Þegar maður hélt að helvítis grænmetið gæti ekki orðið meira óþolandi þá birtist frétt á RÚV um páskaliljur þar sem kemur fram að þær séu baneitraðar og ekki megi borða þær (ekki frekar en árans jólarósina). Nema hvað, ofan á allt saman lítur laukur páskaliljunnar nákvæmlega eins út og annar laukur sem er vinsæll í kínverskri matargerð. Fólk, úti í heimi en hvað veit maður, er víst að ruglast á þessu hægri vinstri því þetta liggur allt í einni lífrænni kös í grænmetisdeildum í matvörubúðunum. Og fólk er að veikjast alveg heiftarlega krakkar. Fólk er ælandi sárkvalið og hvaðeina. Einhverjar óstaðfestar fréttir eru af dauðsföllum. Ástandið er orðið svo gasalegt að búið er að banna þessa lauka nálægt öllu grænmeti í búðum í Bretlandi.
Mannæta inn í fataskáp
Fyrir manneskju eins og mig sem hatast út í grænmeti en borða það samt öðru hvoru út af öllum áróðrinum þá var þessi frétt á pari við að lesa frétt um að það væri mannæta inni í fataskápnum heima hjá mér sem mundi drepa mig þegar ég kæmi heim úr vinnunni.
Hætturnar leynast víða krakkar mínir. Ég veit ekki um ykkur en mikið djöfullega er ég orðin leið á þessum sofandahætti í þjóðfélaginu. Það virðist algjörlega í boði að vera bara „ha?” yfir augljósum hættum sem eru um allt.
Hver vill í alvörunni deyja?
„Hvaða hvaða” – eru sennilega einhverjir dofnir slóðar að hugsa núna þegar varkárt og ég vil meina upplýst fólk eins og ég reynir að koma sér og sínum klakklaust í gegnum dagana og lífið, óbrotnu og ómyrtu og ómatareitruðu. Hver vill í alvörunni deyja? Ekki ég. Ég er ekki tilbúin!!! Mig langar ekki til að deyja!!!
Málið er að á meðan þessi bráða lífshætta (páskaliljuátið ef einhver var búinn að tapa þræðinum) bíður fyrir framan sljótt og sofandi nefið á okkur er matvælalögreglan víðs fjarri og mjög upptekin af öðru. Hvað er hún að gera gæti einhver spurt? Jú jú, hún er að ráðast á eitraða rauða kjötið (geisp) og hvað það sé óhollt og vont fyrir alla. Hún er líka að djöflast í rotvarnarefnunum sem eru víst að eyða öllu lífríki jarðar og breyta innyflum okkar í gúmmí. Og síðan fer rosalega mikill tími í að raða upp sykurmolum við hliðina á saklausri jógúrtdós og úthúða um leið vondu vondu mjólkurvörunum á meðan horuðum, ég-hef-ekki-borðað-sykur-í-3-ár fingri, er sveiflað framan í myndavélina með þóttafullum sykur- og transfitulausum svip.
Matvælaherdeildir alheimsins
Jebb, allt heila helvítis púðrið hjá matvælaherdeildum alheimsins fer í að hamast á þessum atriðum á meðan baneitraðir laukar páskaliljunnar juðast og puðast og rúlla um grænmetisdeildir hvar fólk valsar um í lífrænni vímu. Siglandi sofandi í feigðarósi hollustunnar, algjörlega blint á hætturnar sem leynast ofan í laukdallinum. Eigum við ekki bara að kalla þessar grænmetisdeildir það sem þær raunverulega eru? Hyldýpi matareitrunar? Uppspretta lífshættu og vitleysisgangs?
Grænmeti og ávextir er og hefur alltaf verið algjörlega stikkfrír málaflokkur. Það má ekki tala illa um hann. Má ekki anda á þetta eins og öll „góð málefni”.
Coco Puffs
Guð má til dæmis vita hvað er í sítrónuberki. En sér maður fólk nokkurn tíma skola af þessu? Minna. Og skola líka? Kalt vatn á bakteríur og sjúkdóma sem hafa lifað af tíu þúsund kílómetra ferðalag? Þú gætir alveg eins blásið á ebólu eða sagt „uss” við mislinga.
Á meðan eftirlitslausar appelsínur rúlla um í búðunum er kannski verið að halda átta manna neyðarfund hjá matvæladæminu því það vantaði kaloríufjölda utan á pakkana á nýjustu sendingunni af Coco Puffs. Biddu fyrir þér, þar vantar ekki agann og eftirlitið og hamaganginn. En síðan er það bara happa og glappa að við fáum að vita hvaðan þetta grænmeti og ávaxtajukk kemur sem er í búðunum hérna. Hvort þetta sé frá Mars? Hver veit nema ISIS sé að rækta þetta?
Það mun gerast
Þegar ég kemst til valda (og það mun gerast, mig dreymdi það í nótt) þá ætla ég að hafa grænmetisdeildir þannig að maður þurfi ekki að ganga í gegnum þær (halló Bónus í Holtagörðum). En ég mun ekki hætta þar. Ég ætla líka að láta byggja svona öryggishlið með vopnuðum vörðum. Kannski hef ég spurningarlista, fólk þarf að þekkja afrískar jurtir og geta þulið upp allar eitraðar plöntur sem byrja á bókstafnum Z, ef það vill fá aðgang. Síðan verður allt kyrfilega merkt þannig að þú getur lesið fæðingarsögu avakadósins, plús ættartréð, sem þú kaupir á 700 kall stykkið. Síðan þurfa allir að skjóta einu skoti af Mountain Dew og borða snickers áður en þeir komast inn í deildina. Af því bara.
Alla vega og bottomline: Það má ekki borða páskaliljur. Ég vildi bara vara ykkur við.