Hildur Lilliendahl kastaði enn einni bombunni en eyddi henni svo. Hún sagði „Hetjur hafsins komu líka í land, duttu í það og lömdu konurnar sínar. Við skulum ekki gleyma skuggahliðunum á þessari menningu.”
Einhverjir brugðust ókvæða við. Hildur eyddi póstinum út, sem segir að hún hafi séð að sér eða viljað orða þetta á smekklegri hátt, eða að þetta hafi verið sett fram í hvatvísi. Og Hildur segir alls konar - eins og við öll. Sumt er sniðugt, sumt ekki. Engu að síður er eyddi pósturinn ræddur fram og til baka. Þeir sem hata Hildi mest eru þeir sem halda nafninu hennar mest á lofti og hafa gert hana að því selebi sem hún er. Þeir gleyma því stundum að það eru þeir sem eru æstir í að klikka á allt þar sem nafn hennar kemur fyrir, deila því og kommenta á það. Fjölmiðlar gera fréttir um það sem hún lætur frá sér svo lengi sem haturskórinn ýtir á fréttir þar sem nafn hennar kemur fyrir. Hún er seleb, og það er þeim að þakka.
Við byrjum á orðhengilshætti og útúrsnúning. Ég skil líka-ið sem „sumir, ekki allir“ á meðan aðrir kjósa að lesa þetta sem stóra alhæfingu. Sem alhæfing er þetta auðvitað algjört kjaftæði. Engin ein stétt held ég að stundi meira ofbeldi en önnur. En endilega, ræðum um ofbeldi og ástarsambönd og áfengi. Já, og aðrar klisjur.
Það eru 364 aðrir dagar ársins sem hún gat sagt þetta
Það er vissulega staður og stund fyrir allt, en sá sem beitir ofbeldi spyr ekki um hvaða dagur er á almanakinu. Hvað finnst fólki um auglýsingar sem hafa verið spilaðar um jólin um áfengisdrykkju? Eru þær að eyðileggja hátíðleika jólanna fyrir ykkur? Ég er bæði að tala um þessa sem fjallar um heimilisofbeldi og þessa sem fjallar um eftir einn ei aki neinn. Þær eyðileggja ekki jólin fyrir mér, en jól fjölda fólks eru ónýt úr af drykkju fjölskyldumeðlims. Þöggun er besti vinur ofbeldisins og meðvirkninnar. Tölum um ofbeldi og áfengisneyslu og aðstæður og að þetta tvennt á sér stað alla daga ársins.
Sum viðbrögðin við þessu voru á þá leið að ekki mætti segja neitt illt um sjómenn, hvort sem væri á sjómannadegi eða aðra daga. Þeir væru hetjur hafsins og máttarstólpi samfélagsins. Svona eins og hermenn í öðrum löndum, fannst manni.
Sum viðbrögðin við þessu voru á þá leið að ekki mætti segja neitt illt um sjómenn, hvort sem væri á sjómannadegi eða aðra daga. Þeir væru hetjur hafsins og máttarstólpi samfélagsins. Svona eins og hermenn í öðrum löndum, fannst manni. Ég þekki fjölda sjómanna, bæði í fjölskyldunni og í vina- og kunningjahópi. Sumum í fjöskyldunni kynntist ég aldrei því þeir fórust á sjó. Einn þeirra sem ég kannast við var sjálfum sér ekki til sóma og það var einmitt undir þessum hetjuformerkjum sem ofbeldinu var skýlt. Kona sem mér þykir afar vænt um átti sjómann sem kom í land, datt í það og terroriseraði hana og börnin. Hún sagði að þetta væri skaffarasyndróm - að honum þætti sem þetta væri í góðu lagi. Þetta voru jú launin hans og hann hélt heimilinu uppi með þessari vinnu. Stundum varði hún hann með svipuðum orðum. Hann skaffaði, og lagði sig í hættu, og hvað? Mætti hann ekki drekka í friði án þess að helvítis kellingin væri að væla í honum endalaust? Og þegiði krakkar.
Hann var sjómaður dáðadrengur, en drabbari eins og gengur
Í rómantískum sjómannalögum eru þeir nokkrir drykkjumennirnir, en það er alltaf sungið um það eins og það sé voðalega dúlluleg klisja. Simbi hallaði sér að glasinu og Þórður gerði það líka. Gylfi Ægis, Villi Vill og Sverrir Stormsker mega syngja um sjómannsdrykkjuna. Aðrar starfsstéttir drekka alveg líka, t.d. læknar, blaðamenn og stjórnmálamenn. Ég lærði samt enga söngtexta um það í Ísaksskóla. Textar Bubba Morthens eru alls ekki til að fegra sjómannslífið eða ímynd sjómanna. Þeir eru samt margir hverjir frábærir.
Sumir, fáir, kannski einn, kannski tveir, kannski hundrað, koma í land og detta í það og lemja einhvern heima hjá sér. Nákvæmlega eins og sumir klára vakt, fara heim úr annari vinnu og leggja hendur á fjölskyldumeðlimi.
