Á þriðjudaginn voru slétt tíu ár síðan ég vaknaði á hótelherbergi rétt hjá Tavistock Square í London við mikinn hvell. Hótelið stóð við Upper Woburn Place og við pabbi deildum herbergi sem vísaði frá götunni. Þetta var fyrsti morgunninn okkar í sjö daga fríi, klukkan var 9:47 og pabbi var auðvitað löngu vaknaður.
Þótt hvellurinn hefði verið svo mikill að húsið nötraði kipptum við okkur svo sem ekki of mikið upp við hann – ræddum stuttlega að kannski hefði þetta bara verið árekstur og hljómburðurinn í húsinu og hverfinu öllu svona sérstakur. Ég lokaði augunum aftur og lét nægja að byrja að hugsa um að fara á fætur eins og maður gerir þegar maður er tvítugur.
Eftir örfáar mínútur var bankað á herbergisdyrnar. Fyrir utan stóð litla systir mín, sem gisti með systur sinni og mömmu í herbergi hinum megin í húsinu, með glugga út að Upper Woburn Place. Hún sagði okkur að koma strax, eitthvað hefði gerst, og snerist á hæli. Ég dæsti en reif mig á lappir og í föt, enn sannfærður um að í versta falli hefði orðið harður árekstur.
Í hinu herberginu stóð kvennaarmur fjölskyldunnar við gluggann og starði út á eitthvað sem var erfitt að greina, hrúgald í um það bil 50 metra fjarlægð sem leit ekki út eins og neitt sérstakt – vinsælasta tilgátan var að þetta væri stærðar vinnupallur sem hefði hrunið en það kom ekki heim og saman við hvellinn. Fólk var farið að drífa að og safnast í dágóðan áhorfendaskara og sírenusinfónían varð sífellt háværari.
Fljótt varð ljóst að vangavelturnar mundu litlu skila og í staðinn var ákveðið að ég skyldi fara niður á götu og kanna málið. Á stigapallinum fyrir utan hótelið vatt ég mér beint upp að mjög stórum og óárennilegum manni í hlýrabol sem ég hefði undir venjulegum kringumstæðum forðast að nálgast, en ég var greinilega farinn að skynja að þetta væru ekki venjulegar kringumstæður. Ég spurði hvað hefði gerst og fékk kjarnyrt svar: „The bus just f**king blew up, man.“
Ég spurði hvað hefði gerst og fékk kjarnyrt svar: „The bus just f**king blew up, man.“
Tjöldin dregin fyrir
Ég spurði einskis frekar, fór aftur upp á herbergi og næstu klukkutímana skýrðust málin fyrir okkur hægt og rólega. Við byrjuðum að taka eftir slasaða og limlesta fólkinu sem lá og sat og götunni og gangstéttinni umhverfis strætisvagnsflakið og beið eftir aðstoð og lét svo gera að sér á staðnum, þóttumst greina lík hér og þar og fengum þann grun síðar staðfestan þegar farið var að breiða yfir þau lök.
Við kveiktum á sjónvarpinu og fréttum þar af fleiri sprengingum í neðanjarðarlestum um alla borg, mamma og pabbi byrjuðu að velta fyrir sér hvort við ættum að slaufa ferðalaginu, í raun áður en það hæfist, og fara aftur heim. Okkur var bannað að yfirgefa hótelið í nokkrar klukkustundir á meðan rannsóknarteymi athafnaði sig um allt hús og þegar okkur var loksins skipað út var það með þeim fyrirvara að alls óvíst væri hvenær við mættum snúa þangað aftur.
Við heimsóttum áfallahjálparmiðstöð sem hafði verið komið upp í kirkju í grenndinni, meira af því að við áttum leið hjá en að yfirlögðu ráði – systur mínar voru vissulega órólegar, mamma og pabbi ekki síður, aðallega þeirra vegna, en ég var farinn að hafa áhyggjur af því að ég væri síkópati, svo lítið fannst mér atburðir morgunsins hafa hreyft við mér tilfinningalega; mér fannst sérstaklega fráleit sú hugmynd að hætta við ferðina, þetta þyrfti varla að hafa svo mikil áhrif á hana. Í kirkjunni var alls konar fólk – af alls konar trúarbrögðum – og flest merkilega yfirvegað.
