri. Menn með loftbor voru daglegir gestir hjá mér næstu þrjá mánuðina eða svo. Á tímakaupi. „Allur Vesturbærinn er tifandi tímasprengja, kominn tími á öll rör hérna, skrýtið að það sé ekki flæðandi klóak um göturnar, lol!” – sagði fagmaður við mig á þessum tíma kampakátur þar sem hann leiddi stóran rana ofan í jörðina þar sem eitt sinn var gólfið mitt.
Var ég ekki tryggð fyrir neinum af þessum ósköpum, gæti einhver spurt. Einmitt það. Stutta svarið: tryggingarnar „ná ekki utan um” tilkeknu tjónin sem ég hef rakið hér að ofan. Og talandi um tryggingar, smá hliðarsaga: Um daginn hringdi ég í tryggingafélagið mitt og spurði hvort ekki væri hægt að lækka iðgjöldin eitthvað þar sem ég væri að spá í að kaupa líf- og sjúkdómatryggingu á línuna (að gefnu tilefni). Svarið sem ég fékk: Þú ert með svo svakalega tjónasögu að það er ekkert svigrúm til lækkunnar. Svakaleg tjónasaga indeed. Ef þetta lið bara vissi hvað gerist utan vaktar trygginganna.
Svo, vegna hryllings og volæðis liðinna ára hef ég lært að vera með vakandi auga fyrir hlutum sem „eiga ekki að geta gerst”. Skoðum dýraríkið sem dæmi. Sagt er að dúfur geti ekki flogið á fólk. Think again. Ég fékk einu sinni dúfu beint í andlitið þar sem ég spígsporaði um torg í útlöndum. Í leiðinni reif kvikindið ævafornan ættargrip af hálsi mínum (erfðargóss frá hollensku forfeðrum mínum) sem ég sá aldrei framar. Ómetanlegur gripur horfinn í klær dúfu sem flaug í andlitið á mér þegar það átti ekki að vera hægt. Ég, útklóruð og arflaus á einu hryllingssekúndubroti.
Það er eins og kosmósið hafi ákveðið daginn sem ég steig fyrst fæti á þessa jörð að henda í mig ódæmigerðum óhöppum. „Þú tryggir ekki eftir á” sagði snjall maður eitt sinn. Ég gæti allt eins sleppt því að tryggja fyrirfram. Líf mitt er ein stór ótryggð og flókin tjónasaga.
Þegar ég held svo að staða mín sem manneskja geti ekki orðið mikið verri þá kemur þetta ofan á mitt beyglaða brjósklosaða bak (s/o á brjósklosaðgerðina 2012 eftir fæðingu sem gekk herfilega): Ég er auðvitað hræðilega ósmekkleg að gera það sem ég er að gera hér. Kvart og vælubíll yfir öllu þessu havaríi sem eru...wait for it: Lúxusvandamál í bland við svo mikil fyrsta heims vitleysisgangs vælumál að ég fæ raunverulegan svima yfir óhemjuganginum í sjálfri mér.
Ég gat í það minnsta keypt mér íbúðir, annað en heimurinn. Og hvað, aumingja bíllinn með fínu sætunum lenti ofan í holu í örugga landinu sem hann er svo heppinn að fá að keyra um í? Snökt. Og úpps, sprakk rörið í fína og dýra Vesturbænum? Úff. Og æ æ, týnidst perlufestin í fína útlandinu sem ég fékk að heimsækja í fríi? Cry me a river.
Svo, hvað höfum við hér? Jú: aumingja. Og ekki bara aumingja heldur óheppinn aumingja. Rétt upp hönd, það er ég.
ps. Ekki segja síðan að ég hafi ekki varað ykkur við þegar geimverurnar lenda og taka yfir. Og hvar munu þær lenda gæti einhver spurt? Á þakinu mínu. Og nei, ég er pottþétt ekki tryggð.