Mjólkursamsalan er búin að vera að svína á íslenskum neytendum í áraraðir. Samkeppniseftirlitið var að komast að þessu og þurfti til þess tvær atrennur. Rétt upp hönd sem er í sjokki.
Aldrei hefur frétt komið jafnlítið á óvart, og samt er ég búinn að lesa sömu fréttina um jarðskjálfta í Bárðarbungu svo oft undanfarnar vikur að orðin ‚sigketill’ og ‚Ármann Höskuldsson’ eru búin að glata allri merkingu fyrir mér. Ég var minna hissa en þegar Elliði Vignisson sló – aftur – sitt eigið Íslandsmet í að spila sig vitlausan með nýrri bloggfærslu um upplýsingaleka. Ég var meira að segja eiginlega minna hissa en þegar ég sá myndbandið af framsóknarkonunum delera, og þó er það orðið jafnstaðlað og þreytt netfyrirbæri og kettir á ryksuguróbótum.
Það eina sem kemur á óvart við sektina sem MS fékk er tilvist hennar; að yfirvöld skuli hafa ákveðið að grípa til aðgerða og reyna að setja verðmiða á tjónið sem þessi misnotkun hefur valdið okkur. Við því bjuggust ekki margir.
Ég, þolandinn
Mér finnst mjólk góð. D-vítamínbætta léttmjólkin er í miklu uppáhaldi (vegna þess að ég las einu sinni mjög lélega bók um svefn sem var líklega eftir einhvern skottulækni eða falsvísindamann og gekk öll út á það að til þess að eiga von um góðan nætursvefn þyrfti maður að láta sólina skína svo og svo mikið í augnbotnana á sér til að auka D-vítamínframleiðslu og ætti þess vegna aldrei að nota sólgleraugu), en ég svolgra þetta samt allt í mig og sulla út á hvert það múslí og grauta sem ratar í mínar skálar, hvort sem það heitir Fjörmjólk eða undanrenna eða matreiðslurjómi.
Á Íslandi eru framleiddar um 125 milljónir mjólkurlítra á ári. Ég er ekki búinn að reikna það almennilega, en gróft áætlað mundi ég halda að ég keypti svona 12 milljónir þeirra. Af því leiðir að ég er líklega helsta fórnarlamb þessa lögbrots. Ég gæti verið nýtt andlit hinna hlunnförnu og stofnað samtök sem heimta fundi með ráðherrum og geta svo af sér sjálfdauða stjórnmálahreyfingu.
Klipið og smurt
Þetta eru viðbrigði fyrir mig, því að önnur merk samkeppnislagabrot Íslandssögunnar hafa að mestu látið mig ósnertan – hvort sem þau hafa snúið að olíu, grænmeti eða byggingarvöru. Það er ekki laust við að ég finni svolítið til mín í þolandahlutverkinu, finnst þetta ákveðið sport – mér líður eflaust svipað og Vilhjálmi Bjarnasyni þegar hann hlustar á Rás 1 og Domino’s-auglýsingarnar misþyrma hlustunum á honum; fæ fiðring á stöðum sem ég vissi ekki að væru til og langar helst að fara í ræðustól Alþingis og tala um truflanir í lífi mínu. Og ég get upplýst það hér að ég er byrjaður að íhuga skaðabótamál.
Ég var nefnilega að velta fyrir mér um daginn hver mín verðmætasta eign væri og komst að þeirri niðurstöðu að líklega ætti ég ekkert sem ég gæti selt á yfir 50 þúsundkall. Þá staðreynd hlýt ég að rekja beint til viðskiptahátta Mjólkursamsölunnar og gat þess vegna ekki annað en glaðst þegar ég sá að nú ætti að láta þá mafíu finna til tevatnsins.
Það er samt einn hængur á, og hann er sá að varla er til verri leið til að hegna fyrirtæki fyrir að féfletta viðskiptavini sína en að leggja á þau himinháar stjórnsýslusektir. Og hún er enn verri þegar andlag sektarinnar er 18. aldar einokunarfyrirtæki. Þegar það þarf að loka glænýju 370 milljóna króna gati í rekstrarreikningi Mjólkursamsölunnar, hvort er líklegra að peningurinn verði klipinn af forstjóralaunum Einars Sigurðssonar eða að menn smyrji einfaldlega nokkrum krónum ofan á mjólkurlítrann eins og einni vænni klípu af Léttu og laggóðu? Sektin svíður örugglega en hver er betur til þess fallinn að milda sviðann en fyrirtækið sem framleiðir alla mjólkina okkar?
Nei, ég er hræddur um að það þurfi að upphugsa frumlegri refsingar eigi þær að bíta aðra en þá sem þeim er ætlað að vernda. Þær mega vera margs konar og felast í bönnum og alls kyns óþægindum, en fyrsta skrefið gæti verið að feta sömu leið og gert er þegar fjölmiðlar eru dæmdir fyrir meiðyrði: Þar sem Mjólkursamsalan er útgefandi einhvers víðlesnasta miðils landsins, mjólkurfernunnar, væri ekki úr vegi að skylda hana til að prenta ákvörðunarorð sektargerðinnar utan á hverja einustu fernu, að minnsta kosti til áramóta, félaginu til háðungar og æsku landsins til uppfræðingar og áminningar um samkeppnislöggjöfina. Í ljósi þess að hann var týndur í rúma tvo sólarhringa hefði verið gráupplagt að lýsa eftir forstjóranum á hinni hliðinni, ef hann hefði ekki birst skyndilega í sjónvarpinu í gær eins og mjólkurkýr í þokuljósum og baulað letilega og áhyggjulaust á samkeppnisyfirvöld.
Ég man reyndar núna að ég á íslenskt vegabréf. Ætli ég gæti fengið meira en 50 þúsundkall fyrir það?