Ég var ofvaxið barn. Mínar fyrstu minningar fela í sér að líða óþægilega í fanginu á einhverjum ættingjaræfli sem var að reyna að sitja undir krakka á stærð við afa sinn og um átta ára aldur vildi áhyggjufullur læknir gefa mér hormónasprautur til að hægja á vexti. Sjálfsmynd mín og lífsviðhorf mótaðist gífurlega af þessum ofvexti. Ég var aldrei krútt og hataði í laumi litlu sætu stelpurnar í bekknum sem flissuðu í smæð sinni meðan strákarnir báru þær á hestbaki. Í danstímum dansaði ég við kennarann, gjóandi öfundsjúkum augum á píslina sem fékk að dansa við strákinn sem ég var skotin í. Sá náði mér tæplega í öxl. Enn í dag líkar mér frekar illa við smávaxið fólk. Ég vann reyndar öll skólahlaup lengi vel, ekki vegna þess að ég væri sérstaklega fljót heldur af því að ég var helmingi stærri en allir hinir krakkarnir. Smá eins og æsti pabbinn sem rústar Latabæjarhlaupinu og allir klappa vandræðalega fyrir í lokin. Þegar ég byrjaði í nýjum skóla í áttunda bekk héldu allir að ég væri mamma einhvers af bekkjarfélögunum sem trítluðu um í Adidasgöllum í barnastærð. Ég gekk í gráum dragtarjakka.
Þegar ég byrjaði í nýjum skóla í áttunda bekk héldu allir að ég væri mamma einhvers af bekkjarfélögunum sem trítluðu um í Adidasgöllum í barnastærð. Ég gekk í gráum dragtarjakka.
Smám saman hægðist þó á mér og undir lok grunnskólans höfðu jafnaldrarnir allflestir náð mér. Í dag er ég fremur venjuleg, eða því heldur tölfræðin fram. Það breytir því þó ekki að mér líður alltaf eins og ég sé risavaxin. Innra með mér snöktir stutthærða, krullaða og klunnalega konubarnið sem þráir það eitt að vera krútt. Háir hælar stækka mig á einhvern undraverðan hátt langt yfir öll mörk og ég fer ósjálfrátt að labba eins og gíraffi. Allt mitt líf hef ég þannig barist gegn þessari, að hluta til ímynduðu, stærð. Bæði fataval og hárgreiðsla miðaði framan af að því einu að draga úr hæð minni. Ég laug til um sentímetra eins og aðrar stelpur lugu til um kíló (auðvitað laug ég síðan líka til um kíló). Ég var líka afskaplega rólegt og fyrirferðarlítið barn. Hafði mig lítið í frammi og var svo sannarlega ekki fyrir neinum. Hljóðláti risinn. Þó að þar hafi meðfædd persónueinkenni eflaust spilað inn í tel ég mig einnig hafa verið að bæta upp fyrir óhóflega plásstöku. Biðjast hljóðlega afsökunar á tilveru minni, stillt, prúð og passleg.
Og hvers vegna þótti mér þetta svo bagalegt? Hefði stráki liðið jafn afkáralega í minni stærð? Hefði læknirinn verið á barmi örvæntingar fyrir hans hönd, tilbúinn með afdrifaríkt inngrip í sprautuformi? Mig grunar þvert á móti að stráka-ég hefði verið kóngur bekkjarins og eytt ævinni í að ýkja stærð mína.
Við sem samfélag reynum í sífellu að minnka konur. Við hrósum stúlkubörnum fyrir að vera prúðar og stilltar, hvetjum þær til að tala lágt og leika sér rólega á meðan strákarnir okkar læra að taka pláss og athygli. Við hvetjum þessi sömu stúlkubörn þó til íþróttaiðkunar en sú iðkun rúmast ekki í íþróttafréttatímum. Það er rými stráka.
Við sem samfélag reynum í sífellu að minnka konur. Við hrósum stúlkubörnum fyrir að vera prúðar og stilltar, hvetjum þær til að tala lágt og leika sér rólega á meðan strákarnir okkar læra að taka pláss og athygli. Við hvetjum þessi sömu stúlkubörn þó til íþróttaiðkunar en sú iðkun rúmast ekki í íþróttafréttatímum. Það er rými stráka. Líkamsrækt kvenna miðast í flestum tilfellum að því að minnka þær, á meðan karlmenn stefna að stækkun, áður en þeim vex ábyrg ístra. Við byrjum snemma að rugla í rými kynjanna hvað þetta varðar. Bandarísk rannsókn frá 2005 sýndi fram á að foreldrar þriggja ára drengja hafa áhyggjur af því að þeir borði ekki nógu mikið á meðan foreldrar stúlkna á sama aldri hafa áhyggjur af því að þær borði of mikið. Þriggja ára. Ókei. Svo kennum við svöngu stúlkunum okkar að sitja með krosslagðar fætur svo þær taki eins lítið pláss í heiminum og þeim framast er unnt. Við konur hrósum enda hver annarri fyrir minnkun, sveltum okkur og undirgöngumst allskyns samfélagslega samþykkta þjáningu því guð forði veröldinni frá aukamassa af konum út um allt, takandi verðmætt pláss frá karlmönnum. Skessur eru ævagömul ógn sem mikilvægt er að hafa taumhald á. Þær éta jú menn.
Ég sat í aftursæti leigubíls um daginn ásamt tveimur vinum mínum, öðrum karlkyns. Þar sem við konurnar sátum samankramdar og kvenlegar, klesstar upp við sitthvora hurðina eins og okkur bar meðan karlmaðurinn sat í fæðingarstellingu í miðjunni með metra á milli læranna rann mér skyndilega réttlát reiði í brjóst. Í einni svipan kristallaðist allt óréttlæti heimsins í þessari einkar ójöfnu plásstöku. Með Bríet á hægri öxl og de Beauvoir á þeirri vinstri þjösnaði ég grunlausum félaga mínum til hliðar og hreytti einhverju illkvittnislegu í hann um að feðraveldið þarna á milli lappa hans þyrfti tæpast allt aftursætið. Sármóðgaður reyndi hann blessaður að láta minna fyrir sér fara, þrátt fyrir að vera það ljóslega ekki eðlilegt. Allt umhverfi hans hefur enda frá fæðingu sannfært hann um sjálfsagðan rétt hans til rýmis. Sú sannfæring má þó ekki vera á kostnað míns rýmis.
Hættum að ala upp fyrirferðarlitlar stúlkur. Setningar eins og: „Hún er svo róleg og hæglát, það fer varla neitt fyrir henni“ ættu ekki að hljóma í viðurkenningarskyni, heldur sem áhyggjuefni er þarfnast úrlausnar. Líkömnuð þekking gleymist síður, jafnrétti þarf að innprenta í vöðvaminni beggja kynja. Veröldinni væri mun betur borgið ef meira færi fyrir konunum hennar.