Ég er anarkisti. Mín upplifun er eftirfarandi:
Stærsta vandamálið sem steðjar að mannkyninu í dag eru afleiðingar hins banvæna hjónabands kapítalisma og lýðræðis. Eins og tvær meðvirkar hömlulausar ofætur með sykursýki á háu stigi, sem missa smám saman útlimi sína og drepast svo úr viðbjóðslegu sinnuleysi, ætlar samspil þessara kerfa að leggja mannlegt samfélag og náttúru í rúst.
Samfélag okkar er í laginu eins og pýramídi. Á toppnum trónir fólkið sem stjórnar og er best stætt. Á botninum þau sem halda hinum á toppnum uppi með umfram vinnu, framleiðni sinni og sköttum. Einu sinni hélt ég að fólkið á toppnum væri vandamálið. Og lausnin. Ef við bara kysum rétta fólkið til þess að stjórna okkur þá myndi allt leysast. Að ef lang-réttsýnasta, sniðugasta, gáfaðasta og besta fólkið væri við stjórnina þá gætum við loksins tjillað og hætt að pæla í pólitík. Og þetta reynum við á fjögurra ára fresti. Alltaf með frekar svekkjandi niðurstöðu.
En fólk er ekki vandamálið. Og ekki lausnin heldur. Vandamálið er pýramídinn. Kerfið. Og ríka fólkið sem borgar fyrir að halda því óbreyttu.
Fólk er gott. Ef það er valdalaust og ber aðeins ábyrgð á lífi sínu og sinna nánustu. Ef við horfum á niðurstöður rannsókna geðlækna og sálfræðinga annars vegar og hins vegar það hvernig mannkynssagan hefur spilast þá fer það smám saman að verða augljóst. Fólk er flest gott, en um leið og þér er gefið tækifæri til þess að ráðskast með líf einhvers þá ertu strax orðinn margfalt hættulegri en þegar eina lífið sem þú getur rústað er þitt eigið. Og þetta sjáum við á hverjum degi á litlu eyjunni okkar: Valdhafar, í litlum sem engum tengslum við almenning, sópa til sín auði og eignum. Smám saman orðnir spilltir og valdasjúkir.
Þessi hegðun er alls ekkert bundin við eina tegund stjórnarhátta. Hún kemur upp allstaðar þar sem fólk, með alla sína breyskleika og galla fær tækifæri til þess að hafa það aðeins betra en aðrir. Lýðræði, kapítalismi, kommúnismi, lénskipulag, konungsveldi, sama hvaða nafn pýramídinn ber þá er það fólkið á toppnum sem hefur það best og fólkið á botninum sem hefur það verst.
Það að kjósa réttasta fólkið er nefnilega ómögulegt þegar þau sem þú kýst spillast einfaldlega af völdunum sem þú gefur þeim.
Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn eru ekki spilltir af því stofnendur hans skrifuðu það í stofnsáttmálann eða af því þangað sækist sérstaklega spillt og valdasjúkt fólk. Fólk, sem eitt sinn hafði ekkert nema hugsjónir (og hugsanlega lögheimili í Garðabæ) er einfaldlega orðið afvegaleitt. Ástæðan er sú að þau hafa verið við stjórn allt of lengi. Gamla máltækið er einfaldlega satt: Vald spillir, og algjört vald gjörspillir. Það að kjósa réttasta fólkið er nefnilega ómögulegt þegar þau sem þú kýst spillast einfaldlega af völdunum sem þú gefur þeim.
Því kerfið er gallað. En við höldum áfram að vona. Að nýtt höfuð á skrímslið gerið það góðhjartað. En það er lögun pýramídans sem er gölluð. Að organískar kaótískar lífverur í kaótískum kakafónískum heimi séu settar inn í kerfi hannað af mönnum er líklega ekki að fara að virka. Og út úr þeim raunveruleika sprettur þessi hugmynd að lausn. Anarkismi. Hann gengur ekki út á stjórn-leysi. Hann gengur út á stjórnenda-leysi. Að enginn geti sóst eftir því að stjórna öðru fólki. Að enginn hafi yfir stórkostlegum völdum og eignum að ráða sem hann geti beitt í eigin þágu en sagst vera að vinna fyrir heildina. Að allir séu jafnir. Einkennisorðin „enginn öðrum æðri“ ættu nefnilega að vera eitthvað sem flestir gætu verið sammála.
