Íslenski kvikmyndaveturinn

Auglýsing

Það er vont veður þegar þú lest þetta. Ef ekki þá er vont veður ný yfirstaðið eða rétt ókomið. Aumingja Birta Líf hlýtur að þurfa að taka tvær Sobril í hvert skipti sem hún tekur þungu skrefin í átt að myndavélinni til að tilkynna lægðabörðum almenningi að enn og aftur sé engin von í kortunum. Eina fólkið sem sést á götunum eru holdvotir, ringlaðir ferðamenn með innkaupapoka fulla af Krombacher pilsner og einn og einn yfirgíraður lífeyrisþegi í vandræðalega þröngum Helly Hansen hlaupabuxum og neongulu endurskinsvesti sem reynir að kraftskokka í burtu hugsunina um að lífeyrisgreiðslur næstu ára standi og falli með því hversu margar Svepperóní-pizzur Domino's tekst að selja á næsta rekstrarfjórðungi.

Allt annað eðlilegt millistéttarfólk er heima andlega yfirgefið undir sæng í ástandi sem best væri hægt að lýsa sem vægu hýði. Á mínu heimili erum við búin að liggja svo mikið undir sæng að við erum að umbreytast í gamla fólkið í Kalla og sælgætisgerðinni.

Netflix er flakkari frá skrítnum frænda


Þessi linnulitla þrálega hefur orðið til þess að ég hef misst mikinn mátt í fótum – en einnig að ég hef líklega aldrei horft eins mikið á sjónvarpið – og þá meina ég gamla góða fjársvelta ríkisbáknið í Efstaleitinu þrátt fyrir að teknóhipsterarnir hafi lýst því yfir að línulegt sjónvarp sé tímaskekkja sem sé að fara að líða undir lok í krafti frelsisbyltingar alnetsins. Spámennirnir eru nefnilega byrjaðir að hvísla: Netflix er að koma til þess að draga allar þessar íslensku ljósvakarisaeðlur ofan drekkingarhylinn. Það er ekki langt síðan netsamfélagið fór á hliðina yfir þeim risaviðburði að allar þáttaraðirnar af Friends væru nú fáanlegar á Netflix rétt eins og árið væri 2003. Netflix er dálítið eins og að fá lánaðan flakkara hjá skrítna frænda sínum; nokkrar klassískar bíómyndir, allar þáttaraðirnar af Friends og Family Guy og svo er restin bara myndir sem Wesley Snipes lék í eftir að hann kom úr fangelsi.

Ríkisútvarpið og sjónvarp eins og við þekkjum það í dag mun lifa af þessa ofgnægtarhátæknibyltingu af sömu ástæðu og útvarpið hefur lifað af kassettuna, geisladiskinn, iPodinn, snjallsímann og Laugardagsmorgna með Bergsson & Blöndal; samupplifun er sterkari en lokuð upplifun einstaklings. Það er eitthvað órætt, næstum óskilgreinanlegt gildi í því að upplifa eitthvað og vita til þess að þúsundir annara eru að upplifa það sama á sama tíma. Aldrei hefur þessi tenging verið sterkari en með tilkomu samfélagsmiðla sem hafa blásið lífi í hefðbundin dagskrárkvöld.

Auglýsing

Baðstofulesturstilfinningin er hve mest á Twitter þar sem hjarta landsmanna stöðvuðust samtímis þegar helsingjaungarnir köstuðu sér fram af bjargi í Sögu lífsins og tóku svo aftur kipp með tilkomu Tilfinninga-Tómasar í Gettu Betur liði Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Meira að segja þátturinn um æskuslóðir Hjörleifs Guttormssonar á N4 varð bærilegur í faðmi netsamfélagsins þótt ég hafi auðvitað líka viljað drekka stíflueyði á sama tíma. Ég vildi bara að Twitter hefði verið til staðar þegar að Hemmi Gunn stökk fallhlífarstökk, þegar Keikó kom heim eða þegar Magni tók Dolphin’s Cry. Ég hefði gefið allt til að geta tíst öllum mínum tilfinningum þegar að Villi reyndi að túlka sínar í Bandinu hans Bubba: #Mebalalibalaábalavebala.

Ég vildi bara að Twitter hefði verið til staðar þegar að Hemmi Gunn stökk fallhlífarstökk, þegar Keikó kom heim eða þegar Magni tók Dolphin’s Cry. Ég hefði gefið allt til að geta tíst öllum mínum tilfinningum þegar að Villi reyndi að túlka sínar í Bandinu hans Bubba: #Mebalalibalaábalavebala.

Lítið að gerast undir hasstaginu #ÆvintýriMerlins


Umræðan um ljósvakamiðla hefur samt villst í því að tala um hvernig fólk á að horfa á sjónvarpið – ekki hvað er í því. Það er ekki sjálfgefið að íslenskar sjónvarpsstöðvar lifi af heldur verða þær að skilja hvaða gildi þær hafa í hafsjó af erlendum efnisveitum: íslenska dagskrárgerð. Hún er það eina sem mun skipta máli. Þetta sést bæði á áhorfstölum og í örheimi Twitter; það er lítið að gerast undir hasstagginu #ÆvintýriMerlins.