Eftir að hafa reynt okkar besta til að vera túristar þennan dag, þegar samgöngur voru lamaðar, hálf borgin girt af en þó merkilega mikið af þjónustustöðum enn opnir, fengum við loksins að fara aftur heim á hótel um eittleytið eftir miðnætti. Rykið hafði sest og afleiðingarnar skýrst: 52 almennir borgarar höfðu látist í árásunum, þar af 19 í vagninum fyrir utan gluggann okkar. Yfir 700 særðust.
Rykið hafði sest og afleiðingarnar skýrst: 52 almennir borgarar höfðu látist í árásunum, þar af 19 í vagninum fyrir utan gluggann okkar. Yfir 700 særðust.
Við ákváðum að vera úti og ljúka ferðinni, alla vikuna þurftum við lögreglufylgd eftir krákustígum inn og út úr götunni sem hafði verið lokað og hún falin frá umheiminum með himinháum tjöldum þvert yfir hana í báða enda. Næstu daga voru menn í hvítum hlífðargöllum við störf í strætóinum og dinglandi utan á gluggunum okkar og húsunum í kring með flísatangir mundaðar. Ég veit ekki að hverju þeir voru að leita.
Enn springur
Ég er ekki bara að rifja þetta upp vegna þess að það eru tíu ár síðan þetta gerðist, heldur vegna þess að það er margt sem mér finnst áþekkt með atburðunum þennan dag og umræðunni sem sitjandi ríkisstjórn þarf að þola.
Forsætisráðherra talaði um loftárásir í upphafi kjörtímabils, sem var gott og lýsandi orð fyrir aðfarirnar fram að því, enda auðvelt að sjá fyrir sér stjórnarliða og fylgismenn þeirra beinlínis bombarderaða með gagnrýni þannig að eftir lægi sárt hörund þeirra eins og hráviði um hinn pólitíska vígvöll, alls ekki ósvipað sundurtættum líkamsleifum írakskra barna og brúðkaupsgesta eftir sprengjuregn af himnum ofan úr ómönnuðum drónum.
En orðið loftárásir nær bara ekki utan um allt það sem forsætisráðherra og hans samflokks- og meðstjórnarfólk hefur mátt sitja undir – til þess þarf almennara orð, eins og sprengjuárásir.
En orðið loftárásir nær bara ekki utan um allt það sem forsætisráðherra og hans samflokks- og meðstjórnarfólk hefur mátt sitja undir – til þess þarf almennara orð, eins og sprengjuárásir. Þetta kom til dæmis í ljós þegar ráðherrann benti á það í kjallaragrein í Fréttablaðinu í síðustu viku að þar kæmist eiginlega enginn að með skoðanir sínar nema þeir sem hefðu horn í síðu hans – meira að segja hefðu tveir „herskáir“ fulltrúar stjórnarandstöðunnar ráðist að honum og hans fólki í ritstjórnardálkum degi áður.
Það voru engar loftárásir heldur er nær að orða það sem svo að þar hafi fjandmenn forsætisráðherra og góðra verka laumað sér inn á hinn hlutlausa vettvang sem Fréttablaðið er eða ætti að vera – það má jú segja að blaðið aki um stræti íslenskrar þjóðfélagsumræðu eins og tveggja hæða almenningsvagn í stórborg – komið sér þar fyrir innan um grandalausa farþega og BÚMM! Pólitískt aflimuðum stjórnarliðum blæðir fylgi fyrir allra augum.
Og eins og Karl Garðarsson kom orðum að svo fullkomlega þá þarf forsætisráðherra auk þess að sæta einelti og „hatursumræðu“ sem mér finnst raunar helst jafnast við þá sem hefur beinst að múslimum í hinum vestræna heimi og víðar samhliða uppgangi hryðjuverkahópa. Hvert hnjóðsyrði um verk ríkisstjórnarinnar er afsagaður svínshaus sem vanhelgar moskulóð hugar hans.
En kannski er þetta ekki sambærilegt. Miðað við stillinguna sem fólkið í kirkjunni í London sýndi hlýtur ástandið hér að vera öllu verra.