Sjómannadagurinn er hátíðisdagur. Menn klæða sig upp og syrgja fallna vini og þakka fyrir að hafa komist enn og aftur í land. Takk sjómenn, fyrir að standa vaktina og fyrir ykkar hetjudáðir. Sumir, fáir, kannski einn, kannski tveir, kannski hundrað, koma í land og detta í það og lemja einhvern heima hjá sér. Nákvæmlega eins og sumir klára vakt, fara heim úr annari vinnu og leggja hendur á fjölskyldumeðlimi. Drykkjuvandamál og ofbeldi því samhliða eru vonandi ekki hluti af sjómennskunni frekar en nokkurri annarri starfsstétt. Einstaklingar beita ofbeldi, ekki starfsstéttir. Og sumir einstaklingar eru sjómenn.
Á 17. júní fögnum við því sem við köllum lýðræði. Sumir skrifa lofgreinar, en aðrir spyrja sig hvort stjórnarhættir séu í alvöru næs. Fjallkonan hrópar á virkjanavægð með því að lesa ljóð sem lofar land og náttúru yfir ráðherrum og þingmönnum. Enginn segir henni að hætta að skemma hátíðleikann.
Á ég að segja eitthvað ljótt um konur á kvenréttindadaginn?
Tveir kunningjar mínir, annar uppáhaldssjómaðurinn minn, hafa komið fram með röksemdafærsluna „hvernig litist þér nú á ef ég myndi segja á kvenréttindadaginn að sumar konur lemdu og myrtu börnin sín? Og færu frá þeim? Og lemdu líka mennina sína? Og keyptu dóp fyrir barnabæturnar?”
-
Starfsstétt og kyn er ekki sambærilegt.
-
Það eru til konur sem gera þetta. Mér finnst ekki vegið að heiðri mínum sem kona að um þetta sé rætt. Ég lem ekki kærastann minn, myrði börn eða fæ barnabætur til að kaupa dóp fyrir.
-
Sambærilegt: Á verkalýðsdaginn ræðum við ekki bara um jákvæðar hliðar þess að vera verkalýður. Kommon.
-
Kvenréttindadaginn? Af því að ég er kona? Ef þú vilt setja þetta í samhengi og það við mig, gætirðu til dæmis bent á fjölda fjöldamorðingja og barnaperverta sem hafa skýlt sér á bakvið trúðsgervi í stað þess að hengja bara á mig píkuna. Við sirkusfólk eigum bara engan hátíðisdag, ennþá.
4b. Í tengslum við kosningarétt kvenna væri kannski frekar hægt að tala um hvernig við beitum kosningaréttinum á sadískan hátt til þess að kjósa yfir okkur vanhæft fólk, og það það séu skuggahliðar á kosningaréttinum og lýðræðinu. -
Góð hugmynd að ræða þetta og halda málþing um konur, og þeirra geðveilur, ofbeldi sem þær beita og fíknisjúkdóma í kringum dag tileinkaðan konum og þeirra réttindum. Einn kom með nafn á málþingið: Hetjur heimilanna.
„Umræðan“ á fjölda steríótýpa yfir starfsstéttir: Stjórnmálamenn eru siðblindir. Listamenn eru afætur. Lögmenn eru sálarlausir. Blaðamönnum er ekkert heilagt. Kvensjúkdómalæknar eru pervertar. Þegar þessi sjónarmið koma fram stekkur starfstéttin ekki upp og allir sem þekkja einhvern í henni fram og segja: Heyrðu mig nú, ekki allir sko.
Klisjan er fjarstæðukennd, þó við þekkjum ef til vill einn sem passar inn í hana.
#þöggun og #fokkofbeldi
Í sömu vikunni eru samfélagsmiðlar betrekktir gulum og appelsínugulum grímum sem tákna að við eigum ekki að þagga niður ofbeldi. Sjómannadagurinn er alveg jafn mikill hátíðisdagur sjómannskvenna; þetta hefur oft verið sagt í fallegum ræðum og stórir sjómenn með akkeristattú fella tár. Þeirra kvenna vegna, og þeirra örfáu sem hafa lent í ofbeldi að hálfu maka síns, eða að vera í sambandi með drykkjumanni, skulum við ekki gera lítið úr því hvort sem hann er sjómaður eða ekki. Andskotinn hafi það, það er ekki hluti af því að vera maki einhvers að þurfa að kóa með fíknisjúkdómi eða barsmíðum. Sama hversu mikil hetja hann og samstarfsfélagarnir eru.
Drykkfelldi sjómaðurinn er að verða útdauð klisja. Það er t.d. erfiðara að fá pláss núna svo ég efast um að það sé verið að halda í einhverja ógæfumenn í góðum stöðum á sjó. Sömuleiðis eru konurnar líka farnar að skaffa ágætlega í landi, svona þrátt fyrir launamun.
Fögnum nútímasjómanninum og fordæmum ofbeldisverk
Við eigum ekki að gera lítið úr sjómönnum eða nokkurri annari stétt með því að bendla viðkomandi við drykkjuskap og ofbeldi. Við skulum heldur ekki gera lítið úr þeim skaða sem þeir örfáu sem drekka illa og beita ofbeldi orsaka. Það getur verið að ég sé lituð af einu dæmi úr mínum innsta hring. Svoleiðis er það oft: Einhver brýtur á einum sem fer að pæla í af hverju og hvernig er hægt að koma í veg fyrir fleiri tilfelli. En takk samt sjómennska, fyrir að eðli málsins samkvæmt var þessi eini ekki alltaf í landi.