Justin Trudeau, verðandi forsætisráðherra Kanada, er frábærasti maður sem ég hef séð. Ég er búinn að eyða öllum deginum í að skoða myndir af honum; Justin að keppa í góðgerðarhnefaleikamóti til styrktar krabbameinsrannsóknum, Justin að láta tattúera á sér upphandlegginn, Justin að stunda jóga í almenningsgarði, Justin að taka þátt í gleðigöngunni. Það er ekki til slæm mynd af manninum. Þessi 43 ára formaður Frjálslynda flokksins (engin tengsl) er ekki aðeins eins og endurreisnar-marmarastytta úr holdi og blóði með svo frábærlega dökkt og þykkt hár að ég ímynda mér að það væri eins og höggva sig með sveðju í gegnum villtasta hluta Amazon-frumskógarins fengi ég að strjúka fingrum mínum í gegn um það, heldur er hann líka bjartasta vonarstjarna ungra frjálslyndra krata um heim allan.
Fyrrum stærðfræði-, frönsku- og leiklistarkennarinn Trudeau, sem er sonur eins frægasta sjórnmálamanns Kanada, kom eins og stormsveipur inn í kanadísk stjórnmál með Quebec-hippasvægi og loforði um að bjarga Kanada úr níu ára einangrunarsinnaðri afturhaldsánuð Stephens Harper. Kanada er nefnilega dálítið eins og Ísland – land sem hefur alþjóðlega ímynd frjálsræðis, góðmennsku, náttúrufegurðar og víðsýni en leynir myrkari sögu afturhalds og útlendingahræðslu sem teymd hefur verið áfram í áraraðir af sjarmalausum íhaldspung sem á tíu pör af sömu jakkafötunum og er með hárgreiðslu sem lítur út eins og hún hafi verið klippt með sjónvarpsmarkaðsryksuguhárklippunum eða keypt í Hókus Pókus.
Vá, ég man ekki einu sinni um hvort landið ég er að tala lengur.
En með Trudeau tekst Kanada loksins að samræma ímyndina og raunveruleikann. Hann er yfirlýstur femínisti sem hefur lofað að hætta loftárásum í Írak og Sýrlandi, taka inn margfalt fleiri flóttamenn en áður var áætlað, berjast fyrir afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu og varðveislu réttinda kvenna yfir eigin líkama. Hann er einnig náttúruverndarsinni sem hefur miklar áhyggjur af hlýnun jarðar, vill skattleggja hinu ríkustu og jafna kjör í landinu.
Menn sem líta svona út og hafa svona skoðanir hljóta að vera með einhverjar hræðilegar, handjárnaðar og múlbundnar beinagrindur í skápnum – en þangað til þær fljóta upp á yfirborðið sit ég glaseygður við skrifborðið mitt í vinnunni, stari út í tómið og dagdreymi um að einhver krataprins eða -prinsessa komi og bjargi okkur úr þessum fúlu popúlista-þjóðernisrembings-afturhaldsálögum sem við erum föst í næstu 18 mánuðina í það minnsta.
Svo ranka ég við mér. Ég er ekki á hestbaki á kanadískri hásléttu að láta Klettafjallaloftið gæla við skegg mitt og tignarlegar minjar þess höfuðhárs sem eitt sinn var, heldur er ég á Íslandi þar sem forsætisráðherrann vill helst einbeita sér að því að særa fram gömul embætti eins og Húsasmíðameistara ríkisins og friðlýsa 80 ára gamlan hafnargarð sem stóð í rúmt korter því að hann þótti svo mikið drasl. Hann er svo fastur í eigin Indiana Jones-LARPi að hann fæst ekki til að mæta á þingfund um afnám sömu verðtryggingar og Framsóknarflokkurinn lofaði að „taka á“ í aðdraganda síðustu þingkosninga.
Hvernig gengur annars að opna tárvota samkenndararma íslensku landhelginnar fyrir öllu því flóttafólki sem við ætlum að hleypa inn í hlýjan velferðarfaðm okkar? Í kjölfarið á enn einni fréttinni um að hælisleitendum hafi þvert á móti verið vísað rakleitt aftur úr landi hafði Unnur Brá Konnráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar, þessi traustvekjandi orð að segja:
„Það mun taka tíma að slípa regluverkið til, EN það góða við þetta er að stjórnvöld hafa sett af stað þverpólitíska þingmannanefnd sem er að skila drögum að nýju frumvarpi til ráðherra um ný útlendingalög þar sem fjallað er um hælismálin, meðal annars, og vonandi náum við að afgreiða það stóra mál í gegn um þingið í vetur.“
Þverpólitísk þingmannanefnd! Drög að frumvarpi! Kannski í vetur! Þarna erum við að tala um snarpa, skilvirka stjórnsýslu í skugga alþjóðlegra hamfara. En það verður allt allt í lagi svo lengi sem við höldum áfram að minnast á hvað ástandið er slæmt og að við munum vonandi einhvern tímann gera okkar besta.
Þannig að það er kannski best að loka bara aftur augunum og halda áfram að láta sig dreyma um okkar eigin krataprins eða -prinsessu sem mun opna landamærin, afnema verðtrygginguna, skattleggja milljónamæringana og brauðfæða öreigana. Opna fangelsin og hleypa fíknisjúklingunum út, loka álverunum og kljúfa Atlandshafið eins og Móses sjálfur svo að unga fólkið geti gengið heim frá Noregi. Leiða landið úr raunveruleikanum yfir í útópísku ímyndina sem allir skítugu júróhipparnir sem koma hingað hafa af okkur.
En í staðinn fyrir prins á hvítum Príus fáum við bara Björgvin G. – óumbeðinn og skömmustulegan – læðandi sér meðfram veggjum aftur inn á þing með hauspoka sem hann greiddi líklega ekki einu sinni fyrir.