Nú er komið að þessu krakkar mínir. Sá tími er að ganga í hönd þar sem þjóðin umbreytist og fer í náttúrulega grasvímu, augun eru hálfopin og efri mörk í 120. Við gleymum þeim sem hafa farið illa með okkur í gegnum tíðina, svikið okkur og prettað, umberum það sem vanalega pirrar okkur og bara almennt svífum um með yfirvegað og heilagt bros.
Ég stend sjálfa mig til dæmis að því að splæsa læki á matarmyndir þessa dagana, jafnvel af sushi og ostrum, bara eitt stórt læk á þetta allt saman. Ég kaupi færeyska harmonikkutónlist af einhverjum krúttlegum einyrkja á netinu því mér finnst hann bara eiga svo mikið skilið að selja eitthvað. Af því bara. Þið finnið mig ekki með dólg og djöfulgang við starfsfólkið í lúgunni sem gleymir saltinu með frönnunum eða lætur mig ekki hafa auka servéttu. Ónei. Ég leyfi hlutunum bara að slæda krakkar. Ég er tjill. Ég góla „já nei, ekkert mál, ekki spá í því að þú hafir keyrt mig niður, ég hringi bara á sjúkrabíl sjálf, eins og maður sé ekki með gemsa?! Knús!” Þið vitið. Ég er bara ha-ress í boðinu.
Ég rölti í bæinn og ef ég sé margmenni þá bara dembi ég mér beint í hringiðuna, beint í auga stormsins, faðma fólk og hrópa „ji, svo gaman að sjá ykkur öll, eru ekki fleiri að mæta?” Ég rölti um hverfið, kíki inn um glugga og ef ég sé blöðrur bundnar við dyrastafi þá hendi ég mér inn og geri mig velkomna í barnaafmælið sem er í blússandi gír. Ef lítið er um blöðrur við heimahús dengi ég mér í Skemmtigarðinn í Smáralind og lauma mér á bak við afgreiðsluborðin þar sem ég sker pizzur, fylli á goskönnur og fylgi krökkunum í skemmtitækin, allt í nafni friðar og kærleika.
Þessi velvild mín og almennt umburðarlyndi á ekki bara við um svikara, skyndibitastaði, ökuníðinga, einyrkja og gólandi krakka, heldur nær kærleikurinn líka til ríka fólksins. Maður skilur engan útundan um jólin, aldeilis ekki, hó, hó, hó!
Þegar sérstaklega vel liggur á mér kemur fyrir að ég leggi auka seríu á runnann hjá fína útvegsmanninum sem var svo duglegur að skreyta garðinn fyrir jólin. Ef það er snjór þá skrifa ég kveðju í hann með priki: „Þú átt svo fallega ljósakrónu, ég horfi alltaf á hana þegar ég geng framhjá húsinu þínu.”
Og hvað haldiði að ég geri þegar ég geng fram á grátandi pelsklædda frú í Melabúðinni á Þorláksmessu, algjörlega kreisí kreis því búðin klúðraði fois gras pöntuninni „þriðju fokkans jólin í röð”? Ég skal segja ykkur það. Ég faðma hana skilningsríku faðmlagi. Ef hún heldur áfram að gráta í fanginu á mér yfir því að „Heiðrún hafi klikkað á sérpantaða Baileysrjómanum” sem hún ætlaði að slá í gegn með á gamlárs og skvetta yfir creme brulee gosbruninn, þá faðma ég hana bara ennþá fastar og rétti henni tissjú. Ef hún fer út í það að þemað í ár hafi átt að vera tíu tegundir af súkkulaðilíkjörum en nú líti út fyrir að allt endi í einni tegund af ópalskoti eftir fokkup hjá Amazon eða tollinum (eða bæði, hver veit með þessa andskotans djöfla) þá næ ég í koll handa henni og hjálpa henni að anda í poka.
Og þegar liðið sem stressar sig hvað mest fyrir jólin stendur með sprungnar æðar í augum og gólar: „Í guðanna bænum, slökum aðeins á og reynum að muna hvað það er sem skiptir raunverulega máli á aðventunni!” eða „Muna svo, það þarf ekki allt að vera fullkomið, það má nota pappírsservéttur á aðfangadag svo lengi sem þær eru keyptar í HÖNNUNARBÚД og „Oh..ég elska jóga, sérstaklega í desember, bara algjör nauðsyn að kjarna sig reglulega í öllu þessu STRESSI,” þá, í stað þess að benda á að langflestir séu bara ekki rassgat stressaðir, rétti ég úr mér, kinka kolli, lofa að mæta í næsta jógatíma og rétti viðkomandi jólabjór.
Þessa dagana gæti mér ekki verið meira súrrandi sama þegar karlpungarnir sem vinna í sama húsi og ég ganga inn í lyftuna áður en ég kemst út úr henni. Ég bara bíð, fer með þeim upp og niður á allar þeirra hæðir, nokkrar ferðir og smeygi mér svo út. Ekkert mál, tekur ekki nema korter eða hvað. Það eru að koma jól.
Þetta krakkar mínir er það sem við köllum hinn sanna jólaanda. Umburðarlyndi fyrir öllu fólki, samkennd og bræðralag. Við bara nennum ekki neinu veseni á þessum tíma.
Um jólin látum við allt það sem vanalega pirrar okkur bara algjörlega slæda. Bara fjúka út á hafsauga eins og umbúðir utan af Hlöllabát í rjúkandi vetrarstormi.
Gleðileg jól.