Í gær borðaði ég gulrótarbollur í kvöldmat. Eitthvað „tilbúið í ofninn“ sem ég kaupi nokkuð reglulega, því það er bæði fljótlegt að elda þær og svo er þetta alveg ágætt á bragðið. Ég opna bara kassann, fjarlægi filmuna af plastbakkanum, hrúga osti yfir og sting þessu í ofninn. Reyndar skil ég ekki hvernig plastbakki getur chillað í 200 gráðum í tuttugu mínútur, en ég er svo sem ekki eðlisfræðingur.
Ég er heldur ekki náttúrufræðingur, en mér skilst að kjötát okkar mannanna sé að ganga af plánetunni dauðri. Ég hef reyndar ekki sett mig nægilega vel inn í þessi mál, en þetta hefur víst eitthvað að gera með dýrafret. Það er verið að rækta svo mikið af dýrum fyrir okkur að borða, sem öll þurfa að leysa ógurlega mikinn vind, að ósonlagið stendur nú í forstofunni og hótar því að yfirgefa partíið. Eða eitthvað. Eins og ég segi, ég veit takmarkað um málið, nema út frá fyrirsögnum blaðagreina sem ég les ekki. Vegna þess að ef ég les þessar greinar, set mig almennilega inn í þetta, horfi á Cowspiracy og allt það, þá mun ég þurfa að breyta venjum mínum. Það verður nefnilega sífellt erfiðara fyrir mig að verja kjötát mitt. Ekki fyrir árásum frá böggandi grænmetisætum og herskáum náttúruverndarsinnum, heldur fyrir sjálfum mér. Samvisku minni. Já, það er samviska þarna einhvers staðar.
Þegar ég hugsa um það, þá hef ég aldrei orðið fyrir aðkasti frá nokkrum manni vegna þess sem ég borða. Ekki einu sinni frá grænmetisætum. Sem er skrýtið, vegna þess að ég heyri reglulega harmakvein hörundssárra kjötæta sem barma sér yfir eilífum aðfinnslum grænmetisætanna. Ég hef borðað kjöt í 36 ár og ekki heyrt múkk í þeim. Eitt múkk heyri ég þó reglulega — stríðsöskrin í kjötrembunum á Facebook. Þær eru á öllum aldri. Yngri kynslóðin heldur sig aðallega í lokuðum grænmetisætugrúppum og reynir daglega að slá Ólympíumet í að vera ógeðslega fyndin. Þetta eru mestmegnis fíngerðir, vatnsgreiddir drengir á framhaldsskólaaldri, þunnhærðir á pungnum, sem réttast væri að senda í sveit. Eldra fólkið er meira í athugasemdakerfum vefmiðlanna.
„Blóðuga steik á diskinn minn, namminamm,“ skrifar ögrandi eldri kona við frétt af mótmælum Aktívegan–liða fyrir framan Sláturfélag Suðurlands. Athugasemdin hennar er ein af hátt í 300, en í hvert sinn sem dýraverndunarsinnar rugga bátnum mæta Virkir og gjörsamlega geðveikir í athugasemdum á svæðið og ausa úr skálum einsemdar sinnar. Það fer óheyrilega í taugarnar á þeim að einhver skuli dirfast að standa í klukkutíma með skilti í skítakulda fyrir utan girðingu einhvers staðar á Selfossi. Helvítis (hafra)lattelepjandi, listamannalaunaþiggjandi liðleskjur! Já, sumir halda með kjöti eins og aðrir halda með Manchester United. Og þegar liðinu gengur illa verða allar tilraunir til að verja það svo krúttlega kjánalegar, svona eins og snjáður bolur úr Dogma sem á stendur „Brown is the color of poo“.
En af hverju hætti ég ekki bara að borða kjöt? Ef ég á að vera alveg hreinskilinn, þá bara hef ég ennþá ekki nennt því. Kjötlaus lífsstíll er vesen og við erum að tala um 36 ár af dellu sem þarf að vinda ofan af. Þegar ég skrifa þetta líður mér að vísu eins og ég sé með lokuð augun, vísifingurna í eyrunum, hrópandi „LALALALALA“. Það er þægilegra að lesa ekki fréttirnar. Að gera sér ekki grein fyrir umfangi vandans. Að borða bara rúllupylsuna sína og steinhalda kjafti.
Hins vegar er líka alveg allt í lagi að borða minna kjöt. Ég er tótallí þar. Einhvers staðar las ég að það væri miklu betra fyrir umhverfið að margir borði minna kjöt en að fáir borði ekkert kjöt. Að allir borði ekkert kjöt er ekki inni í myndinni, allavega ekki á meðan stór hópur fólks lítur á kjötát sem einskonar trúarbrögð. Líklegra er að kjötát muni þróast eins og fylgi Sjálfstæðisflokksins. Mjakast hægt og bítandi niður á við næstu áratugi, eftir að alls konar reglugerðir og neyslustýring hafa gert kjötát að einhverju sem maður leyfir sér bara á jólunum. Endar svo í rauðvínsfylgi, þegar aðeins útrásarvíkingar hafa efni á að kaupa pepperóní.
Maðurinn er ekki kjötæta. Maðurinn borðar bara það sem honum sýnist. Dýrin liggja vissulega vel við höggi, þar sem flest þeirra eru minni og aumari en mannfólk. Það réttlætir það samt ekki að gráðugir verksmiðjustjórar troði sextán hænum á fermetra. Það er eins og ef það hefðu verið átta Almarar í kassanum. En það er viljandi sem ég staldra ekki sérstaklega við hlið dýranna í þessum pistli (þau eru líka ekki einu sinni að lesa þetta). Ég má ekki við meira samviskubiti í bili. Baby steps.
En burt séð frá dýravelferð, þá hefur þú heldur ekkert gott af því að borða magál og malakoff í öll mál. Ef fréttirnar sem ég sleppti því að lesa eru sannar, þá munt þú á endanum þurfa alfarið að hætta að borða kjöt. Það eina sem getur hægt á því ferli er að við borðum öll minna af því. Það er líka fullt annað gott á bragðið sem inniheldur ekki kjöt. Þú getur byrjað á einhverju einföldu. Til dæmis svona „tilbúið í ofninn“–gulrótarbollum. Það er fljótlegt að elda þær og svo er þetta fínt á bragðið. Þú opnar bara kassann, fjarlægir filmuna, hrúgar osti yfir og stingur inn í ofn.