Ég var staddur á yfirgefnum hostel-bar á eyju í Suður-Taílandi þegar Geir H. Haarde bað guð um að blessa Ísland í ræðu sem var að mestu leyti stolin úr kvikmyndinni Armageddon. Ég veitti galtómri þvælunni sem vall upp úr sitjandi forsætisráðherra samt ekki mikla athygli því að ég var allt of upptekinn við að horfa á þá litlu peninga sem ég átti hverfa ofan í eitthvert svarthol sem kallast gengisvísitala.
Fram að þessu hafði ég í barnslegri einlægni haldið að peningar væru föst stærð sem ég einn hefði þau forréttindi að kasta á glæ í pizzur, raftæki og illa ígrundaðar utanlandsferðir – ekki eitthvað sem gæti bara gufað upp.
Þremur svefntöflum, 50 þúsund króna láni frá fyrrverandi kærustu og 500 evru sekt fyrir smygl á kínverskri DVD-útgáfu af Mýrinni (þar sem Baltasar sjálfur var á kápunni á hestbaki með kúrekahatt) síðar var ég kominn aftur til Íslands – eða Nýja Íslands eins og það var víst kallað; atvinnulaus, heimilislaus, skuldugur. Hvernig gat þetta gerst? Til þess að skilja hvernig þetta gat gerst þurfti ég að fara í ferðalag. Ferðalag aftur í tímann.
Átján ára gamall fékk ég mér mitt fyrsta kreditkort. Einhverjir myndu spyrja hvað einstaklingur með engar ráðstöfunartekjur hefur að gera með greiðslukort, en sölumaðurinn frá kortafyrirtækinu var ekki sá maður; þvert á móti sagði hann að þetta svarta kort væri fyrir ungt fólk. Ég, verandi ungt fólk, var ekki að fara að efast um orð einhvers sem ætlaði að gefa mér 40 auka þúsundkalla sem ég gæti eytt í hvað sem hugurinn girntist.
Tveimur mánuðum síðar fékk ég svo mína fyrstu innheimtuviðvörun.
Ég mun aldrei gleyma henni því að hún lét sér ekki nægja að nota rautt letur og hástafi til að undirstrika alvarleika málsins, heldur var bréfið sjálft prentað á eldrauðan pappír með svörtu feitletri eins og boðskort í sataníska afmælisveislu. Þessu fylgdi mitt fyrsta og eina kvíðakast.
Stuttu síðar tók ég annað stórt skref í lífi fulltíða einstaklings og fékk mér mína eigin heimasímalínu. Að sjálfsögðu hringdi enginn í þetta númer nema sölumenn. Ég hef alltaf átt erfitt með símsölu og þá sérstaklega að segja nei þegar ég virkilega vil segja nei. Það er einhver brotinn partur af mér sem vill að öllum líki vel við mig og það endar oftar en ekki á því að ég segi já, sem aftur hefur skilað sér í gríðarlegu magni af uppsöfnuðum gíróseðlum á heimabankanum mínum frá hinum ýmsu kristilegu góðgerðarsamtökum sem ég hef engan hug á að borga.
Í þetta skiptið hringdi maður með titrandi röddu í mig. Hann sagði mér að hann væri að kynna nýja þjónustu, eitthvað sem mundi verða til þess að ég gæti átt náðugt ævikvöld. Einhverjir myndu spyrja hvað menntaskólanemi hefði að gera við viðbótarlífeyrissparnað ofan á enga lífeyrissparnaðinn sem hann var með nú þegar. Ekki ég, ég gat ekki sagt nei. Ég reyndi samt hið sígilda bragð: að biðja hann um að hringja aftur seinna í þeirri von um að ég mundi einhvern veginn gleymast, en þrautseigja þessa manns var með ólíkindum. Hann hringdi og hringdi þangað til ég gat ekki hummað þetta fram af mér lengur og ég neyddist til að mæla mér mót við hann. Þar sem ég var í skólanum yfir daginn endaði þetta með því að þessi maður hringdi í farsímann minn, ég þurfti að afsaka mig úr enskutíma og fara út á bílastæðið fyrir utan MH þar sem þunnhærður maður með flóttalegt augnaráð bað mig um að setjast í aftursætið á skítugri Toyota Corollu eins og ég væri tálbeita í Kompásþætti.