Íslenskar sjónvarpsstöðvar hafa vissulega staðið sig ágætlega í að framleiða frétta- og menningarþætti en minna af því að framleiða menninguna sjálfa. Þessa stundina er ekki einn einasti leikinn íslenskur sjónvarpsþáttur á dagskrá. Ekki einn. Sú ástæða fyrir þessari menningarlegu eyðimörk sem oftast er nefnd er hversu dýrt leikið efni sé í framleiðslu. Samt er hægt að kasta mörg hundruð milljónum í fullkomlega bilað magn af einkasamningum við erlendar stöðvar svo hægt sé að sýna Glæpahneigð, Chicago Fire og House of Cards sem allir sem hafa áhuga á eru annað hvort búnir að hala niður eða streyma af Netflix - og ef að Barnaby leysir eina gátu til viðbótar þá sver ég að ég saga af mér fótinn.

Vandamálið ristir dýpra en tómi sparibaukurinn. Það hefur verið mikið gert úr uppgangi íslenskrar kvikmyndagerðar síðustu ár. Íslenska kvikmyndavorið – að hér sé að myndast hópur af einhverju hæfasta kvikmyndagerðarfólki veraldar sem hefur starfað við fjöldan allan af stórum erlendum verkefnum sem tekin hafa verið upp í faðmi einstakrar íslenskrar náttúru. Þjóðernisbrjóst okkar blæs svo út þegar við sjáum glitta í Mývatn í Game of Thrones eða Langjökul í Interstellar. Þetta er álíka góður mælikvarði á heilbrigði íslenskrar kvikmyndamenningar og að segja að íslenskt heilbrigðiskerfi sé í fínu standi af því að íslenskir læknar standi sig svo vel í að lappa upp á norska olíuverkamenn í Stavangri.

Skapið menningu, ekki flokka hana bara ofan í spólugeymslu


Í kjölfar síðustu stóru þáttaraðar RÚV, Hraunsins, skrifaði Friðrik Erlingsson, sem grætti mig rúmlega 40 sinnum með Benjamín Dúfu, harðorða grein á Klapptré.is sem grætti líklega Sveinbjörn I. Baldvinsson nokkrum sinnum líka. Þar segir hann meðal annars:

„Hvað veldur þessari skelfilegu útkomu þegar við eigum allt þetta frábæra hæfileikfólk í öllum greinum íslenskrar kvikmyndagerðar? Getur ástæðan verið sú að við vitum ekki hver við erum, hvaðan við komum, hvert við ætlum? Og þess vegna kunnum við ekki að segja sögur af okkur sjálfum?“

Það er staðreynd að það hallar gríðarlega á konur í íslenskri kvikmyndagerð – ekki aðeins í þátttöku og úthlutun styrkja, heldur eru viðfangsefni þeirra fáu verkefna sem framleidd eru oftar en ekki karllæg. Þetta er ein af stóru birtingarmyndum þeirrar hugmyndasveltu skekkju sem mótar þessa andvana listgrein. Ef leikið íslenskt efni á að eiga einhvern möguleika verður það að endurspegla það samfélag sem það fæðist úr. Það verður að hafa eitthvað um það að segja. Rýr þátttaka kvenna þýðir rýr og snauð list fyrir okkur öll. Við sitjum í sama illa þefjandi mysubaðinu ár eftir ár því að þeir sem valdið hafa eru hvorki nógu framsýnir né hugaðir til að reyna að breyta sinni eigin útjöskuðu hugmynd um hvað séu verðug verkefni. Kynjakvóti virkar á atvinnumarkaði, hann virkaði í Gettu Betur. Hann mun virka þarna líka.

Við sitjum í sama illja þefjandi mysubaðinu ár eftir ár því að þeir sem valdið hafa eru hvorki nógu framsýnir né hugaðir til að reyna að breyta sinni eigin útjöskuðu hugmynd um hvað séu verðug verkefni. Kynjakvóti virkar á atvinnumarkaði, hann virkaði í Gettu Betur. Hann mun virka þarna líka.

Ég trúi því að RÚV sé mikilvægt fyrirbæri sem sé vel þess virði að vernda. En RÚV, líkt og KMÍ, verður samt að gera betur; framleiða meira, þróa meira, opna fyrir fleiri sjónarhorn. Skapa menningu – ekki bara flokka hana ofan í spólugeymslu. Ef ekki þá er hætta á að stofnunin breytist í þá tímaskekktu risaeðlu sem sumir vilja kalla hana. Ég er tilbúinn að fórna þúsund þáttum af Sturm der liebe fyrir einn leikinn íslenskan sem hefur eitthvað að segja.

En hver veit, kannski á Baltasar eftir að bjarga okkur öllum með milljarðaseríunni Ófærð. Ég vona að hún fjalli ekki bara um karlkyns rannsóknarlögreglumann á fertugsaldri sem rannsakar dularfullt morðmál í afskekktu bæjarfélagi þar sem ekki er allt sem sýnist, uppfullu af litríkum persónum með leyndarmál. Því að þá fer Friðrik Erlingsson að gráta.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Odd Emil Ingebrigtsen, sjávarútvegsráðherra Noregs.
Norski sjávarútvegsráðherrann segir að Samherji sé með „laskað mannorð“
Sjávarútvegsráðherra Noregs segist gruna að Samherji sé að reyna að komast í kringum reglur um eignarhald erlendra aðila á norskum fiskveiðikvóta og hefur gripið til aðgerða. Hann felur ekki neikvæðni sína í garð Samherja.
Kjarninn 9. maí 2021
Jón Gnarr
Af þrælmennum
Kjarninn 9. maí 2021
Borgarstjórar skyldaðir til handabanda
Umræður um handabönd hafa, og það ekki í fyrsta sinn, ratað inn í danska þingið. Þingmenn vilja skylda borgarstjóra landsins til að taka í höndina á nýjum ríkisborgurum, en handabandið er skilyrði ríkisborgararéttar.
Kjarninn 9. maí 2021
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiKjaftæði
None