Jæja krakkar. Þá er haustið handan við hornið og ekki laust við að kunnuglegur skjálfti sé kominn í mann. Það er nefnilega eins og ákveðin og að því er virðist óhjákvæmileg tuðdæla fari af stað 1. september og þar með talinn þessi pistill, hóhóhó! Um leið og fólk klárar sumarfrísmyndaorgíuna er eins og það hendi sér sjálfkrafa um borð í kvartlestina þar sem röflað er yfir öllum andskotanum sem drífur á okkar þjökuðu daga.
Skoðum nokkur dæmi sem eru svo súrrandi súr að ég get varla skrifað næstu setningar án þess að skjóta á mig eins og einu kampavínsglasi (var að gifta mig vink vink, sáuð þið það ekki á miðlunum? Always a bride, never a bridesmaid. Brúðkaupið nr. 2, ég má djóka með þetta). Allavega, hvar var ég? Alveg rétt, tuðið.
Sko, við búum í svo frábæru landi en við erum svo fokkans miklir röflarar. Og gjarnan eru það þriðja heims stuðningsaðilarnir, fólkið sem deilir myndum úr SOS barnaþorpum með fyrirsögninni: „Hjálpum þeim krakkar”, sem verða að fyrsta heims fávitum á haustin. Þá er myndum af einhverju drasli sem keypt var á Ali Express postað með upphrópunum á borð við: „ÞESSAR MEÐGÖNGUBRÆKUR KOSTUÐU BARA 2 DOLLARA Á ALI, HVAÐ HALDIÐI AÐ ÞÆR KOSTI EIGINLEGA Í GLÆSIBÆ?” Og næsta færsla: „Rauðvínið í Danmörku kostar jafn mikið og kókómjólk heima á Íslandi – TÝPÍSKT!” Svo er rúllað heim úr Keflavík eftir þriggja vikna Evrópureisu með fimm manna fjölskylduna og 8 útroðnar ferðatöskur.
Og þá hefst hið árlega nöldur, jafn áreiðanlegt og sms-ið frá Dominos um leið og pizzan fer í ofninn: Þras yfir því hvað það kosti nú eiginlega að græja skóladót fyrir krakka nú til dags.
Pennaveski og stílabækur einhver? Akkúrat, skólarnir eru að byrja. Hötuðustu innkaupalistar internetsins eru komnir í umferð og sturlunin formlega hafin í bókabúðum landsins. Og þá hefst hið árlega nöldur, jafn áreiðanlegt og sms-ið frá Dominos um leið og pizzan fer í ofninn: Þras yfir því hvað það kosti nú eiginlega að græja skóladót fyrir krakka nú til dags. Síðan ljósrita fjölmiðlar (þið eigið alla mína samúð kæru fjölmiðlar) fréttirnar frá hverjum einasta september sögunnar: Verðdæmi um skólabókakostnað þriggja barna á grunnskólaaldri, tjekk. Nærmyndir af strimlum ritfangaverslana og reitt og sveitt foreldri fyrir utan Pennann í bræðiskasti með hnefann á lofti, tjekk. Yddari á 700 kall, tjekk. Jájá, við vitum hvað þetta kostar. Allir foreldrar landsins vita það. Við erum þarna blóðug í búðunum líka. Þetta væri auðvitað ekki svona erfitt ef það mætti selja bjór í þessum verslunum en við skulum ekki opna það pandórubox í þessum pistli. Skál í boðinu (og nú langar mig aftur í drykk).
Svo kemur október og þá byrjar fólkið sem er tilbúið að tjúllast yfir jólaskrauti í búðunum SVONA SNEMMA! Liðið sem gjörsamlega gólar í hárið á sér yfir einni körfu af Grýluskrauti nálægt kassanum í Bónus. Þrír horaðir jólasveinar hangandi í snöru í sakleysi sínu yfir ilmkertunum í Rúmfó, einn eða tveir Rúdolfar með blóðnasir á bak við handklæðin í IKEA, Skyldþaðverajólahjól spilað á Rás 2 korter í níu á mánudagsmorgni og allt fer bókstaflega á hliðina. Hvaðan kemur öll þessi reiði gæti einhver spurt sig?
Ég persónulega get ekki beðið eftir jólakleinuhringjunum frá ákveðinni bandarískri keðju sem var að opna í ákveðinni götu hér í 101. Fyrir mér má húrra þessum jólahringjum til landsins frosnum núna strax í ágúst.
Ég persónulega get ekki beðið eftir jólakleinuhringjunum frá ákveðinni bandarískri keðju sem var að opna í ákveðinni götu hér í 101. Fyrir mér má húrra þessum jólahringjum til landsins frosnum núna strax í ágúst. Stútfullum af rotvarnarefnum með stóru glassúrlistaverki af Rúdolfi blessuðum ofan á hverjum hring.
Smá kenning hérna í framhjáhlaupi: Þetta. Fólk. Hatar. Jólin. Jebb, það laumuhatar jólin alla leið. Það þykist bara hata jólaskrautið „snemma“ en það hatar það líka á aðfangadag. Leikur svaka jólabörn á aðventunni og pyntar svo jólatré í jólaboðum þegar enginn sér til. Dregur eina og eina nál úr trénu glottandi. Stappar ofan á engli niðrí geymslu með Pottþétt jól í botni. Sparkar í sköflunginn á jólasveini þegar börnin líta undan og setur handsprengju í staðinn fyrir skó út í glugga á Þorláksmessu.
Og hvað gerir svo komin-með-ógeð-á-jólum-í-nóvember fólkið þegar aðventan sjálf er komin og það „má” skreyta? Er þá slakað á í hlýjum faðmi kertaljósa og sería? Nei nei, þá er mætt á Facebook á miðnætti á aðfangadagskvöld með statusa á borð við: „Guð hvað ég er fegin að þessu stressi er lokið. En halló! Það er skiptimiði á náttfötunum sem gildir bara til 4. JANÚAR. HVERNIG ER HÆGT AÐ ÆTLAST TIL ÞESS AÐ FÓLK NÁI ÞVÍ???!!!”
Þetta. Fólk. Hatar. Jólin. Jebb, það laumuhatar jólin alla leið. Það þykist bara hata jólaskrautið “snemma” en það hatar það líka á aðfangadag. Leikur svaka jólabörn á aðventunni og pyntar svo jólatré í jólaboðum þegar enginn sér til.
Já krakkar, það má alltaf finna leið. Það má, þrátt fyrir úttroðinn belg af jólasteik og stærsta konfektkassann frá Nóa Siríus á milli læranna, ná að skrifa status um að verslanir sjái sér nú alltaf leik á borði til að svína á okkur, jafnvel útbúa heila glósu sem fær 500 deilingar. Sem endar á orðunum: „Guði gefi ykkur frið elskurnar”.
Og líka eitt hérna: Þetta hatur er svo tilgangslaust og óverðskuldað: Hvernig er hægt að hatast svona út í jólin? Nú eða búðir sem stjana við okkar neysluóðuþarfir? Og sárþjáð fólk sem þarf að vinna í þeim?
Hvernig væri að safna frekar kröftum fyrir alvöru glæpa-árstíð sem er klárlega vorið með öllu sínu vibbarugli. Páskar? Morðóðir páskaungar flögrandi um allt? (hrollur). Ömurlegt hret í kortunum? Skólar lokaðir í eina og hálfa viku og allir tjúllaðir heima? Þar er nú einhver horrorinn til að tuða almennilega yfir. Hleypið mér um borð í þá kvartlest á fyrsta farrými.
Gleðilegt haust ormarnir mínir.