Þarna sat ég, 18 ára og allslaus, að kvitta á einhverja pappíra í þríriti. Svo keyrði þessi lífeyrisníðingur í burtu og ég sat eftir, alveg galtómur að innan. Það tók mig mörg ár að eignast einhverja peninga. Það var ekki með dugnaði og eljusemi eða hugviti heldur með gömlu aðferðinni: að verða fyrir strætisvagni og fá miskabætur. Ég gleymi aldrei þegar ég fór fyrst í bankann eftir það til þess að fá fjármálaráðgjöf og þjónustufulltrúinn fletti mér upp, sá greiðsluna frá VÍS, brosti, og sagði „Til hamingju!“ eins og ég hefði unnið stóra plastávísun í einhverju bótalottói. Það næsta sem hún sagði mér var að ég þyrfti að drífa mig í að losa þessa peninga út af bankareikningnum og byrja að láta hann vinna fyrir mig. Hún sagði „Sjóður 9. Lítil áhætta og mikill ávinningur.“ Hún náði mér á hugmyndinni um að láta peningana vinna fyrir mig þar sem ég hafði prufað að vinna fyrir peningum og líkað það illa. Ég labbaði út úr bankanum og var alveg óvart orðinn einhvers konar fjárfestir.
Spólum áfram um hálft ár og allt þetta fé var horfið. Taílenska bahtið át íslensku krónurnar, restin af krónunum var frosin í einhverjum peningamarkaðssjóði, Baltasar Kormákur í kúrekabúningi var engan veginn 500 evra virði og ég hafði bara tvisvar notað 35 þúsund króna Adidas-hlaupaskóna sem ég keypti í einhverri bótamaníu. Þarna var að fullu staðfest að ég veit ekki neitt.
Ég vissi svo sem alveg að ég vissi ekki neitt. Það sem ég vissi hins vegar ekki var að þeir sem ég hélt að ættu að hafa vit fyrir mér vissu ekki neitt heldur. Af þessu get ég einungis dregið þá ályktun að enginn viti nokkurn tíman neitt um nokkurn skapaðan hlut.
Kreditkortasölumaðurinn vissi ekki neitt, lífeyrissjóðsníðingurinn vissi ekki neitt, þjónustufulltrúinn minn vissi ekki neitt. Heil keðja af fólki sem veit ekki neitt að segja öðru fólki sem veit ekki neitt eitthvað kjaftæði eftir skipun frá einhverjum millistjórnanda sem veit pottþétt minnst af öllum. Og ef einhver veit eitthvað þá er viðkomandi líklega að nota þá vitneskju til þess að blekkja einhverja vitleysinga.
Það er ekkert skrítið að heil kynslóð hafi ekki nokkurn áhuga á eða beri traust til lýðræðis. Hvernig getur maður lagt traust á hóp fólks sem maður hefur ekki nokkra minnstu trú á að viti á nokkurn hátt hvað það er að gera?
Það er engin lausn í sjónmáli. Brandíska trúðabyltingin er ekki að koma til að frelsa okkur undan lýðræðinu í faðm sósíó-anarkismans, það er heldur ekkert sjarmerandi ofurmenni á leiðinni til að leiða okkur í mjúka fjötra menntaða alræðisríkisins og ef Messías kemur aftur er hann líklega að fara að kasta okkur flestum rakleitt í pyttinn.
Það eina sem mun standa eftir er Elliði Vignisson, standandi á fjallháum haug af logandi rusli íklæddur brynju úr gömlu dekkjagúmmíi, að píska áfram emjandi hjörð af náttúruverndarsinnum sem eru tjóðraðir við Herjólf og draga hann skref fyrir skref út úr Landeyjahöfn eins og egypskir þrælar að hlaða pýramídana í Gísa.
Ég gæti líka látið reyna á smá lágmarkssjálfsábyrgð og farið á námskeið í fjármálalæsi hjá Íslandsbanka. Ætli það sé hægt á raðgreiðslum?