Á heimsvísu, sem og á Íslandi, sjáum við þörfina á róttækum breytingum. Kerfið sem kæfir okkur er vandamálið, ekki fólkið sem við kjósum til þess að óhjákvæmilega arðræna okkur í gegnum það. Ójöfnuður eykst. Valdastéttin stjórnast af auðmönnum, og lagasetning víðast hvar er sniðin að hinum ofurríku. Fimm hagfræðingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins voru að senda frá sér skýrslu með allskonar áhugaverðum niðurstöðum. Þar á meðal þeirri að blautir draumar hálf-guða allra frjálshyggju-gutta; Milton Friedmans og Ronalds Reagan, gangi ekki upp í raunveruleikanum.
Kenningin sem notuð er til að réttlæta aukna auðsöfnun þeirra allra ríkustu er kölluð trickle-down economics. Hún hefur oft verið nefnd „brauðmolakenningin“ en ég kýs að þýða sem „lekanda-hagfræði“, og hefur verið höfð leiðarljós við stefnumótun valdhafa víðast hvar á Vesturlöndum.
Velsældin á að leka niður eftir pýramídanum eins og íranskur kavíar og Cristal-kampavíns-hagvöxturinn svoleiðis frussast yfir okkur öll. Það er meiri lygi en árið 2014 í lífi Hönnu Birnu.
Samkvæmt henni mun allt sem kemur þeim allra ríkustu vel einnig koma þeim fátækustu vel á endanum. Velsældin á að leka niður eftir pýramídanum eins og íranskur kavíar og Cristal-kampavíns-hagvöxturinn svoleiðis frussast yfir okkur öll. Það er meiri lygi en árið 2014 í lífi Hönnu Birnu. Þeir ríku verða einfaldlega sjúklega ríkir og eyða peningunum sínum í gull-pípuhatta og einglyrni, og alls ekki á þann hátt að milli- eða lægstu stéttirnar njóti þeirra. Þar við situr.
Og það að AGS, klappstýra og varðhundur laissez faire og alheimslögga hagkerfisins, sé að halda þessu fram er jafn sjokkerandi og ef Gylfi Ægis segði skyndilega „Sorry guys, hommar eru fínir, það er ég sem var að vera algjör faggi.“
Einnig kemur fram í skýrslu AGS að ef innkoma þeirra 20% ríkustu eykst lækkar landsframleiðsla. Ef verkalýðskjör eru skorin niður verða einnig þeir ríkustu ríkari og þeir fátæku fátækari. Þannig að allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til þess að gera kjör verkafólks verri og til þess að auka hagsæld vina sinna koma aðeins þeim sem mest hafa vel. Ekki láta silfurskeiðungana segja ykkur neitt annað.
Ef við leyfum kerfinu sem við búum í að viðgangast mun útkoman ekki vera góð fyrir okkur, afkvæmi okkar eða aðrar lífverur á þessum bláa hnetti. Hryllilegt hjónaband kapítalisma og fulltrúalýðræðis er ekki aðeins samfélagslegt krabbamein, heldur er offramleiðsla og ofneyslan sem því fylgir að ganga að plánetunni okkar dauðri. Áframhaldandi ójöfnuður, tortíming plánetunnar og sú fullkomna ringulreið sem það hefur í för með kemur engum vel. Hrun pýramídans kemur jafn illa við alla íbúa hans, hvort sem þeir hírast á botninum eða tróna á toppnum. Við endum öll í rústunum saman. Kannski spurning um að fórna hagvexti og hefðum fulltrúalýðræðisins áður en það gerist? Eða halda bara áfram og taka allt draslið með okkur í gröfina?