Klukkan er tvær mínútur í miðnætti þegar konan kemur heim af kvöldvaktinni. Börnin eru farin að sofa og ég sit í stofunni á náttbuxunum að horfa á átjánda YouTube–myndbandið í röð af fólki að detta og meiða sig. Neðan úr forstofunni heyrist „hæ“ og ég stöðva myndbandið. Ég svara ekki, heldur læt mig leka niður á mjóbakið, ligg hálfur í sófanum og hálfur á gólfinu, beini útlimunum í allar áttir, galopna munninn og geri mig rangeygðan.
„Haukur?“
Ég heyri hana labba upp stigann en svara samt ekki. Hún gengur inn ganginn, kemur inn í stofu og við henni blasir mín allra besta eftirherma af líki. Þetta er klassískt grín á mínu heimili þegar annað hvort okkar kemur seint heim. Stundum leik ég líkið, en ég hef líka oft komið að líkinu sjálfur.
Ég er 37 ára og hún þrítug. Ráðsett fólk með börn, bæði í vinnu og hvorugt í neyslu. En þetta þykir okkur alveg hreint ótrúlega fyndið — og að því gefnu að hvorugt okkar verði svo óheppið að finna einhvern tímann lík í alvörunni, þá hugsa ég að þetta vandaða grín eigi mörg ár eftir.
—
Í gær spjallaði ég dágóða stund við góðan kunningja minn, 43 ára gamlan fjölskylduföður og yfirmann hjá virðulegri ríkisstofnun, þar sem við spiluðum hinn sígilda leik „hræðilegir afarkostir“. Í honum fær maður virkilega erfiðar spurningar, undantekningarlaust mjög subbulegar og það er bannað að segja pass.
„Hvort mundirðu frekar sofa hjá Kim Jong-un, vikulega til æviloka, eða breytast í hann?“
„Uh, sofa hjá honum vikulega, held ég. Eða bíddu … þarf ég að totta hann líka?“
„Já, stundum.“
„Nei, þá myndi ég frekar velja að breytast í hann.“
—
Vinur minn, 38 ára gamall parhúsaeigandi í Vesturbænum, kíkti í kaffi um daginn. Hann var nokkuð venjulega klæddur, en ég veitti því þó athygli að á öðrum sokknum hans var stórt gat og út um það gægðist tá. Við ræddum um daginn og veginn, meðal annars hækkandi fasteignaverð, stýrivexti og fiskveiðistjórnunarkerfið. Honum var eitthvað illt í vísifingrinum og nuddaði hann af miklum móð. Hann hafði klemmt sig á einhverju og útilokaði ekki að hafa tognað. Sagði að það brakaði líka ógurlega í honum.
„Prófaðu að toga í hann og hlustaðu.“
Ég togaði í vísifingurinn og um leið gaf afturendi mannsins frá sér svo hávært fret að mér þótti það mesta furða að börnin hefðu ekki vaknað. Honum var að sjálfsögðu ekkert illt í puttanum, heldur hafði ég gengið í heimsins elstu fretgildru.
—
Vinnu minnar vegna sat ég fund úti í bæ hjá ónefndu fyrirtæki. Þegar við mættum var mér og samstarfsfólki mínu vísað inn í fundarherbergi þar sem forstjórinn og framkvæmdastjórinn biðu okkar. Mikilvægir viðskiptavinir úti í heimi tóku þátt í fundinum í gegnum Skype. Fljótlega eftir að fundur hófst missti ég athyglina og byrjaði að virða herbergið fyrir mér, sem og fundargestina. Mér fannst ég ekki eiga heima þarna. Leið eins og þegar ég var lítill og „fullorðna fólkið“ var að tala saman. Ég var líka eini karlmaðurinn þarna sem var ekki í jakkafötum, eða í það minnsta skyrtuklæddur og vel greiddur. Gott ef ég var ekki í hljómsveitarbol. Fundarherbergið sjálft var svo þetta dæmigerða nýmóðins snjallherbergi og listaverkin á veggjunum kostuðu eflaust meira en íbúðin mín. Á einum veggnum hékk flennistór tússtafla, en hún gegndi engu hlutverki á fundinum. Það var líka búið að stroka allt út af henni.
„Nei, heyrðu nú mig.“
Það glitti í eitthvað sem hafði verið strokað út. Ég pírði augun og sá kunnuglegar útlínur. Eitthvað sem krotað hefur verið á tússtöflur frá því þær voru fundnar upp. Jú, þú giskaðir rétt. Þetta var tittlingur. Þrútinn og groddalegur skaufi, auðveldlega einn sinnum tveir metrar að flatarmáli, með áföstum eistum. Þá hafði sérstaklega mikil vinna verið lögð í hlykkjóttar æðarnar og gróf punghárin. Ég veit ekki hver þessi Caravaggio typpamyndanna var, en enginn hafði aðgang að þessu fundarherbergi nema vera að minnsta kosti fertugur og annað hvort í jakkafötum eða fínni blússu.
—
„Jæja … hættu þessu nú, þetta er bara sóðalegt,“ sagði ég við fjögurra ára stjúpson minn þegar hann var búinn að syngja frumsamið lag um kúk og piss í um það bil mínútu. Mér fannst lagið reyndar alveg ágætt, en við fullorðna fólkið verðum víst að vera góðar fyrirmyndir.