Nú þegar nokkrar vikur eru liðnar frá „mosku-gate“-útspili Framsóknarflokksins í Reykjavík, og ljóst er að þessir tæplega sex þúsund einstaklingar sem kusu flokkinn munu ekki fá víðtæk völd í borginni um sinn, er fróðlegt að rýna í viðbrögð hins almenna borgara við útspilinu. Sem betur fer virðast flestir vera undrandi og áhyggjufullir yfir þessum litla, háværa hópi fólks sem lítur á þá sem aðhyllast íslamstrú sem annars flokks borgara. „Virkir í athugasemdum“ hafa verið sérstaklega duglegir við að lýsa því fjálglega hversu mikill skaði muni hljótast af því að hópur fólks muni byggja hús til að biðja bænir sínar í, en vonandi lifum við það nú öll af að þurfa að sæta því að fólk eyði tímanum sínum með þeim hætti sem það sjálft kýs. Allah veit að ýmsir (þar á meðal undirrituð) dæma fólk sem ver tímanum sínum í að skrifa þröngsýnar og lágkúrulegar athugasemdir á netinu en ég veit ekki til þess að neinn sé að reyna að koma í veg fyrir að þau hittist og deili ást sinni á stafsetningarvillum og ofnotkun hástafa – ef þau svo kjósa.
Til viðbótar við þá sem lýsa opinberlega yfir andstöðu sinni við það að moska rísi í Reykjavík er ákveðinn hópur sem telur sig vera réttu megin við (réttlætis-)strikið en gjalda þó „réttilega“ varhug við yfirvofandi heilögu stríði múslima gegn vestrænni ómenningu. Hér á eftir má sjá nokkrar tegundir yfirlýsinga slíks fólks og það sem hafa mætti hafa í huga andspænis slíkum sjónarmiðum.
[embed]http://issuu.com/kjarninn/docs/2014_07_10/58[/embed]
„Ég er sko litblind – ég sé ekki hvort fólk er svart eða hvítt eða arabar eða múslimar eða hvað sem er. Tek bara ekki einu sinni eftir því.“
Raunin: Ef þú ert ekki blindur (eða í það minnsta litblindur), þá heldur þetta ekki vatni. Og miklu verra en það, því með því að halda því fram að allir séu nákvæmlega eins gerirðu lítið úr mismuninum á milli þess að tilheyra minnihlutahópi eða meirihlutahópi, og forréttindunum sem við í meirihlutanum njótum í samræmi við það. (Svo ekki sé minnst á þá staðreynd að múslimar eru ekki með einhvern ákveðinn „lit“.)
„Múslimar / svertingjar / Asíubúar eru sko alveg með jafnmikla fordóma og hvítt fólk.“
Raunin: Það gæti verið. En það skiptir ekki beinlínis máli, því það er stór munur á milli þess að verða sár vegna þess að einhver kom illa fram við þig vegna kynþáttar þíns eða trúar annars vegar, eða að verða fyrir kerfisbundinni kúgun á þeim grundvelli hins vegar.
„Ég er ekki rasisti. Besti vinur minn í grunnskóla var blandaður!/ Ég elska asískan mat!/ Ég hef ferðast út um allan heim! / Ég er búin að sjá ‚Malcolm X‘ þrisvar sinnum! / Ég bjó í Sádí-Arabíu í næstum ár!“
Raunin: Úff. Hvar á maður að byrja? Ó, bara ef allir væru jafn veraldarvanir og þú. Samt. Persónulegt samneyti þitt við fólk, hluti eða lönd sem eru þér framandi draga hvorki úr né bæta upp fyrir að níða skóinn af téðu fólki.
„Já, ókei, það er kannski slæmt að vera á móti múslimum. En hvað með fólk sem hatar samkynhneigða / konur / kristið fólk / Evrópubúa / lágvaxna? Hefurðu engar áhyggjur af þeim?“
Raunin: „Það er ekkert stigveldi þegar kemur að kúgun,“ sagði Audre Lorde einhverju sinni. Það er ekki hægt að sneiða hjá því að kljást við útjaskaðar hugmyndir um yfirburði ákveðinnar trúar, kynþáttar, kyns, þjóðar eða hvers sem er, með því að vísa til þess að annar hópur sé að þjást á sama tíma. Það er enda svo miklu auðveldara að hugsa um allt það ok sem við búum við en þann sársauka sem við völdum með hegðun okkar.
Útgangspunkturinn er þessi: Það er vissulega aðdáunarvert að lýsa yfir víðsýni, fagna fjölbreytileika og að fordæma fordóma en kné þarf að fylgja kviði. „Ég hef ekkert á móti múslimum, en ...“ er ömurleg staðhæfing sem kveikir á blikkandi neonljósum um að viðkomandi sé haldinn ranghugmyndum um eigin fordóma, og þar með um eigið ágæti. Það er nauðsynlegt að bera kennsl á fordómafullar skoðanir okkar og afleiðingar þeirra svo að við getum farið að komast að rótum ranglætisins sem fylgir því að mismuna fólki eftir ömurlegum og óréttlátum aðferðum. Og getum farið að dunda okkur við eitthvað uppbyggilegra. Eins og skipulagsmál.